Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 16. KAFLI

Taktu skýra afstöðu með sannri tilbeiðslu

Taktu skýra afstöðu með sannri tilbeiðslu
  • Hvað kennir Biblían um líkneski og trúartákn?

  • Hvernig líta kristnir menn á trúarhátíðir?

  • Hvernig geturðu gert grein fyrir trú þinni án þess að móðga eða særa aðra?

1, 2. Hvað þarftu að kanna eftir að þú hefur yfirgefið fölsk trúarbrögð, og hvers vegna heldurðu að það sé mikilvægt?

SEGJUM sem svo að alvarleg eiturefnamengun kæmi í ljós í hverfinu þar sem þú býrð. Einhver hefur með leynd losað sig við eitraðan úrgang á svæðinu og nú er fólk í lífshættu. Hvað myndirðu gera? Eflaust myndirðu flytja burt ef þú gætir. En eftir að þú værir fluttur af hættusvæðinu myndi sú spurning vafalaust brenna á vörum þér hvort þú hefðir orðið fyrir eitrun.

2 Staðan er svipuð varðandi fölsk trúarbrögð. Biblían kennir að þau séu menguð af óhreinum kenningum og trúariðkunum. (2. Korintubréf 6:17) Þess vegna er afar mikilvægt að forða sér úr ‚Babýlon hinni miklu‘, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 18:2, 4) Ertu búinn að því? Það er hrósvert ef svo er. En það þarf meira til en að segja sig úr eða hætta að starfa með trúfélagi sem fer með falstrú. Þú þarft líka að kanna hvort það finnist einhverjar leifar af falskri tilbeiðslu hjá þér. Lítum á nokkur dæmi.

 LÍKNESKI, TRÚARTÁKN OG FORFEÐRADÝRKUN

3. (a) Hvað segir Biblían um að nota líkneski og trúartákn í tilbeiðslu, og af hverju gætu sumir átt erfitt með að sjá hlutina sömu augum og Guð gerir? (b) Hvað ættirðu að gera ef þú átt hluti tengda falskri tilbeiðslu?

3 Sumir hafa haft líkneski eða helgiskrín á heimili sínu árum saman. Átt þú eitthvað slíkt? Ef svo er þykir þér kannski undarlegt eða beinlínis rangt að biðja til Guðs án þess að hafa slíkt hjálpargagn. Mörgum þykir ákaflega vænt um muni af þessu tagi. En það er Guð sem segir til um hvernig við eigum að tilbiðja hann og Biblían kennir að hann vilji ekki að við notum líkneski eða helgimuni í tilbeiðslu okkar. (Lestu 2. Mósebók 20:4, 5; Sálmur 115:4-8; Jesaja 42:8; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Til að taka skýra afstöðu með sannri guðsdýrkun er nauðsynlegt að henda öllum munum, sem maður á, tengdum falskri guðsdýrkun. Reyndu fyrir alla muni að sjá þá sömu augum og Jehóva gerir — sem „andstyggð“. — 5. Mósebók 27:15.

4. (a) Hvernig vitum við að forfeðradýrkun er gagnslaus? (b) Af hverju bannaði Jehóva þjóð sinni að stunda spíritisma í nokkurri mynd?

 4 Forfeðradýrkun er algeng í mörgum falstrúarbrögðum. Sumir trúðu, áður en þeir kynntust sannleika Biblíunnar, að hinir dánu væru með fulla meðvitund í ósýnilegum andaheimi og gætu gert hinum lifandi gott eða illt. Margir leggja mikið á sig til að friða látna ástvini. En eins og fram kom í 6. kafla bókarinnar eru hinir dánu algerlega án meðvitundar. Þeir eru ekki til. Þess vegna er vonlaust að reyna að ná sambandi við þá. Ef boð virðast koma frá látnum ástvini eru það í rauninni illir andar sem eru að verki. Það var þess vegna sem Jehóva bannaði Ísraelsmönnum að reyna að tala við hina dánu eða stunda spíritisma í einhverri annarri mynd. — Lestu 5. Mósebók 18:10-12.

