Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. KAFLI

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?
  • Er það Guð sem veldur þjáningunum í heiminum?

  • Hvaða deilumál kom upp í Eden?

  • Hvernig mun Guð bæta þann skaða sem þjáningar mannanna hafa valdið?

1, 2. Hvers konar þjáningar eru hlutskipti mannanna og um hvað spyrja margir þar af leiðandi?

ÞÚSUNDIR kvenna og barna voru lögð í fjöldagröf eftir mannskæð átök í stríðshrjáðu landi. Umhverfis gröfina voru reknir niður krossar með áletruninni: „Af hverju?“ Oft er það þessi spurning sem vekur mesta sársaukann. Hún leitar á sorgmætt fólk sem hefur misst ástvini sína eða heimili eða þolað aðrar ómældar þjáningar af völdum hernaðarátaka, sjúkdóma, slysa eða glæpa. Fólk vill vita af hverju þessir harmleikir eiga sér stað.

2 Af hverju leyfir Guð að mennirnir þjáist? Af hverju er heimurinn fullur af ranglæti og hatri ef Guð er almáttugur, kærleiksríkur, vitur og réttlátur? Hafa þessar spurningar einhvern tíma leitað á þig?

3, 4. (a) Hvernig sjáum við að það er ekki rangt að spyrja hvers vegna Guð leyfi þjáningar? (b) Hvað finnst Jehóva um illsku og þjáningar?

3 Er rangt að spyrja hvers vegna Guð leyfi að mennirnir þjáist? Sumir óttast að það sé merki um veika trú að spyrja um slíkt eða það beri vott um óvirðingu gagnvart Guði. Við lestur Biblíunnar kemur hins vegar í ljós að trúað og guðhrætt fólk spurði svipaðra spurninga áður fyrr. Spámaðurinn Habakkuk spurði Jehóva til dæmis: „Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.“ — Habakkuk 1:3.

Jehóva mun binda enda á allar þjáningar.

4 Ávítaði Jehóva hinn trúfasta spámann fyrir að spyrja svona spurninga? Nei, hann lét einmitt skrásetja einlæg orð Habakkuks í Biblíuna. Hann hjálpaði spámanninum að skilja málin betur og styrkja trú sína. Jehóva vill líka hjálpa þér. Hann ‚ber umhyggju fyrir þér‘ eins og Biblían segir. (1. Pétursbréf 5:7) Hann hatar illskuna meira en nokkur maður og þjáningarnar sem hún hefur í för með sér. (Jesaja 55:8, 9) Af hverju eru þá svona miklar þjáningar í heiminum?

AF HVERJU ERU SVONA MIKLAR ÞJÁNINGAR?

5. (a) Hvernig er stundum reynt að skýra þjáningar mannanna? (b) Hvað kennir Biblían?

5 Fólk innan ýmissa trúarbragða hefur leitað til trúarkennara sinna til að spyrja hvers vegna það séu svona miklar þjáningar í heiminum. Oft er svarið á þá lund að þetta sé vilji Guðs og að hann hafi ákveðið endur fyrir löngu allt sem gerast myndi, þar á meðal alla harmleikina. Fólk fær oft að heyra að vegir Guðs séu órannsakanlegir eða að fólk, jafnvel börn, deyi af því að hann kalli það til sín til að hafa það hjá sér á himnum. En eins og þú ert búinn að læra er Jehóva Guð aldrei valdur að hinu illa. „Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt og hinn Almáttki fremji ranglæti,“ segir Biblían. — Jobsbók 34:10.

6. Hvers vegna kenna margir Guði um þjáningarnar í heiminum?

6 Veistu af hverju margir kenna Guði ranglega um allar þjáningarnar í heiminum? Oft stafar það af því að þeir halda að alvaldur Guð stjórni honum. Þeir þekkja ekki einfaldan en mikilvægan sannleika sem Biblían kennir. Hann er sá að Satan djöfullinn er raunverulegur stjórnandi heimsins eins og þú lærðir um í 3. kafla.

7, 8. (a) Hvernig endurspeglar heimurinn persónueinkenni stjórnanda síns? (b) Hvernig stuðla ófullkomleiki mannanna og „tími og tilviljun“ að þjáningum?

