Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 10. KAFLI

Hvaða áhrif hafa andaverur á okkur?

Hvaða áhrif hafa andaverur á okkur?
  • Hjálpa englar mönnum?

  • Hvaða áhrif hafa illir andar haft á mannkynið?

  • Þurfum við að óttast illa anda?

1. Hvers vegna ættum við að lesa okkur til um engla?

TIL að kynnast annarri manneskju þurfum við yfirleitt að kynnast fjölskyldu hennar. Til að kynnast Jehóva Guði þurfum við sömuleiðis að kynnast englafjölskyldu hans. Biblían kallar englana ‚guðssyni‘. (Jobsbók 38:7) Hvaða hlutverki gegna þeir í fyrirætlun Guðs? Hafa þeir farið með eitthvert hlutverk í sögu mannkyns? Hafa englar áhrif á líf þitt og þá hvernig?

2. Hver er uppruni englanna og hve margir eru þeir?

2 Biblían minnist margoft á engla. Við skulum líta á nokkur dæmi til fróðleiks. Hver er uppruni englanna? Kólossubréfið 1:16 segir: „Allt [var] skapað í honum [Jesú Kristi] í himnunum og á jörðinni.“ Allar þær andaverur, sem við köllum engla, eru því skapaðar af Jehóva Guði fyrir milligöngu Jesú sem er frumgetinn sonur hans. Hve margir eru englarnir? Af Biblíunni má ráða að þeir hafi verið skapaðir í hundruð milljóna tali og þeir eru allir voldugir og máttugir. — Sálmur 103:20. *

3. Hvað er sagt um engla í Jobsbók 38:4-7?

3 Í Biblíunni er sagt frá því að ‚allir guðssynir hafi  fagnað‘ þegar jörðin var grundvölluð. (Jobsbók 38:4-7) Englarnir voru því til löngu áður en maðurinn var skapaður, meira að segja á undan jörðinni. Þetta vers í Biblíunni upplýsir einnig að englarnir séu tilfinningaverur því að þar stendur að þeir hafi ‚sungið gleðisöng‘. Og við tökum eftir að „allir guðssynirfögnuðu í sameiningu. Á þeim tíma tilheyrðu allir englarnir sameinaðri fjölskyldu sem þjónaði Jehóva Guði.

ENGLAR STYRKJA OG VERNDA

4. Hvernig kemur fram í Biblíunni að trúir englar hafi áhuga á verkum mannanna?

4 Allt frá því að fyrstu mennirnir voru skapaðir hafa trúir andasynir Guðs haft mikinn áhuga á mannkyninu og fylgst með hvernig Guð hefur unnið að fyrirætlun sinni. (Orðskviðirnir 8:30, 31; 1. Pétursbréf 1:11, 12) Þegar fram liðu stundir sáu þeir hvernig flestir menn hættu að þjóna ástríkum skapara sínum. Þeim hefur eflaust þótt dapurlegt að horfa upp á það. Á hinn bóginn verður „fögnuður með englum Guðs“ í hvert sinn sem einn maður snýr aftur til hans. (Lúkas 15:10) Þar sem englarnir láta sér svona annt um velferð þeirra sem þjóna Guði er eðlilegt að hann skuli hafa notað þá æ ofan í æ til að styrkja og vernda trúa þjóna sína á jörðinni. (Lestu Hebreabréfið 1:7, 14.) Lítum á nokkur dæmi.

„Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna.“ — Daníel 6:23.

5. Hvaða dæmi finnum við í Biblíunni um að englar hafi hjálpað mönnunum?

5 Tveir englar hjálpuðu hinum réttláta Lot og dætrum hans þegar Sódómu og Gómorru var eytt vegna illsku borgarbúa. Englarnir leiddu þau burt af svæðinu þannig að þau komust undan. (1. Mósebók 19:15, 16) Öldum síðar var Daníel spámanni kastað í ljónagryfju en hann slapp þaðan óskaddaður. „Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna,“ sagði hann. (Daníel 6:23)  Engill frelsaði Pétur postula úr fangelsi á fyrstu öld. (Postulasagan 12:6-11) Englar styrktu Jesú þegar hann hóf þjónustu sína. (Markús 1:13) Og rétt áður en hann dó birtist honum engill sem „styrkti hann“. (Lúkas 22:43) Þetta hlýtur að hafa verið ákaflega hughreystandi fyrir Jesú á þessum mikilvægu stundum í lífi hans.

