Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 3. KAFLI

Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?

Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?
  • Hvað ætlast Guð fyrir með mannkynið?

  • Hvernig var Guði ögrað?

  • Hvernig verður jarðlífið í framtíðinni?

1. Hvað ætlaðist Guð fyrir með jörðina?

FYRIRÆTLUN GUÐS með jörðina er í einu orði sagt frábær. Hann vill að jörðin fyllist heilbrigðu og hamingjusömu fólki. Biblían segir að Guð hafi ‚plantað aldingarð í Eden‘ og látið „upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af“. Eftir að Jehóva skapaði fyrstu hjónin, þau Adam og Evu, gaf hann þeim þetta yndislega heimili og sagði: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28; 2:8, 9, 15) Það var sem sagt ætlun Guðs að mennirnir eignuðust börn, önnuðust dýrin og stækkuðu paradísina sem þeir bjuggu í, þangað til hún næði um allan hnöttinn.

2. (a) Hvernig vitum við að fyrirætlun Guðs með jörðina nær fram að ganga? (b) Hvað segir Biblían um eilíft líf?

2 Heldurðu að það nái einhvern tíma fram að ganga að mennirnir búi í paradís á jörð eins og Jehóva Guð ætlaðist fyrir? Hann lýsir yfir: „Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.“ (Jesaja 46:9-11; 55:11) Já, það er öruggt að Guð gerir það sem hann ætlar sér! Hann segist ekki hafa „skapað [jörðina] til þess, að hún væri auðn, heldur  myndað hana svo, að hún væri byggileg“. (Jesaja 45:18) Hvers konar fólk vildi Guð að byggi á jörðinni? Hversu lengi átti það að búa hér? Biblían svarar: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur,“ það er að segja að eilífu. — Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3, 4.

3. Hvernig er ástandið á jörðinni og hvaða spurningar vekur það?

3 Þetta er augljóslega ekki orðið að veruleika enn sem komið er því að menn veikjast og deyja, og þeir berjast jafnvel og drepa hver annan. Eitthvað fór úrskeiðis. Guð ætlaðist varla til að jörðin yrði eins og hún er núna. Hvað gerðist? Hvers vegna hefur fyrirætlun Guðs ekki náð fram að ganga? Engin mannkynssögubók, skrifuð af mönnum, getur varpað ljósi á það vegna þess að vandræðin hófust á himnum.

ÓVINUR VERÐUR TIL

4, 5. (a) Hver notaði höggorm til að tala við Evu? (b) Hvernig getur góður og heiðvirður maður orðið þjófur?

4 Í fyrstu bók Biblíunnar er sagt frá andstæðingi Guðs sem skaut upp kollinum í Eden. Hann er kallaður „höggormurinn“. En þetta var ekki bókstaflegur höggormur. Í síðustu bók Biblíunnar er bent á að hann ‚heiti djöfull og Satan og afvegaleiði alla heimsbyggðina‘. Þar er hann einnig kallaður ‚hinn gamli höggormur‘. (1. Mósebók 3:1; Opinberunarbókin 12:9) Hér var um að ræða voldugan engil, ósýnilega andaveru sem notaði höggorm til að tala við Evu rétt eins og æfður maður notar talbrúðu. Andi þessi var eflaust viðstaddur þegar Guð bjó jörðina undir komu mannsins. — Jobsbók 38:4, 7.

5 Nú eru öll sköpunarverk Jehóva fullkomin. Hver skapaði þá þennan „djöful“ og „Satan“? Í stuttu máli varð hann til á þann hátt að voldugur andasonur Guðs  breytti sér sjálfur í djöful. Hvernig gat það gerst? Lítum á hliðstæðu. Góður og heiðvirður maður getur orðið þjófur. Oft gerist það þannig að hann leyfir rangri löngun að festa rætur í hjarta sínu. Þessi ranga löngun getur orðið afar sterk ef hann heldur áfram að hugsa um hana. Síðan, ef tækifæri býðst, gerir hann kannski hið ranga sem hann var að hugsa um. — Lestu Jakobsbréfið 1:13-15.