5. Hvað er til ráða ef líkneski, trúartákn eða forfeðradýrkun voru þáttur í trúariðkun þinni áður fyrr?

5 Hvað er til ráða ef líkneski, trúartákn eða forfeðradýrkun var þáttur í trúariðkun þinni áður fyrr? Þá ættirðu að lesa og hugleiða ritningargreinar sem lýsa hvernig Jehóva Guð lítur á þess háttar. Ræddu daglega við hann í bæn um löngun þína til að taka afstöðu með sannri tilbeiðslu og biddu hann að hjálpa þér að hugsa eins og hann. — Jesaja 55:9.

FRUMKRISTNIR MENN HÉLDU EKKI JÓL

6, 7. (a) Hvert er sagt vera tilefni jólanna? (b) Héldu frumkristnir menn jól? (c) Hvað var afmælishald sett í samband við á frumkristnum tíma?

6 Vinsælar hátíðir gætu valdið því að falstrú blandaðist inn í trúariðkanir manns. Tökum jólin sem dæmi. Í orði kveðnu eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists og nálega öll trúfélög, sem kalla sig kristin, halda þau. Ekkert bendir þó til þess að lærisveinar hans á  fyrstu öld hafi haldið slíka hátíð. „Fyrstu tvær aldirnar eftir fæðingu Krists vissi enginn nákvæmlega hvenær hann fæddist og flestum stóð á sama.“ — Sacred Origins of Profound Things.

7 Þó svo að frumkristnir menn hefðu vitað nákvæmlega hvaða dag Jesús fæddist hefðu þeir ekki haldið upp á daginn vegna þess að þeir „álitu það heiðinn sið að halda upp á fæðingu nokkurs manns“. (The World Book Encyclopedia) Þeir einu, sem Biblían segir frá að hafi haldið upp á afmæli, voru tveir valdhafar sem hvorugur þjónaði Jehóva. (1. Mósebók 40:20; Markús 6:21) Það tíðkaðist einnig að halda upp á afmæli heiðinna guðdóma. Svo dæmi sé tekið var haldið upp á afmæli rómversku gyðjunnar Díönu hinn 24. maí og afmæli sólguðsins Apollósar daginn eftir. Afmælishald var því sett í samband við heiðni en ekki kristni.

8. Lýstu tengslum hjátrúar og afmælishalds.

8 Það er önnur ástæða fyrir því að frumkristnir menn hafa ekki haldið upp á afmæli Jesú. Trúlega var þeim kunnugt um hjátrú sem tengd var afmælishaldi. Það var til dæmis algeng trú meðal Grikkja og Rómverja að andi væri viðstaddur fæðingu hvers manns og verndaði hann upp frá því. „Þessi andi átti dulræn tengsl við guð þess dags sem manneskjan fæddist á,“ segir í bókinni The Lore of Birthdays. Jehóva getur varla haft velþóknun á hátíðahöldum sem tengja Jesú við hjátrú. (Jesaja 65:11, 12) Hvers vegna er jólahald þá jafnútbreitt og raun ber vitni?

UPPRUNI JÓLANNA

9. Hvernig bar það til að 25. desember var valinn sem fæðingardagur Jesú?

9 Það var ekki fyrr en nokkrum öldum eftir daga Jesú sem farið var að halda upp á fæðingu hans hinn  25. desember. En Jesús fæddist ekki þann dag heldur að öllum líkindum í október. * Hvers vegna var þá farið að halda upp á fæðingu hans 25. desember? Síðari tíma menn, sem kölluðu sig kristna, hafa trúlega „viljað láta daginn bera upp á heiðna rómverska hátíð sem nefndist ‚fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar‘“. (The New Encyclopædia Britannica) Þegar afl sólarinnar virtist í lágmarki um miðjan vetur höfðu heiðnir menn uppi athafnir til að fá uppsprettu ljóss og yls til að snúa aftur úr langferð sinni. Álitið var að sólin hæfi endurkomu sína hinn 25. desember. Trúarleiðtogar tóku upp þessa hátíð og reyndu að gefa henni „kristið“ yfirbragð í þeim tilgangi að snúa heiðnum mönnum til trúar. *

10. Hvers vegna var jólahald sums staðar aflagt um tíma fyrr á öldum?

10 Menn hafa lengi gert sér grein fyrir heiðnum uppruna jólanna. Það var af þeim sökum sem jólahald var bannað á Englandi og í sumum af amerísku nýlendunum á 17. öld. Ef einhver tók sér frí frá vinnu á jóladag varð hann jafnvel að greiða sekt. En ekki leið á löngu áður en gömlu siðirnir voru tekinn upp aftur og ýmsum nýjum bætt við. Jólin urðu vinsæl hátíð á nýjan leik og er svo enn víða um lönd. Þeir sem vilja þóknast Guði halda hins vegar ekki  jól þar sem þau eru sprottin af falstrúariðkunum. Þeir taka sömu afstöðu til annarra hátíða af heiðnum uppruna. *

SKIPTIR UPPRUNINN EINHVERJU MÁLI?

