Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 5. KAFLI

Lausnargjaldið — mesta gjöf Guðs

Lausnargjaldið — mesta gjöf Guðs
  • Hvað er lausnargjaldið?

  • Hvernig var það greitt?

  • Hvaða þýðingu getur það haft fyrir þig?

  • Hvernig geturðu sýnt að þú sért þakklátur fyrir það?

1, 2. (a) Hvers konar gjafir hafa sérstakt gildi fyrir okkur? (b) Hvers vegna er hægt að segja að lausnargjaldið sé verðmætasta gjöf sem hægt er að fá?

HVER er verðmætasta gjöf sem þú hefur fengið? Gjöf þarf ekki að vera dýr til að vera verðmæt. Gildi gjafar mælist ekki alltaf í peningum. Gjöf er þér mikils virði ef hún gleður þig eða fullnægir ákveðinni þörf hjá þér.

2 Af öllum gjöfum, sem við gætum óskað okkur, er ein sem ber af. Það er gjöf Guðs til mannkynsins. Jehóva Guð hefur gefið okkur margt en dýrmætasta gjöfin er sú að hann skyldi fórna syni sínum, Jesú Kristi, til lausnargjalds. (Lestu Matteus 20:28.) Eins og fram kemur í þessum kafla er lausnargjaldið verðmætasta gjöfin sem þú getur nokkurn tíma fengið vegna þess að hún getur fært þér óendanlega hamingju og fullnægt mikilvægustu þörfum þínum. Jehóva gat ekki tjáð þér kærleika sinn með skýrari hætti.

 HVAÐ ER LAUSNARGJALDIÐ?

3. Hvað er lausnargjaldið og hvað þurfum við að skilja til að átta okkur á gildi þeirrar gjafar?

3 Í stuttu máli er lausnargjaldið aðferð Jehóva til að frelsa mannkynið úr fjötrum syndar og dauða. (Efesusbréfið 1:7) Til að skilja þýðingu þessarar biblíukenningar þurfum við að rifja upp atburði sem áttu sér stað í Eden. Við þurfum að skilja hverju Adam glataði þegar hann syndgaði til að átta okkur á því hvers vegna lausnargjaldið er svona verðmæt gjöf til okkar.

4. Hvað þýddi það fyrir Adam að vera fullkominn?

4 Jehóva gaf Adam ákaflega dýrmæta eign þegar hann skapaði hann. Hann gaf honum fullkomið líf. Hvað þýddi það fyrir Adam? Þar sem hann var fullkominn á huga og líkama myndi hann aldrei veikjast, hrörna og deyja. Sem fullkominn maður hafði hann sérstakt samband við Jehóva. Biblían kallar hann ‚son Guðs‘. (Lúkas 3:38) Adam átti sem sagt náið samband við Jehóva Guð, rétt eins og sonur á við ástríkan föður. Jehóva talaði við son sinn á jörð, fól honum ánægjulegt verk að vinna og skýrði fyrir honum til hvers var ætlast af honum. — 1. Mósebók 1:28-30; 2:16, 17.

5. Hvað er átt við þegar Biblían segir að Adam hafi verið skapaður „eftir Guðs mynd“?

5 Adam var skapaður „eftir Guðs mynd“. (1. Mósebók 1:27) Það merkir ekki að Adam hafi líkst Jehóva Guði í útliti. Jehóva er ósýnilegur andi eins og fram kom í 1. kafla. (Jóhannes 4:24) Hann hefur því ekki líkama af holdi og blóði. Að vera skapaður eftir mynd Guðs merkir að Adam voru áskapaðir eiginleikar eins og Guð hafði, svo sem kærleikur, viska, réttlæti og máttur. Adam líktist föður sínum einnig að því leyti að hann hafði frjálsan vilja. Hann var því ekki eins og vél sem getur aðeins gert  það sem hún er smíðuð eða forrituð til að gera. Hann gat tekið sjálfstæðar ákvarðanir og valið að gera rétt eða rangt. Ef hann hefði ákveðið að hlýða Guði hefði hann lifað að eilífu í paradís á jörð.

