Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 12. KAFLI

Líferni sem gleður Guð

Líferni sem gleður Guð
  • Hvernig geturðu orðið vinur Guðs?

  • Hvernig snertir deilan um drottinvald Jehóva þig?

  • Hvers konar hegðun hefur Jehóva vanþóknun á?

  • Hvernig geturðu glatt Guð með líferni þínu?

1, 2. Nefndu dæmi um menn sem Jehóva taldi nána vini sína.

HVERS konar manneskju vildir þú eiga að vini? Að öllum líkindum þykir þér gott að umgangast fólk sem hefur svipaðar skoðanir, áhugamál og gildismat og þú. Við löðumst að fólki sem er gætt góðum eiginleikum eins og heiðarleika og hlýju.

2 Í aldanna rás hefur Jehóva valið sér nána vini meðal manna. Til dæmis kallaði hann Abraham vin sinn. (Lestu Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23.) Hann sagði að Davíð væri ‚maður eftir sínu hjarta‘ vegna þess að hann var sú manngerð sem honum þykir vænt um. (Postulasagan 13:22) Og Jehóva kallaði spámanninn Daníel ‚ástmög‘ sinn. — Daníel 9:23.

3. Af hverju velur Jehóva suma menn fyrir vini?

3 Af hverju leit Jehóva á Abraham, Davíð og Daníel sem vini sína? „Þú hlýddir minni röddu,“ sagði hann við Abraham. (1. Mósebók 22:18) Jehóva myndar náin tengsl við auðmjúka menn sem gera eins og hann biður þá um. Hann sagði Ísraelsmönnum: „Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð.“ (Jeremía 7:23) Þú getur líka orðið vinur Jehóva ef þú hlýðir honum.

 JEHÓVA STYRKIR VINI SÍNA

4, 5. Hvernig sýnir Jehóva mátt sinn í þágu þjóna sinna?

4 Hugsaðu þér hvað það þýðir að eiga Guð að vini. Biblían segir að Jehóva leiti færis að „sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann“. (2. Kroníkubók 16:9) Hvernig getur Jehóva sýnt þér mátt sinn? Meðal annars eins og fram kemur í Sálmi 32:8 þar sem stendur: „Ég [Jehóva] vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“

5 Umhyggja Jehóva birtist með einstaklega hlýlegum hætti í þessum orðum. Hann leiðbeinir þér eftir þörfum og gætir þín þegar þú ferð eftir leiðbeiningum hans. Hann vill hjálpa þér að komast gegnum prófraunir og þrengingar sem verða á vegi þínum. (Lestu Sálm 55:23.) Ef þú þjónar honum af heilu hjarta geturðu verið eins öruggur og sálmaritarinn sem sagði: „Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.“ (Sálmur 16:8; 63:9) Já, Jehóva getur hjálpað þér að lifa eins og hann hefur þóknun á. En hann á sér óvin eins og þú veist sem vill koma í veg fyrir að þú gerir það.

ÁSÖKUN SATANS

6. Hvað véfengdi Satan í sambandi við mennina?

6 Í kaflanum á undan kom fram hvernig Satan djöfullinn véfengdi drottinvald Guðs. Hann sakaði Guð um að ljúga og gaf í skyn að það væri ósanngjarnt að leyfa ekki Adam og Evu að ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt. Eftir að Adam og Eva syndguðu og afkomendur þeirra tóku að dreifast um jörðina véfengdi Satan að nokkur maður þjónaði Guði af réttum hvötum. Hann fullyrti: „Menn þjóna ekki Guði af því að þeir elski hann. Ég get snúið hverjum einasta manni gegn honum ef ég fæ tækifæri til.“ Frásaga Biblíunnar af manninum Job sýnir að Satan hugsaði þannig. Hver var Job og hvernig deildi Satan á hann?

7, 8. (a) Hvernig skar Job sig úr fjöldanum? (b) Hvernig dró Satan í efa að Job þjónaði Guði af réttum hvötum?

 7 Job var uppi fyrir um það bil 3600 árum. Hann var góður maður því að Jehóva sagði um hann: „Enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:8) Ljóst er að Job gladdi Guð með líferni sínu.

8 Satan dró í efa að Job þjónaði Jehóva af réttum hvötum. Satan sagði við Jehóva: „Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 1:9-11.

9. Hvernig brást Jehóva við ögrun Satans og af hverju?

9 Satan hélt því fram að Job þjónaði Guði einungis launanna vegna. Hann fullyrti að Job myndi snúast gegn Guði ef á hann reyndi. Hvernig brást Jehóva við ögrun Satans? Þar sem deilan snerist um hvatir Jobs leyfði Jehóva Satan að reyna hann. Það myndi draga fram í dagsljósið hvort Job elskaði Guð eða ekki.