11. Af hverju vilja margir halda vinsælar hátíðir en hvað ætti að vera okkur efst í huga?

11 Sumum finnst ekkert að því að halda hátíðir eins og jólin þó að þær séu af heiðnum uppruna, enda verður fæstum hugsað til falskra trúarbragða í tengslum við hátíðahöldin. Auk þess bjóða svona hátíðir upp á tækifæri fyrir fjölskyldur að hittast. Hugsar þú þannig? Þá er það líklega ást á fjölskyldunni en ekki falstrú sem gerir að verkum að erfitt getur virst að taka afstöðu með sannri guðsdýrkun. Þú mátt treysta því að Jehóva, höfundur fjölskyldunnar, vill að þú eigir sem best samband við ættingja þína. (Efesusbréfið 3:14, 15) En þú getur notað leiðir, sem Guð hefur velþóknun á, til að styrkja þessi bönd. „Metið rétt, hvað Drottni þóknast,“ skrifaði Páll postuli og átti þar við málefni sem ættu að vera okkur efst í huga. — Efesusbréfið 5:10.

Myndirðu borða sælgæti upp úr göturæsinu?

12. Lýstu með dæmi hvers vegna við ættum að forðast siði og hátíðir sem eiga sér óhreinan uppruna.

12 Þú hugsar kannski með þér að fólk sé ekki að halda þessar hátíðir núna sökum uppruna þeirra. Skiptir uppruninn einhverju máli? Já, hann gerir það. Lýsum því með dæmi: Segjum að þú kæmir auga á sælgæti í göturæsinu. Myndirðu taka það upp og borða það? Auðvitað ekki því að sælgætið er óhreint. Vinsælar hátíðir virðast kannski „sætar“ eins og sælgætið en þær eru af óhreinum uppruna. Til að taka afstöðu með sannri tilbeiðslu þurfum við að hugsa eins og Jesaja spámaður sem sagði sönnum guðsdýrkendum: „Snertið ekkert óhreint!“ — Jesaja 52:11.

 SÝNDU GÓÐA DÓMGREIND Í SAMSKIPTUM VIÐ AÐRA

13. Hvers vegna getur það kostað áreynslu að taka ekki þátt í vinsælum hátíðum?

13 Það getur kostað áreynslu að hætta þátttöku í ýmiss konar hátíðahöldum. Vinnufélagar spyrja kannski hvers vegna þú takir ekki þátt í hátíðahöldum á vinnustað. Hvað áttu að gera ef þér er gefin jólagjöf? Væri rangt að þiggja hana? Og hvað nú ef maki þinn er ekki sömu trúar og þú? Hvað er hægt að gera til að börnunum finnist þau ekki afskipt ef þau halda ekki vissar hátíðir?

14, 15. Hvað geturðu gert ef einhver óskar þér gleðilegrar hátíðar eða vill gefa þér gjöf?

14 Það þarf góða dómgreind til að bregðast rétt við í hverju tilfelli. Ef einhver óskar þér gleðilegrar hátíðar gætirðu einfaldlega þakkað fyrir. En kannski er ástæða til að segja aðeins meira ef sá sem óskar þér gleðilegrar hátíðar er vinnufélagi eða manneskja sem þú hittir oft. Vertu samt alltaf nærgætinn. Biblían ráðleggur: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kólossubréfið 4:6) Gættu þess að sýna öðrum ekki óvirðingu heldur útskýrðu afstöðu þína háttvíslega. Láttu skýrt í ljós að þú hafir ekkert á móti gleðskap og gjöfum en þú kjósir að velja þeim stað á öðrum tíma.