6. (a) Hvernig vernda englar Guðs þjóna hans nú á dögum? (b) Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

6 Hinir voldugu englar Guðs eru hættir að birtast þjónum hans á jörð. En þó að við sjáum þá ekki halda þeir áfram að vernda þjóna hans, einkum gegn því sem er skaðlegt trú þeirra. „Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá,“ segir Biblían. (Sálmur 34:8) Það er mjög hughreystandi fyrir okkur að vita þetta vegna þess að til eru illar og hættulegar andaverur sem vilja skaða okkur. Hvaða andaverur eru þetta? Hvaðan koma þær? Hvernig reyna þær að gera okkur mein? Til að svara því skulum við kynna okkur stuttlega hvað gerðist snemma í mannkynssögunni.

ÓVINVEITTAR ANDAVERUR

7. Hvernig gekk Satan að gera fólk afhuga Guði?

7 Eins og fram kom í 3. kaflanum kviknaði löngun hjá einum af englunum til að ráða yfir öðrum. Hann gerði uppreisn gegn Guði og var síðar nefndur Satan djöfullinn. (Opinberunarbókin 12:9) Á næstu 16 öldum eftir að hann blekkti Evu tókst honum að gera nálega alla menn fráhverfa Guði, ef frá eru taldir fáeinir trúmenn eins og Abel, Enok og Nói. — Hebreabréfið 11:4, 5, 7.

8. (a) Hvernig urðu sumir englar að illum öndum? (b) Hvað þurftu illu andarnir að gera til að lifa af Nóaflóðið?

8 Á tímum Nóa gerðu fleiri englar uppreisn gegn Jehóva. Þeir yfirgáfu himneska fjölskyldu hans, komu niður til jarðar og mynduðu sér mannslíkama. Ástæðan  kemur fram í 1. Mósebók 6:2: „Synir Guðs [sáu], að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.“ En Jehóva Guð leyfði ekki englunum að halda þessu áfram og spilla þannig mannkyninu. Hann lét verða flóð um alla jörðina þannig að óguðlegir menn fórust. Einu mennirnir, sem hann bjargaði, voru trúir þjónar hans. (1. Mósebók 7:17, 23) Hinir uppreisnargjörnu englar, illu andarnir, neyddust til að yfirgefa líkamana sem þeir höfðu myndað sér og snúa aftur til himna sem andaverur. Þeir höfðu skipað sér við hlið Satans sem varð þar með ‚höfðingi illra anda‘. — Matteus 9:34.

9. (a) Hvað varð um illu andana þegar þeir sneru aftur til himna? (b) Hvað ætlum við að kanna núna?

 9 Eftir að óhlýðnu englarnir sneru aftur til himna var þeim útskúfað úr fjölskyldu Guðs, rétt eins og Satan, höfðingja þeirra. (2. Pétursbréf 2:4) En þó að þeir geti ekki lengur myndað sér mannslíkama hafa þeir enn þá mjög skaðleg áhrif á mennina. Satan tekst meira að segja að ‚afvegaleiða alla heimsbyggðina‘ með hjálp illu andanna. (Opinberunarbókin 12:9; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvernig fara þeir að því? Aðallega með því að beita ýmsum brögðum og blekkingum. (Lestu 2. Korintubréf 2:11.) Við skulum kanna nokkrar af aðferðum þeirra.

AÐFERÐIR ILLU ANDANNA

10. Hvað er spíritismi?

10 Illu andarnir nota spíritisma til að blekkja fólk. Spíritismi er fólginn í því að vera í sambandi við illa anda, annaðhvort beint eða með hjálp andamiðils. Biblían fordæmir spíritisma og bendir á að við verðum að forðast allt sem tengist honum. (Galatabréfið 5:19-21) Illu andarnir nota spíritismann eins og agn eða beitu. Stangaveiðimaður notar mismunandi agn til að veiða ólíkar tegundir af fiski. Illu andarnir nota sömuleiðis ýmsar útgáfur af spíritisma til að ná tökum á alls konar fólki.