7 Biblían segir skýrt og skorinort að ‚allur heimurinn sé á valdi hins vonda‘. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Finnst þér það ekki rökrétt þegar þú hugleiðir málið? Óneitanlega endurspeglar heimurinn persónueinkenni hins ósýnilega anda sem „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“. (Opinberunarbókin 12:9) Satan er hatursfullur, svikull og grimmur. Heimurinn, sem hann stjórnar, er þar af leiðandi fullur af hatri, svikum og grimmd. Það er ein af ástæðunum fyrir öllum þjáningunum.

8 Í 3. kafla ræddum við um aðra orsök þess að þjáningarnar í heiminum eru svona miklar. Hún er sú að mannkynið hefur verið ófullkomið og syndugt allt frá því að uppreisnin var gerð í Eden. Syndugir menn hafa tilhneigingu til að berjast um yfirráð og það leiðir af sér stríð, þjáningar og kúgun. (Prédikarinn 4:1; 8:9) Þriðja orsök þjáninganna er „tími og tilviljun“. (Lestu Prédikarann 9:11.) Í heimi, sem er ekki undir stjórn og vernd Jehóva, má oft rekja þjáningar til þess að fólk er á röngum stað á röngum tíma.

9. Af hverju getum við treyst að Jehóva hafi ærna ástæðu fyrir því að leyfa þjáningunum að halda áfram?

9 Það er hughreystandi til þess að vita að það er ekki Guð sem veldur þjáningum mannanna. Styrjaldirnar, glæpirnir, kúgunin og náttúruhamfarirnar eru ekki honum að kenna. Engu að síður þurfum við að fá svar við því hvers vegna Jehóva leyfir allar þessar þjáningar. Hann er fær um að stöðva þær fyrst hann er almáttugur. Af hverju gerir hann það þá ekki? Guð kærleikans, sem við höfum kynnst, hlýtur að hafa ærna ástæðu fyrir því. — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

DEILUMÁL KEMUR UPP

10. Hvað véfengdi Satan og hvernig?

10 Til að komast að raun um hvers vegna Guð leyfir þjáningar þurfum við að fara aftur til þess tíma þegar þær byrjuðu. Með því að fá Adam og Evu til að óhlýðnast Jehóva hleypti Satan af stað alvarlegu deilumáli. Hann véfengdi ekki mátt Jehóva enda veit hann mætavel að máttur hans er takmarkalaus. Hann véfengdi hins vegar að Jehóva hefði rétt til að stjórna. Hann fullyrti að Jehóva væri slæmur stjórnandi þegar hann kallaði hann lygara og sagði að hann neitaði þegnum sínum um ákveðin gæði. (Lestu 1. Mósebók 3:2-5.) Satan gaf í skyn að mannkynið væri betur sett ef Guð færi ekki með yfirráðin. Þetta var árás á drottinvald Jehóva, á rétt hans til að stjórna.

11. Af hverju tortímdi Jehóva ekki uppreisnarseggjunum í Eden?

11 Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Jehóva. Þau sögðu í reynd: „Við þurfum ekki að hafa Jehóva sem stjórnanda. Við getum sjálf ákveðið hvað sé rétt og rangt.“ Hvernig gat Jehóva útkljáð þetta mál? Hvernig gat hann kennt öllum þeim vitsmunaverum, sem hann hafði skapað, að uppreisnarseggirnir hefðu á röngu að standa og að aðferðir hans væru í raun og veru bestar? Sumir segja kannski að Guð hefði einfaldlega átt að tortíma uppreisnarseggjunum og byrja upp á nýtt. En Jehóva hafði lýst yfir að hann ætlaði sér að fylla jörðina afkomendum Adams og Evu og þeir ættu að búa í paradís á jörð. (1. Mósebók 1:28) Jehóva gerir alltaf það sem hann ætlar sér. (Jesaja 55:10, 11) Þó að hann hefði losað sig við uppreisnarseggina í Eden hefði það ekki svarað spurningunum sem höfðu vaknað varðandi rétt hans til að stjórna.

12, 13. Lýstu með dæmi hvers vegna Jehóva leyfði Satan að stjórna heiminum og mönnunum að ráða sér sjálfir.