PRÓFRAUNIR JOBS

10. Fyrir hvaða áföllum varð Job og hvernig brást hann við?

10 Satan beið ekki boðanna heldur reyndi Job með ýmsum hætti. Búpeningi hans var ýmist stolið eða hann drepinn. Flestir af þjónum hans voru myrtir. Þetta hafði fjárhagserfiðleika í för með sér. Annað áfall reið yfir þegar tíu börn Jobs fórust í ofviðri. En þrátt fyrir þessi miklu áföll „syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega“. — Jobsbók 1:22.

11. (a) Hverju hélt Satan fram þessu næst og hvað gerði Jehóva? (b) Hvernig brást Job við kvalafullum sjúkdómi sínum?

11 Satan var ekki af baki dottinn. Hann vissi reyndar að Job hafði þolað það að missa eigur sínar, þjóna og börn,  en hann virðist hafa ímyndað sér að Job hlyti að snúast gegn Guði ef hann veiktist. Jehóva leyfði Satan að slá Job andstyggilegum og kvalafullum sjúkdómi. En Job missti samt ekki trúna á Guð heldur sagði einbeittur í bragði: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ — Jobsbók 27:5.

Job var launuð trúfesti sín.

12. Hvernig afsannaði Job dylgjur Satans?

12 Job vissi ekki að það var Satan sem var valdur að ógæfu hans. Hann óttaðist að það væri Guð sem hefði valdið þessu því að hann vissi ekki í einstökum atriðum hvernig Satan hafði véfengt drottinvald Guðs. (Jobsbók 6:4; 16:11-14) Hann var engu að síður ráðvandur Jehóva. Og Job sannaði með trúfesti sinni að Satan hefði farið með rangt mál þegar hann fullyrti að hann þjónaði Guði af eigingjörnum hvötum.

13. Hvaða áhrif hafði trúfesti Jobs við Guð?

13 Trúfesti Jobs gaf Jehóva ótvírætt svar við dylgjum og ásökunum Satans. Job var sannur vinur Jehóva og Jehóva launaði honum trúfestina. — Jobsbók 42:12-17.

HVERNIG SNERTIR DEILUMÁLIÐ ÞIG?

14, 15. Af hverju getum við sagt að dylgjur Satans um Job snerti alla menn?

14 Deilan um ráðvendni Jobs gagnvart Guði, sem Satan hleypti af stað, snerti fleiri en Job. Hún snertir þig líka. Þetta kemur greinilega fram í Orðskviðunum 27:11 þar sem stendur: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Þessi orð, sem voru skrifuð öldum eftir daga Jobs, sýna að Satan var samur við sig og hélt áfram að smána Guð og ásaka þjóna hans. Þegar við lifum lífinu eins og Jehóva vill að við gerum eigum við þátt í að svara hinum röngu ákærum Satans og við gleðjum hjarta Jehóva. Hvað finnst þér um það? Væri ekki frábært að eiga þátt í að svara lygum Satans, þó að það kosti að breyta einhverju í lífi þínu?

 15 Taktu eftir að Satan sagði: „Fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.“ (Jobsbók 2:4) Með orðinu „maðurinn“ var Satan að segja að hann væri ekki aðeins að ásaka Job heldur alla menn. Þetta er mjög þýðingarmikið. Satan véfengir að þú sért ráðvandur Guði. Hann vill að þú óhlýðnist honum og hættir að gera rétt þegar erfiðleikar verða á vegi þínum. Hvaða aðferðir notar hann til þess?

16. (a) Með hvaða aðferðum reynir Satan að gera fólk fráhverft Guði? (b) Hvernig gæti Satan beitt þessum aðferðum gegn þér?

16 Eins og rætt var um í 10. kafla notar Satan ýmsar aðferðir til að reyna að gera fólk fráhverft Guði. Annars vegar ræðst hann á fólk „sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt“. (1. Pétursbréf 5:8) Áhrif Satans eru því stundum að verki þegar vinir, ættingjar eða aðrir setja sig upp á móti því að þú sért að kynna þér Biblíuna og farir eftir því sem þú lærir. * (Jóhannes 15:19, 20) Hins vegar á Satan það til að ‚taka á sig ljósengilsmynd‘. (2. Korintubréf 11:14) Hann getur beitt ýmsum lúmskum aðferðum til að leiða þig afvega og tæla þig út af þeirri braut sem Guð hefur velþóknun á. Hann reynir kannski að draga úr þér kjark og vekja hjá þér þá tilfinningu að þú sért ekki nógu góður til að þóknast Guði. (Orðskviðirnir 24:10) En hvort heldur Satan birtist „sem öskrandi ljón“ eða ‚ljósengill‘ klifar hann stöðugt á því sama: Hann heldur því fram að þú hættir að þjóna Guði þegar prófraunir eða freistingar verða á vegi þínum. Hvernig geturðu svarað þessari ásökun og sannað að þú sért ráðvandur gagnvart Guði, rétt eins og Job?