6. Hverju glataði Adam þegar hann óhlýðnaðist Guði og hvaða áhrif hafði það á afkomendur hans?

6 Það er því ljóst að Adam galt það dýru verði að óhlýðnast Guði. Syndin kostaði hann fullkomleikann og öll þau gæði sem fylgdu honum. Að síðustu kostaði hún hann lífið. (1. Mósebók 3:17-19) Því miður glataði Adam ekki aðeins sínu eigin lífi heldur fyrirgerði hann einnig lífi ófæddra afkomenda sinna. Orð Guðs segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Við höfum öll erft syndina frá Adam. Þess vegna kemst Biblían svo að orði að hann hafi selt sig og afkomendur sína í þrælkun syndar og dauða. (Rómverjabréfið 7:14) Öll von var úti fyrir Adam og Evu vegna þess að þau óhlýðnuðust Guði af ásettu ráði. En hvað um afkomendur þeirra, þar á meðal okkur?

7, 8. Nefndu tvennt sem er fyrst og fremst fólgið í lausnargjaldi.

7 Jehóva kom mannkyninu til bjargar með lausnargjaldinu. Hvað er lausnargjald? Það getur falið í sér tvennt. Í fyrsta lagi er lausnargjald sú upphæð sem er greidd til að kaupa einhvern lausan úr haldi eða kaupa eitthvað til baka. Sem dæmi mætti nefna gjald sem greitt er til að fá stríðsfanga leystan úr haldi. Í öðru lagi er lausnargjald upphæð sem greidd er til að bera kostnað af einhverju, ekki ósvipað og skaðabætur sem greiddar eru vegna meiðsla eða eignatjóns. Ef maður veldur slysi, svo dæmi sé tekið, getur hann þurft að greiða upphæð sem samsvarar andvirði þess tjóns sem hann olli.

 8 Hvernig var hægt að bæta það gríðarlega tjón sem Adam olli okkur öllum og kaupa okkur laus úr þrælkun syndar og dauða? Lítum nánar á lausnargjaldið sem Jehóva greiddi og skoðum hvað það getur þýtt fyrir þig.

JEHÓVA GREIÐIR LAUSNARGJALDIÐ

9. Hvers konar lausnargjald þurfti að greiða?

9 Þar sem það var fullkomið mannslíf sem glataðist gat enginn ófullkominn maður endurkeypt það. (Sálmur 49:8, 9) Lausnargjaldið þurfti að vera jafnverðmætt því sem glataðist. Þetta er í samræmi við meginregluna um fullkomið réttlæti sem er að finna í orði Guðs, en þar segir: „Líf fyrir líf“. (5. Mósebók 19:21) Hvað gat samsvarað hinu fullkomna mannslífi sem Adam glataði? Til að greiða samsvarandi lausnargjald þurfti annað fullkomið mannslíf. — 1. Tímóteusarbréf 2:6.

10. Hvernig greiddi Jehóva lausnargjaldið?

10 Jehóva greiddi lausnargjaldið með því að senda einn af fullkomnum andasonum sínum til jarðar. En hann sendi ekki bara hvern sem var heldur þann sem honum þótti vænst um, það er að segja eingetinn son sinn. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.) Sonurinn yfirgaf fúslega heimili sitt á himnum. (Filippíbréfið 2:7) Eins og fram kom í kaflanum á undan vann Jehóva það kraftaverk að flytja líf sonar síns í móðurkvið Maríu. Fyrir atbeina heilags anda fæddist Jesús fullkominn og þurfti því ekki að taka út refsingu syndarinnar. — Lúkas 1:35.

Jehóva gaf eingetinn son sinn sem lausnargjald fyrir okkur.

11. Hvernig gat einn maður verið lausnargjald fyrir milljónir manna?

11 Hvernig gat einn maður greitt lausnargjald fyrir marga, meira að segja milljónir manna? Lítum nánar á málið. Hvernig bar það til að milljónir manna urðu syndarar? Þegar Adam syndgaði glataði hann fullkomnu  lífi sínu. Þess vegna gat hann ekki gefið börnum sínum fullkomið líf. Það eina sem hann gat gefið þeim var synd og dauði. Maðurinn Jesús, sem Biblían kallar „hinn síðari Adam“, var fullkominn og syndgaði aldrei. (1. Korintubréf 15:45) Í vissum skilningi kom Jesús í stað Adams til að bjarga okkur. Með því að fórna fullkomnu lífi sínu og hlýða Guði í einu og öllu greiddi Jesús gjaldið fyrir synd Adams og veitti afkomendum hans von. — Rómverjabréfið 5:19; 1. Korintubréf 15:21, 22.