12 Lýsum þessu með dæmi. Segjum sem svo að kennari sé að útskýra fyrir nemendum sínum hvernig eigi að reikna flókið dæmi. Gáfaður en uppreisnargjarn nemandi fullyrðir að kennarinn noti ekki rétta aðferð til að reikna dæmið. Hann gefur í skyn að kennarinn sé ekki starfi sínu vaxinn og segist sjálfur kunna miklu betri aðferð til að reikna dæmið. Sumir af nemendunum trúa að hann hafi rétt fyrir sér og styðja hann í uppreisninni. Hvað á kennarinn að gera? Hvaða áhrif myndi það hafa á hina nemendurna ef hann vísaði uppreisnarseggjunum á dyr? Myndu þeir ekki álykta sem svo að gáfaði nemandinn og þeir sem fylgja honum hafi á réttu að standa? Kennarinn gæti glatað virðingu allra í bekknum því að þeir ímynda sér að hann þori ekki að láta reyna á hæfni sína. En setjum sem svo að kennarinn leyfi uppreisnarseggnum að sýna bekknum hvernig hann reikni dæmið.

Er nemandinn færari en kennarinn?

13 Jehóva brást við uppreisninni í Eden með svipuðum hætti og kennarinn í dæminu á undan. Höfum hugfast að uppreisnin snerti ekki aðeins uppreisnarseggina sjálfa því að milljónir engla fylgdust með því sem fram fór. (Jobsbók 38:7; Daníel 7:10) Viðbrögð Jehóva við uppreisninni myndu hafa mikil áhrif á alla þessa engla og á allar vitibornar sköpunarverur hans þegar fram liðu stundir. Hvað gerði Jehóva þá? Hann leyfði Satan að sýna hvernig hann ætlaði að stjórna mannkyninu. Hann leyfði mönnunum sömuleiðis að reyna að ráða sér sjálfir undir handleiðslu Satans.

14. Af hverju er það til góðs að Jehóva skuli hafa leyft mönnunum að ráða sér sjálfir?

14 Kennarinn í dæmisögunni veit að uppreisnargjörnu nemendurnir hafa á röngu að standa. En hann veit líka að það er til góðs fyrir allan bekkinn að leyfa þeim að spreyta sig. Þegar uppreisnarliðinu mistekst sjá allir heiðarlegir nemendur að kennarinn er sá eini sem hefur hæfileika til að kenna bekknum. Og þá skilja þeir mætavel hvers vegna kennarinn rekur uppreisnargjarna nemendur úr bekknum þaðan í frá. Jehóva veit að allir rétt hugsandi menn og englar hafa gott af því að sjá að Satan og fylgjendum hans í uppreisninni hefur mistekist, og að mennirnir eru ófærir um að stjórna sér sjálfir. Þeir læra sama mikilvæga sannleikann og Jeremía forðum daga: „Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

AF HVERJU SVONA LENGI?

15, 16. (a) Af hverju hefur Jehóva leyft þjáningarnar svona lengi? (b) Hvers vegna hefur Jehóva ekki komið í veg fyrir skelfilega glæpi?

15 En af hverju hefur Jehóva leyft þjáningarnar svona lengi? Hvers vegna kemur hann ekki í veg fyrir ýmsa válega atburði? Lítum á tvennt sem kennarinn í dæmisögunni gerði ekki. Í fyrsta lagi hindraði hann ekki uppreisnargjarna nemandann í að koma hugmyndum sínum á framfæri. Í öðru lagi hjálpaði hann honum ekki að reikna dæmið. Lítum á tvennt sem Jehóva hefur ákveðið að gera ekki. Í fyrsta lagi hefur hann ekki hindrað að Satan og þeir sem fylgja honum reyni að sanna að þeir hafi rétt fyrir sér. Til þess hefur þurft þó nokkurn tíma. Á liðnum árþúsundum hefur mannkynið haft tækifæri til að reyna alls konar aðferðir til að stjórna sér sjálft. Mannkynið hefur tekið ýmsum framförum í vísindum og á öðrum sviðum, en ranglæti, fátækt, glæpir og styrjaldir hafa engu að síður aukist jafnt og þétt. Nú er búið að sýna fram á að mannkynið er ófært um að stjórna sér sjálft.

16 Í öðru lagi hefur Jehóva ekki hjálpað Satan að stjórna þessum heimi. Hefði Guð ekki verið að styðja málstað uppreisnarseggjanna ef hann hefði komið í veg fyrir skelfilega glæpi, svo dæmi sé tekið? Hefði hann þá ekki komið þeirri hugmynd inn hjá fólki að mennirnir væru kannski færir um að stjórna sér sjálfir stórslysalaust? Ef Jehóva gerði það væri hann orðinn þátttakandi í lyginni en það er „óhugsandi . . . að hann fari með lygi“. — Hebreabréfið 6:18.