6. Hvernig gat voldugur andasonur Guðs breyst í Satan djöfulinn?

6 Það var þetta sem gerðist hjá Satan. Hann hefur greinilega heyrt Guð segja Adam og Evu að eignast börn og fylla jörðina afkomendum sínum. (1. Mósebók 1:27, 28) Hann virðist hafa hugsað með sér að allir þessir menn gætu tilbeðið sig frekar en Guð. Hann leyfði rangri löngun að festa rætur í hjarta sínu. Síðan lét hann til skarar skríða og blekkti Evu með því að ljúga upp á Guð. (Lestu 1. Mósebók 3:1-5.) Þar með varð hann djöfull sem merkir rógberi og Satan sem merkir andstæðingur.

7. (a) Hvers vegna dóu Adam og Eva? (b) Hvers vegna hrörna allir afkomendur Adams og deyja?

7 Með lygum og blekkingum tókst Satan að fá Adam og Evu til að óhlýðnast Guði. (1. Mósebók 2:17; 3:6) Þar af leiðandi dóu þau um síðir, rétt eins og Guð hafði sagt að myndi gerast ef þau óhlýðnuðust. (1. Mósebók 3:17-19) Adam varð ófullkominn þegar hann syndgaði og afkomendur hans erfðu syndina frá honum. (Lestu Rómverjabréfið 5:12.) Lýsum þessu með dæmi. Hvað gerist ef brauð er bakað í beygluðu formi? Þá verða öll brauð, sem eru bökuð í því, með sams konar beyglu eða galla. Allir menn hafa erft ákveðna „beyglu“ frá Adam, það er að segja ófullkomleikann. Það er þess vegna sem allir menn hrörna og deyja. — Rómverjabréfið 3:23.

8, 9. (a) Hvaða ásakanir voru greinilega fólgnar í uppreisn Satans? (b) Af hverju tók Guð ekki uppreisnarseggina af lífi þegar í stað?

 8 Með því að fá Adam og Evu til að syndga gegn Guði var Satan að koma af stað uppreisn. Hann var að véfengja stjórnarhætti Jehóva. Hann fullyrti í reynd að Guð væri slæmur stjórnandi, lygi að þegnum sínum og synjaði þeim um ýmis gæði. Hann fullyrti að mennirnir  þyrftu ekki að lúta stjórn Guðs heldur gætu þeir ákveðið sjálfir hvað væri gott og illt. Hann hélt því fram að þeir væru betur settir undir stjórn sinni en Guðs. Hvernig brást Guð við þessum svívirðilegu ásökunum? Sumum finnst að hann hefði hreinlega átt að taka uppreisnarseggina af lífi. En hefði það svarað ásökunum Satans? Hefði það sannað að stjórnarhættir Guðs væru réttir?

9 Fullkomin réttlætiskennd Jehóva leyfði honum ekki að taka uppreisnarseggina af lífi þegar í stað. Hann vissi að það tæki sinn tíma að svara ásökunum Satans í eitt skipti fyrir öll og sanna að hann væri lygari. Hann ákvað þess vegna að leyfa mönnunum að stjórna sér sjálfir um tíma undir áhrifum Satans. Við fjöllum um það í 11. kafla hvers vegna Jehóva gerði þetta og hvers vegna það hefur tekið svona langan tíma að gera út um þetta deilumál. En nú skulum við beina athyglinni að öðru: Var það rétt af Adam og Evu að trúa Satan sem hafði aldrei gert þeim neitt gott? Var rétt af þeim að trúa að Jehóva, sem hafði gefið þeim allt sem þau áttu, væri grimmur lygari? Hvað hefðir þú gert í þeirra sporum?