12. Hvað sönnuðu þjáningar Jesú?

12 Biblían lýsir í smáatriðum hvað Jesús mátti þola áður en hann dó. Hann var húðstrýktur grimmilega og negldur á aftökustaur þar sem hann dó kvalafullum dauðdaga. (Jóhannes 19:1, 16-18, 30; viðaukinn „Ættu kristninr menn að nota krossinn í tilbeiðslu sinni?“.) Hvers vegna þurfti Jesús að þjást svona mikið? Síðar í bókinni kemur fram að Satan véfengdi að Jehóva gæti átt sér nokkurn mennskan þjón sem væri honum trúr ef á hann reyndi. Með því að vera trúfastur, þrátt fyrir miklar þjáningar, svaraði Jesús ásökunum Satans eins og best varð á kosið. Hann sannaði að fullkominn maður með frjálsan vilja gat verið Guði algerlega trúr, hvað sem Satan djöfullinn gerði. Það hlýtur að hafa glatt Jehóva ósegjanlega að sjá trúfesti þessa ástkæra sonar síns. — Orðskviðirnir 27:11.

13. Hvernig var lausnargjaldið greitt?

13 Hvernig var lausnargjaldið greitt? Jehóva leyfði að fullkominn og syndlaus sonur sinn væri tekinn af lífi árið 33, á 14. degi mánaðarins nísan samkvæmt almanaki Gyðinga. Þannig fórnaði Jesús fullkomnu mannslífi sínu „í eitt skipti fyrir öll“. (Hebreabréfið 10:10) Jehóva reisti hann síðan upp sem anda á þriðja degi eftir dauða hans. Á himnum afhenti Jesús Guði andvirði hins fullkomna mannslífs sem hann fórnaði fyrir afkomendur  Adams. (Hebreabréfið 9:24) Jehóva tók við andvirði fórnarinnar og viðurkenndi að hún nægði til að leysa mannkynið úr þrælkun syndar og dauða. — Rómverjabréfið 3:23, 24.

HVAÐA ÞÝÐINGU HEFUR LAUSNARGJALDIÐ FYRIR ÞIG?

14, 15. Hvað þurfum við að gera til að fá syndir okkar fyrirgefnar?

14 Þótt við séum ófullkomin getum við hlotið ómetanlega blessun vegna lausnargjaldsins. Lítum á nokkur dæmi sem sýna hvernig þessi dýrmæta gjöf Guðs getur verið okkur til góðs bæði núna og í framtíðinni.

15 Fyrirgefning synda. Þar sem við höfum tekið ófullkomleika í arf kostar það okkur harða baráttu að gera rétt. Við syndgum öll í orðum eða verkum. Lausnarfórn Jesú hefur þau áhrif að við getum fengið syndir okkar fyrirgefnar. (Kólossubréfið 1:13, 14) Til að fá fyrirgefningu verðum við þó að iðrast í alvöru. Við þurfum líka að ákalla Jehóva í auðmýkt og biðja hann um fyrirgefningu í trú á lausnarfórn sonar hans. — Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:8, 9.

16. Hvað gerir okkur kleift að tilbiðja Guð með hreinni samvisku, og hvaða gildi hefur hrein samviska?

16 Hrein samviska frammi fyrir Guði. Ef við höfum samviskubit getum við hæglega misst vonina og fundist við vera einskis virði. En með því að fyrirgefa okkur á grundvelli lausnarfórnarinnar gerir Jehóva okkur kleift að tilbiðja sig með hreinni samvisku þótt við séum ófullkomin. (Hebreabréfið 9:13, 14) Þá getum við nálgast Jehóva óhikað í bæn og talað frjálsmannlega við hann. (Hebreabréfið 4:14-16) Hrein samviska gefur okkur hugarfrið, stuðlar að sjálfsvirðingu og gerir okkur hamingjusöm.