 AÐ HLÝÐA BOÐORÐUM JEHÓVA

17. Hver er meginástæðan fyrir því að halda boðorð Jehóva?

17 Þú getur svarað ásökunum Satans með því að lifa lífinu eins og Guð vill að þú gerir. Hvað er fólgið í því? Biblían svarar: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:5) Eftir því sem þér þykir vænna um Guð færðu sterkari löngun til að gera það sem hann ætlast til af þér. „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð,“ skrifaði Jóhannes postuli. Ef þú elskar Jehóva af öllu hjarta kemstu að raun um að „boðorð hans eru ekki þung“. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

18, 19. (a) Nefndu nokkur af boðorðum Jehóva. (Sjá „ Forðastu það sem Jehóva hatar“.) (b) Hvernig vitum við að Guð ætlast ekki til of mikils af okkur?

18 Í boðorðum Jehóva er tiltekið meðal annars hvaða breytni okkur ber að forðast. Undir yfirskriftinni „ Forðastu það sem Jehóva hatar“, er tíundað margt sem er fordæmt berum orðum í Biblíunni. Verið getur að þér þyki sumt af þessu ekki svo slæmt við fyrstu sýn. En eftir að hafa lesið og hugleitt ritningarstaðina, sem gefnir eru upp, áttarðu þig sennilega á að lög Jehóva eru viturleg. Það getur verið þrautin þyngri að breyta sér, kannski það erfiðasta sem maður gerir á lífsleiðinni. Engu að síður veitir það okkur gleði og lífsfyllingu að lifa eins og Guð vill að við gerum. (Jesaja 48:17, 18) Og þú ert fyllilega fær um það. Hvernig getum við fullyrt það?

19 Jehóva ætlast aldrei til meira af okkur en við getum gert. (Lestu 5. Mósebók 30:11-14.) Hann veit betur en við sjálf hvað við getum og hvað ekki. (Sálmur 103:14) Jehóva getur auk þess gefið okkur styrk til að hlýða lögum sínum. Páll postuli skrifaði: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Jehóva getur meira að segja gefið þér „ofurmagn  kraftarins“ til að hjálpa þér að standast. (2. Korintubréf 4:7) Páll skrifaði eftir að hafa staðist margar prófraunir: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.

ÞROSKAÐU MEÐ ÞÉR EIGINLEIKA SEM GLEÐJA GUÐ

20. Hvaða eiginleika ættirðu að leggja rækt við og af hverju er það þýðingarmikið?

20 Til að gleðja Jehóva Guð þarf auðvitað að gera meira en að forðast það sem hann hatar. Við þurfum líka að  elska það sem hann elskar. (Rómverjabréfið 12:9) Laðast þú ekki að fólki sem hefur svipaðar skoðanir, áhugamál og gildismat og þú? Það gerir Jehóva líka. Lærðu því að elska það sem er Jehóva kært. Því er lýst að hluta til í Sálmi 15:1-5 þar sem fram kemur hverja hann lítur á sem vini sína. Vinir hans sýna af sér það sem í Biblíunni er kallað „ávöxtur andans“. Þetta eru meðal annars „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi“ eða sjálfstjórn. — Galatabréfið 5:22, 23.

21. Hvernig geturðu tileinkað þér þá eiginleika sem Jehóva hefur velþóknun á?

 21 Reglulegur biblíulestur og biblíunám eru hjálp til að þroska með sér þá eiginleika sem Jehóva hefur velþóknun á. Og þegar þú lærir hvaða kröfur hann gerir til þín hjálpar það þér að laga hugsunarhátt þinn að vilja hans. (Jesaja 30:20, 21) Því meir sem þú styrkir kærleikann til Jehóva, þeim mun sterkari verður löngunin til að lifa lífinu þannig að þú gleðjir hann.

22. Hvað ávinnst með því að lifa lífinu eins og Guð vill að við gerum?

22 Það þarf að leggja eitthvað á sig til að þóknast Jehóva. Biblían líkir breytingunni, sem fólk þarf að gera, við að afklæðast sínum gamla manni og íklæðast nýjum. (Kólossubréfið 3:9, 10) Sálmaritarinn sagði hins vegar að það hefði „mikil laun í för með sér“ að halda boðorð Jehóva. (Sálmur 19:12) Þú uppgötvar líka að það er mjög auðgandi að lifa í samræmi við vilja Guðs. Með því að gera það svarar þú ásökunum Satans og gleður hjarta Jehóva!

^ gr. 16 Þetta ber ekki að skilja svo að þeir sem eru þér andsnúnir séu undir beinni stjórn Satans. En Satan er guð þessa heims og allur heimurinn er á valdi hans. (2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er því viðbúið að það sé ekki vinsælt að lifa guðrækilega og þú mátt því búast við andstöðu.