11. Hvað eru spásagnir og hvers vegna ættum við að forðast þær?

11 Eitt agnið, sem illu andarnir nota, er spásagnir, að reyna að rýna í framtíðina eða fá vitneskju um hið óþekkta. Við spásagnir er beitt ýmiss konar aðferðum, svo sem stjörnuspám, lófalestri og draumaráðningum, eða notuð hjálpartæki eins og tarotspil eða kristalkúlur. Margir halda að spásagnir séu skaðlausar en Biblían sýnir fram á að spásagnamenn og illir andar vinna saman. Til dæmis minnist Postulasagan 16:16-18 á „spásagnaranda“ sem gerði stúlku einni kleift „að spá“. Hún  missti spásagnargáfuna þegar illi andinn var rekinn út af henni.

Illu andarnir nota margs konar aðferðir til að blekkja fólk.

12. Hvers vegna er hættulegt að reyna að komast í samband við hina látnu?

12 Önnur blekking, sem illir andar beita, er sú að hvetja fólk til að leita frétta af hinum dánu. Fólk sem syrgir látinn ástvin lætur oft blekkjast af röngum hugmyndum um eðli dauðans. Andamiðill kemur kannski með sérstakar upplýsingar eða talar með rödd sem virðist vera rödd látins manns. Þetta sannfærir marga um að hinir dánu séu í rauninni lifandi. Þeir halda að sorgin verði léttbærari ef þeir eru í sambandi við þá. En slík „hughreysting“ er fölsk og jafnframt hættuleg vegna þess að illu andarnir geta líkt eftir rödd hins látna og gefið andamiðlinum upplýsingar um hann. (1. Samúelsbók 28:3-19) Og eins og fram kom í 6. kafla hættir maðurinn að vera til við dauðann. (Sálmur 115:17) Sá sem ‚leitar frétta af framliðnum‘ lætur illu andana því blekkja sig og  gengur í berhögg við vilja Guðs. (Lestu 5. Mósebók 18:10, 11; Jesaja 8:19) Láttu ekki blekkjast af þessu hættulega agni illu andanna.

13. Hvað hefur mörgum, sem óttuðust illu andana, tekist að gera?

13 Satan og illu andarnir reyna að hræða fólk auk þess að blekkja það. Þeir eru illskeyttari núna en nokkru sinni fyrr enda vita þeir að þeir hafa aðeins „nauman tíma“ til umráða áður en þeir verða teknir úr umferð. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Þúsundum manna, sem lifðu í stöðugum ótta við illa anda, hefur engu að síður tekist að losna við óttann. Hvernig? Hvað er til ráða ef maður hefur nú þegar leiðst út í spíritisma?

AÐ STANDA GEGN ILLU ÖNDUNUM

14. Hvernig getum við losnað undan áhrifum illra anda líkt og kristnir menn í Efesus á fyrstu öld?

14 Biblían lýsir bæði hvernig við getum staðið gegn illum öndum og losnað undan áhrifum þeirra. Kristnir menn í borginni Efesus á fyrstu öld eru gott dæmi um það. Sumir þeirra höfðu stundað spíritisma áður en þeir snerust til kristinnar trúar. Biblían lýsir hvað þeir gerðu þegar þeir ákváðu að snúa baki við spíritismanum: „Allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi.“ (Postulasagan 19:19) Með því að eyðileggja bækur sínar um kukl og spíritisma eru þessir kristnu menn gott dæmi um hvað þurfi að gera til að standa gegn illum öndum. Þeir sem vilja þjóna Jehóva þurfa að losa sig við allt sem tengist spíritisma, þar á meðal bækur, tímarit, kvikmyndir, veggspjöld og tónlistarupptökur sem hvetja til slíkra iðkana og sýna þær í spennandi og jákvæðu ljósi. Hið sama er að segja um verndargripi eða annað sem menn bera á sér í því skyni að vernda sig gegn illu. — 1. Korintubréf 10:21.