10. Hvernig geturðu stutt málstað Jehóva og átt þátt í að svara ásökunum Satans?

10 Það er ástæða til að hugleiða þessar spurningar vegna þess að við þurfum öll að taka afstöðu til sambærilegra mála. Þú hefur tækifæri til að styðja málstað Jehóva og svara þannig ásökunum Satans. Þú getur viðurkennt Jehóva sem stjórnanda þinn og átt um leið þátt í að sanna að Satan sé lygari. (Sálmur 73:28; lestu Orðskviðina 27:11.) Því miður kjósa fáir af milljörðum jarðarbúa að gera það. Þetta vekur þá spurningu hvort Biblían kenni virkilega að Satan stjórni heiminum.

 HVER STJÓRNAR HEIMINUM?

Hvernig hefði Satan getað boðið Jesú öll ríki heims ef hann hefði ekki ráðið yfir þeim?

11, 12. (a) Hvernig freistaði Satan Jesú og hvernig sýnir það að hann er höfðingi heimsins? (b) Hvað annað sannar að Satan er höfðingi heimsins?

11 Jesús efaðist aldrei um að Satan stjórnaði þessum heimi. Einu sinni sýndi Satan Jesú „öll ríki heims og dýrð þeirra“ með einhverjum undraverðum hætti og lofaði honum: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ (Matteus 4:8, 9; Lúkas 4:5, 6) Lítum nánar á þetta. Hefði Satan getað freistað Jesú með þessu tilboði ef hann hefði ekki ráðið yfir öllum ríkjum heims? Jesús neitaði því ekki að Satan réði yfir þessum ríkjum en það hefði hann eflaust gert ef Satan hefði ekki haft þetta vald.

12 Jehóva er auðvitað alvaldur Guð og skapari alheimsins með öllum undrum hans. (Opinberunarbókin 4:11) Hins vegar stendur hvergi í Biblíunni að Jehóva Guð eða Jesús Kristur stjórni þessum heimi. Jesús sagði meira að segja berum orðum að Satan væri „höfðingi heimsins“. (Jóhannes 12:31; 14:30; 16:11) Biblían kallar Satan djöfulinn jafnvel „guð þessarar aldar“. (2. Korintubréf 4:3, 4) Jóhannes postuli skrifaði um andstæðinginn Satan: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

HVERNIG VERÐUR HEIMUR SATANS FJARLÆGÐUR?

13. Hvers vegna er þörf á nýjum heimi?

13 Heimurinn verður æ hættulegri með hverju árinu sem líður. Hann er fullur af stríðandi herjum, óheiðarlegum stjórnmálamönnum, hræsnandi trúarleiðtogum og forhertum glæpamönnum. Það er ógerlegt að bæta heiminn í heild. Biblían segir að þess sé skammt að bíða að Guð fjarlægi hinn óguðlega heim í Harmagedónstríðinu.  Í staðinn kemur svo réttlátur nýr heimur. — Opinberunarbókin 16:14-16.

14. Hvern hefur Guð valið til að fara með völd í ríki sínu og hvernig var því spáð?

14 Jehóva Guð valdi Jesú Krist til að fara með völd í Guðsríki, stjórn sinni á himnum. Biblían boðaði endur fyrir löngu: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað . . . Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ (Jesaja 9:6, 7) Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Eins og við sjáum síðar í bókinni mun ríki Guðs innan skamms fjarlægja allar ríkisstjórnir þessa heims, taka völdin af þeim og endurreisa paradís á jörð. — Lestu Daníel 2:44.

NÝR HEIMUR ER Í NÁND

15. Hvað er ‚nýja jörðin‘?

15 Biblían segir: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 65:17) Þegar Biblían talar um ‚jörðina‘ á hún stundum við fólkið sem býr á henni. (1. Mósebók 11:1) Réttláta ‚nýja jörðin‘ er því samfélag manna sem hlýtur velþóknun Guðs.