15 Hvað áttu að gera ef einhver vill gefa þér gjöf? Það ræðst að miklu leyti af aðstæðum. Gefandinn segir kannski: „Ég veit að þú heldur ekki þessa hátíð en mig langar samt til að gefa þér þetta.“ Þú hugsar kannski með þér að þú sért ekki að taka þátt í hátíðinni þó að þú þiggir gjöfina undir þessum kringumstæðum. Ef gjafarinn veit ekki hverrar trúar þú ert geturðu ef til vill nefnt að þú haldir ekki þessa hátíð. Þá áttar hann sig trúlega á því hvers vegna þú þiggur gjöf en gefur ekki sjálfur gjöf  við þetta tækifæri. Hins vegar væri skynsamlegt að þiggja ekki gjöf ef hún er greinilega gefin í þeim tilgangi að sýna fram á að þú lifir ekki eftir trú þinni eða gangir á svig við hana til að fá gjafir.

HVAÐ UM ÆTTINGJANA?

16. Hvernig er hægt að vera nærgætinn í sambandi við hátíðahöld?

16 Hvernig er best að bera sig að ef ættingjarnir eru ekki sömu trúar og maður sjálfur? Enn sem fyrr er mikilvægt að vera nærgætinn. Það er ástæðulaust að gera veður út af hverjum einasta sið eða hátíð sem ættingjarnir vilja halda. Virtu rétt þeirra til að hafa sína skoðun, rétt eins og þú vilt að þeir virði rétt þinn. (Lestu Matteus 7:12.) Gættu þess að gera ekki neitt sem gerir þig að þátttakanda í hátíðahöldunum en vertu sanngjarn þegar um er að ræða hluti sem flokkast ekki undir beina þátttöku. Og varðveittu alltaf góða samvisku, hvað sem þú gerir. — Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19.

17. Hvað geturðu gert til að börnunum finnist þau ekki sett hjá þegar aðrir halda hátíðir?

17 Hvað er hægt að gera til að börnunum finnist þau ekki sett hjá þegar þau halda ekki hátíðir sem stríða gegn meginreglum Biblíunnar? Það er að miklu leyti undir því komið hvað þú gerir á öðrum árstímum. Sumir foreldrar gefa börnunum gjafir á vissum tímum. Einhver besta gjöfin, sem þú getur gefið þeim, er þó tími, ást og athygli.

IÐKAÐU SANNA TRÚ

Sönn guðsdýrkun er uppskrift að ósvikinni hamingju.

18. Hvernig geta safnaðarsamkomur hjálpað þér að taka afstöðu með sannri tilbeiðslu?

18 Til að þóknast Guði er nauðsynlegt að hafna falskri tilbeiðslu og taka afstöðu með sannri trú. Hvað er fólgið í því? Biblían segir: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur  uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Safnaðarsamkomur bjóða upp á ánægjuleg tækifæri til að tilbiðja Guð á þann hátt sem hann hefur velþóknun á. (Sálmur 22:23; 122:1) Sannkristnir menn „uppörvast saman“ þegar þeir hittast við slík tækifæri. — Rómverjabréfið 1:12.

19. Hvers vegna er mikilvægt að segja öðrum frá því sem þú hefur lært af námi þínu í Biblíunni?

19 Önnur leið til að taka afstöðu með sannri tilbeiðslu er að segja öðrum frá því sem þú hefur lært af biblíunáminu hjá vottum Jehóva. Margir „andvarpa og kveina“ yfir illskunni sem á sér stað í heiminum núna. (Esekíel 9:4) Þú þekkir ef til vill einhverja sem er þannig innanbrjósts. Hvernig væri að segja þeim frá framtíðarvoninni sem Biblían hefur gefið þér? Þegar þú umgengst sanna guðsdýrkendur og segir öðrum frá unaðslegum sannindum Biblíunnar, sem þú hefur lært, dvínar smám saman löngunin til að taka þátt í siðvenjum falstrúarbragðanna. Þú mátt treysta að það verður þér til gæfu að taka afstöðu með sannri guðsdýrkun og þú hlýtur margs konar blessun fyrir. — Malakí 3:10.

^ gr. 9 Sjá viðaukann „Fæddist Jesús í desember?“.

^ gr. 9 Satúrnalía-hátíðin átti sömuleiðis þátt í því að 25. desember varð fyrir valinu. Hún var haldin til heiðurs rómverska akuryrkjuguðinum og stóð frá 17. til 24. desember. Hátíðin einkenndist af veisluhöldum, gleðskap og gjöfum.

^ gr. 10 Fjallað er um afstöðu sannkristinna manna til annarra vinsælla hátíða og helgidaga í viðaukanum „Ættum við að hala hátíðir?“.