15. Hvað þurfum við að gera til að standa gegn áhrifum illra anda?

 15 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Efesus nokkrum árum eftir að þeir eyðilögðu bækurnar um spíritismann: „Baráttan, sem vér eigum í, er . . . við andaverur vonskunnar.“ (Efesusbréfið 6:12) Illu andarnir voru ekki af baki dottnir. Þeir voru enn þá að reyna að ná yfirhöndinni. Hvað annað þurftu þessir þjónar Guðs þá að gera? Páll sagði: „Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda,“ það er að segja Satans. (Efesusbréfið 6:16) Því sterkari sem skjöldur trúarinnar er, þeim mun meira viðnám höfum við gegn illu öndunum. — Matteus 17:20.

16. Hvernig getum við styrkt trúna?

16 Við getum styrkt trúna með biblíunámi. Múrveggur er aldrei sterkari en grunnurinn sem hann er reistur á. Trúarstyrkur okkar er sömuleiðis undir því kominn hve sterkur grunnurinn er, það er að segja þekkingin á orði Guðs, Biblíunni. Við styrkjum trúna með því að lesa og rannsaka Biblíuna daglega. Sterk trú ver okkur fyrir áhrifum illra anda eins og traustur múrveggur. — 1. Jóhannesarbréf 5:5.

17. Hvað er nauðsynlegt að gera til að standa gegn áhrifum illra anda?

17 Hvað annað þurftu kristnir menn í Efesus að gera? Þeir þurftu að fá enn meiri vernd vegna þess að þeir bjuggu meðal fólks sem stundaði spíritisma af miklu kappi. Páll sagði þeim: „Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.“ (Efesusbréfið 6:18) Við búum í heimi þar sem spíritismi er mjög útbreiddur þannig að við þurfum að biðja Jehóva einlæglega um vernd til að geta staðið gegn illu öndunum. Við þurfum að sjálfsögðu að nefna nafn Jehóva í bænum okkar. (Lestu Orðskviðina 18:10.) Við ættum því stöðugt að biðja Jehóva um að „frelsa oss frá hinum vonda“, Satan djöflinum.  (Matteus 6:13, neðanmáls) Jehóva svarar slíkum bænum. — Sálmur 145:19.

18, 19. (a) Af hverju er öruggt að við getum sigrað í baráttunni við andaverur vonskunnar? (b) Hvaða spurningu er svarað í næsta kafla?

18 Illu andarnir eru hættulegir en við þurfum ekki að óttast þá ef við stöndum gegn Satan djöflinum og nálægjum okkur Guði með því að gera vilja hans. (Lestu Jakobsbréfið 4:7, 8.) Máttur þeirra er takmarkaður. Guð refsaði þeim á dögum Nóa og þeir hljóta endanlegan dóm í framtíðinni. (Júdasarbréfið 6) Og höfum hugfast að voldugir englar Jehóva vernda okkur. (2. Konungabók 6:15-17) Þeim er mikið í mun að okkur takist að standa gegn áhrifum illu andanna. Hinir réttlátu englar hvetja okkur til dáða, ef svo má að orði komast. Við skulum því varðveita náin tengsl við Jehóva og trúfasta englafjölskyldu hans. Við skulum líka forðast spíritisma í hvaða mynd sem er og gera alltaf eins og orð Guðs ráðleggur. (1. Pétursbréf 5:6, 7; 2. Pétursbréf 2:9) Þá er öruggt að við göngum með sigur af hólmi í baráttunni við andaverur vonskunnar.

19 En hvers vegna hefur Guð umborið illu andana og alla illskuna sem hefur valdið mannkyni ólýsanlegum þjáningum? Þeirri spurningu er svarað í næsta kafla.

^ gr. 2 Opinberunarbókin 5:11 segir um réttláta engla: „Tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda.“ Biblían gefur þannig til kynna að englar hafi verið skapaðir í hundruð milljóna tali.