17. Hvaða blessun eigum við í vændum vegna þess að Jesús dó fyrir okkur?

 17 Von um eilíft líf í paradís á jörð. „Laun syndarinnar er dauði,“ segir Rómverjabréfið 6:23, og bætir svo við: „En náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ Í 3. kafla bókarinnar ræddum við um þá blessun sem bíður okkar í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Öll þessi gæði framtíðarinnar, þar á meðal eilíft líf og fullkomið heilbrigði, byggjast á því að Jesús dó fyrir okkur. Til að hljóta þetta verðum við að sýna að við séum þakklát fyrir lausnargjaldið.

HVERNIG GETURÐU SÝNT ÞAKKLÆTI ÞITT?

18. Af hverju ættum við að vera Jehóva þakklát fyrir að greiða lausnargjaldið?

18 Hvers vegna ættum við að vera Jehóva innilega þakklát fyrir að greiða lausnargjaldið? Gjöf er sérstaklega verðmæt ef hún kostar gefandann tíma, erfiði og útgjöld. Gjöf snertir okkur þegar við sjáum að hún er merki þess að gefandanum þyki innilega vænt um okkur. Lausnargjaldið er dýrmætasta gjöf sem hægt er að  gefa því að með henni færði Guð mestu fórn sem hægt er að færa. „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn,“ segir í Jóhannesi 3:16. Lausnargjaldið er skýrasta merkið um að Jehóva elski okkur. Það vitnar einnig um kærleika Jesú því að hann gaf líf sitt fúslega fyrir okkur. (Lestu Jóhannes 15:13.) Lausnargjaldið er gjöf sem ætti að sannfæra okkur um að Jehóva og sonur hans elski okkur hvert og eitt. — Galatabréfið 2:20.

Ein leið til að sýna að við erum þakklát fyrir lausnargjaldið er að halda áfram að kynnast Jehóva.

19, 20. Hvernig geturðu sýnt að þú sért Guði þakklátur fyrir að greiða lausnargjaldið?

19 Hvernig geturðu þá sýnt að þú sért þakklátur fyrir þessa gjöf Guðs? Í fyrsta lagi ættirðu að halda áfram að læra um Jehóva, gjafarann mikla. (Jóhannes 17:3) Biblíunám með hjálp þessarar bókar er góð leið til þess. Því betur sem þú kynnist Jehóva þeim mun vænna þykir þér um hann. Og ást þín á Guði vekur síðan löngun hjá þér til að þóknast honum. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

20 Sýndu trú á lausnarfórn Jesú. Sagt er um Jesú: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf.“ (Jóhannes 3:36) Hvernig getum við sýnt að við trúum á Jesú? Þessi trú birtist ekki í orðum einum, enda er „trúin dauð án verka“ eins og segir í Jakobsbréfinu 2:26. Sönn trú birtist í verki. Ein leið til að sýna að við trúum á Jesú er að gera okkar besta til að líkja eftir honum, bæði með orðum okkar og verkum. — Jóhannes 13:15.

21, 22. (a) Hvers vegna ættum við að vera viðstödd kvöldmáltíð Drottins ár hvert? (b) Um hvað er fjallað í 6. og 7. kafla?

21 Vertu viðstaddur hina árlegu kvöldmáltíð Drottins. Kvöldið 14. nísan árið 33 innleiddi Jesús sérstaka hátíð sem Biblían kallar ‚máltíð Drottins‘. (1. Korintubréf 11:20; Matteus 26:26-28) Hún er einnig kölluð minningarhátíðin um dauða Krists. Jesús innleiddi hana til að  hjálpa postulunum og öllum öðrum sannkristnum mönnum eftir þeirra dag að hafa hugfast að hann gaf fullkomið mannslíf sitt sem lausnargjald þegar hann dó. Jesús sagði um þessa hátíð: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Minningarhátíðin minnir okkur á hinn mikla kærleika Jehóva og Jesú sem birtist í lausnargjaldinu. Við getum sýnt að við séum þakklát fyrir lausnargjaldið með því að vera viðstödd minningarhátíðina um dauða Jesú ár hvert. *

22 Lausnargjaldið, sem Jehóva greiddi fyrir okkur, er ómetanleg gjöf. (2. Korintubréf 9:14, 15) Áhrif þess ná meira að segja til þeirra sem eru dánir. Fjallað er um það í 6. og 7. kafla.

^ gr. 21 Nánari upplýsingar um þýðingu kvöldmáltíðar Drottins er að finna í viðaukanum „Kvöldmáltið Drottins haldin til heiðurs Guði“.