17, 18. Hvernig ætlar Jehóva að bregðast við öllum þeim skaða sem hlotist hefur af stjórn manna og áhrifum Satans?

17 En hvað um allt tjónið sem hin langa uppreisn gegn Guði hefur valdið? Gleymum ekki að Jehóva er almáttugur. Hann er fær um að bæta fyrir allan þann skaða, sem þjáningar mannanna hafa valdið, og hann mun gera það. Eins og fram hefur komið verða skemmdirnar á jörðinni bættar þegar henni verður breytt í paradís. Vegna trúar réttlátra manna á lausnarfórn Jesú verða afleiðingar syndarinnar að engu og þegar upprisan á sér stað verður áhrifum dauðans snúið við. Guð notar Jesú þannig til að „brjóta niður verk djöfulsins“. (1. Jóhannesarbréf 3:8) Jehóva Guð hrindir öllu þessu í framkvæmd á réttum tíma. Við getum verið ánægð með að hann skuli ekki hafa gripið í taumana fyrr, því að þolinmæði hans hefur gefið okkur tækifæri til að kynnast sannleikanum og þjóna honum. (Lestu 2. Pétursbréf 3:9, 10.) Guð hefur allan tímann verið að leita að einlægum tilbiðjendum sínum og hjálpa þeim gegnum þær þrautir sem hafa orðið á vegi þeirra í þessum hrjáða heimi. — Jóhannes 4:23; 1. Korintubréf 10:13.

18 Einhverjum er kannski spurn hvort það hefði ekki mátt umflýja allar þjáningarnar með því að skapa Adam og Evu þannig að þau gætu ekki gert uppreisn. Til að svara því þurfum við að muna eftir mjög sérstakri gjöf sem Guð gaf okkur.

HVERNIG ÆTLARÐU AÐ NOTA GJÖF GUÐS?

Guð hjálpar þér að bera sársaukann.

19. Hvaða dýrmætu gjöf hefur Jehóva gefið okkur og hvers vegna ætti okkur að þykja vænt um hana?

19 Eins og bent var á í 5. kafla voru mennirnir skapaðir með frjálsan vilja. Gerirðu þér grein fyrir hve dýrmæt gjöf það er? Guð skapaði ótal dýr sem láta að miklu leyti stjórnast af eðlishvöt. Maðurinn hefur smíðað vélmenni sem hægt er að forrita þannig að þau hlýði öllum skipunum sem þeim eru gefnar. Værum við ánægð ef Guð hefði gert okkur þannig úr garði? Nei, við erum þakklát fyrir það frelsi sem við höfum til að ákveða hvers konar manneskjur við viljum vera, hvaða stefnu við tökum í lífinu, hverja við veljum okkur að vinum og svo framvegis. Okkur finnst yndislegt að hafa visst frelsi og Guð vill að við njótum þess.

20, 21. Hvernig getum við notað frjálsa viljann sem best og af hverju ætti okkur að langa til þess?

20 Jehóva hefur ekki áhuga á að við þjónum sér af nauðung. (2. Korintubréf 9:7) Hvort finnst foreldrum ánægjulegra — að heyra barnið sitt tjá ást sína af einlægni hjartans eða vegna þess að því er sagt að gera það? Þú þarft því að spyrja þig hvernig þú ætlir að nota hinn frjálsa vilja sem Jehóva gaf þér. Satan, Adam og Eva hefðu ekki getað notað frjálsa viljann á verri veg. Þau höfnuðu Jehóva Guði. Hvað ætlar þú að gera?

21 Þú hefur tækifæri til að nota þessa dásamlegu gjöf eins og best verður á kosið. Þú getur gengið til liðs við milljónir manna sem hafa tekið afstöðu með Jehóva. Þeir gleðja hann vegna þess að þeir taka virkan þátt í að sanna að Satan sé lygari og ömurlegur stjórnandi. (Orðskviðirnir 27:11) Þú getur gert það líka með því að velja réttu stefnuna í lífinu. Við fjöllum meira um það í næsta kafla.