Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

8. Hluti

Þegar áföll dynja yfir

Þegar áföll dynja yfir

„Fagnið ... þótt þið nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.“ – 1. Pétursbréf 1:6.

Jafnvel þótt þú leggir þig allan fram um að gera bæði hjónaband þitt og fjölskyldulíf hamingjuríkt geta óvæntir atburðir átt sér stað sem gera þér erfitt fyrir að varðveita gleðina. (Prédikarinn 9:11) En Guð veitir okkur kærleiksríka hjálp þegar við verðum fyrir erfiðleikum. Ef þú fylgir eftirfarandi meginreglum Biblíunnar geta bæði þú og fjölskylda þín tekist á við jafnvel erfiðustu aðstæður.

1 REIDDU ÞIG Á JEHÓVA

BIBLÍAN SEGIR: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ (1. Pétursbréf 5:7) Hafðu alltaf í huga að erfiðleikar þínir eru ekki Guði að kenna. (Jakobsbréfið 1:13) Þegar þú styrkir tengslin við hann veitir hann þér bestu hjálp sem völ er á. (Jesaja 41:10) „Úthell hjarta þínu fyrir honum.“ – Sálmur 62:9.

Þú getur einnig öðlast styrk þegar þú lest daglega í biblíunni þinni og ígrundar efnið rækilega. Þá finnurðu hvernig Jehóva „hughreystir [þig] í sérhverri þrenging“. (2. Korintubréf 1:3, 4; Rómverjabréfið 15:4) Hann lofar að veita þér frið sinn „sem er æðri öllum skilningi“. – Filippíbréfið 4:6, 7, 13.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Biddu Jehóva um hjálp til að halda ró þinni og hugsa skýrt.

  • Kannaðu alla valkosti þína og veldu síðan þann besta.

2 HLÚÐU AÐ ÞÉR OG FJÖLSKYLDUNNI

BIBLÍAN SEGIR: „Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“ (Orðskviðirnir 18:15) Aflaðu þér allra nauðsynlegra upplýsinga. Kannaðu hverjar þarfir allra í fjölskyldunni eru. Talaðu við hvert og eitt þeirra og hlustaðu vel á þau. – Orðskviðirnir 20:5.

En hvað ef ástvinur deyr? Vertu ekki hræddur við að láta tilfinningar þínar í ljós. Mundu að jafnvel Jesús grét. (Jóhannes 11:35; Prédikarinn 3:4) Það er líka mikilvægt að fá nægan svefn og hvíld. (Prédikarinn 4:6) Þá áttu auðveldara með að takast á við erfiðar aðstæður.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Vendu þig á að ræða oft við alla í fjölskyldunni. Þá eiga þau auðveldara með að tala við þig þegar vandamál koma upp.

  • Talaðu við þá sem hafa verið í svipuðum aðstæðum.

3 ÞIGGÐU HJÁLP ANNARRA

BIBLÍAN SEGIR: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ (Orðskviðirnir 17:17) Vinir þínir vilja hjálpa þér en vita kannski ekki hvernig þeir eiga að fara að. Hikaðu ekki við að segja þeim hvers þú raunverulega þarfnast. (Orðskviðirnir 12:25) Leitaðu líka eftir andlegum stuðningi hjá þeim sem hafa skýran biblíuskilning. Biblíulega leiðsögnin sem þeir geta veitt þér mun hjálpa þér. – Jakobsbréfið 5:14.

Þú getur fengið þann stuðning sem þú þarfnast með því að umgangast fólk sem trúir heilshugar á Guð og treystir loforðum hans. Það veitir þér líka mikla hughreystingu að hjálpa þeim sem þurfa á uppörvun að halda. Segðu þeim frá Jehóva og loforðum hans. Vertu upptekinn við að hjálpa öðrum sem eiga erfitt og lokaðu ekki á samskiptin við þá sem elska þig og vilja þér vel. – Orðskviðirnir 18:1; 1. Korintubréf 15:58.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Talaðu við náinn vin og leyfðu honum að aðstoða þig.

  • Vertu hreinskilinn og segðu nákvæmlega hvers þú þarfnast.