16. Hvaða ómetanlega gjöf gefur Guð þeim sem hann hefur velþóknun á og hvað þurfum við að gera til að hljóta hana?

16 Jesús lofaði því að þeir sem hefðu velþóknun Guðs myndu hljóta „eilíft líf“ í nýja heiminum sem er fram undan. (Markús 10:30) Flettu upp á Jóhannesi 3:16 og 17:3 í biblíunni þinni og lestu það sem Jesús sagði að við þyrftum að gera til að hljóta eilíft líf. Síðan skulum við kanna hvaða blessun Biblían lofar þeim sem uppfylla  kröfur Guðs og fá þessa stórfenglegu gjöf í paradís framtíðarinnar.

17, 18. Hvernig getum við verið viss um að það verði friður og öryggi um allan heim?

17 Mannvonska, stríð, glæpir og ofbeldi hverfa. „Engir guðlausir [eru] til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar.“ (Sálmur 37:10, 11) Þá verður friður á jörð vegna þess að ‚Guð stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar‘. (Sálmur 46:10; Jesaja 2:4) Þá mun „réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til“, það er að segja að eilífu. — Sálmur 72:7.

18 Dýrkendur Jehóva búa óhultir. Ísraelsmenn til forna bjuggu óhultir í landi sínu meðan þeir hlýddu Guði. (3. Mósebók 25:18, 19) Það verður unaðslegt að búa við sams konar öryggi í paradís. — Lestu Jesaja 32:18; Míka 4:4.

19. Hvernig vitum við að matur verður nægur í nýjum heimi Guðs?

19 Enginn skortur á mat. „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum,“ söng sálmaritarinn. (Sálmur 72:16) Jehóva Guð mun blessa réttláta menn og jörðin mun gefa ávöxt sinn. — Sálmur 67:7.

20. Hvers vegna getum við treyst að öll jörðin verði paradís?

20 Öll jörðin verður paradís. Ný og falleg heimili og fagrir garðar munu þekja land sem syndugir menn voru búnir að skemma og spilla. (Lestu Jesaja 65:21-24; Opinberunarbókin 11:18) Smám saman stækka svæðin, sem menn hafa umbreytt, uns öll jörðin verður jafnfögur og frjósöm og Edengarðurinn. Og Guð mun endalaust ‚ljúka upp hendi sinni og seðja allt sem lifir með blessun‘. — Sálmur 145:16.

21. Hvað sýnir að það verður friður milli manna og dýra?

21 Friður milli manna og dýra. Villidýr og húsdýr verða saman á beit. Smábörn þurfa ekki einu sinni að óttast dýr sem eru hættuleg núna. — Jesaja 11:6-9; 65:25.

22. Hvað verður um sjúkdóma?

 22 Sjúkdómar hverfa. Sem konungur Guðsríkis á himnum mun Jesús lækna fólk í margfalt víðtækari mæli en hann gerði þegar hann var hér á jörð. (Matteus 9:35; Markús 1:40-42; Jóhannes 5:5-9) „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur‘“. — Jesaja 33:24; 35:5, 6.

23. Hvers vegna mun upprisan gleðja hjörtu okkar?

23 Látnir ástvinir okkar verða reistir upp og eiga eilíft líf í vændum. Allir sem sofa dauðasvefni og Guð minnist verða reistir upp. „Bæði réttlátir og ranglátir“ munu rísa upp frá dauðum. — Postulasagan 24:15; lestu Jóhannes 5:28, 29.

24. Hvernig líst þér á að lifa í paradís á jörð?

24 Þeir sem ákveða að kynnast skaparanum, Jehóva Guði, og þjóna honum eiga unaðslega framtíð í vændum! Jesús var að vísa til hinnar komandi paradísar á jörð þegar hann lofaði illvirkjanum, sem dó við hlið hans, að hann skyldi ‚vera með honum í paradís‘. (Lúkas 23:43) Það er mikilvægt að afla sér meiri upplýsinga um Jesú Krist því að það er fyrir atbeina hans sem þessi blessun verður að veruleika.