Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 14. KAFLI

Hamingjuríkt fjölskyldulíf

Hamingjuríkt fjölskyldulíf
  • Hvað hefur góður eiginmaður til að bera?

  • Hvað prýðir góða eiginkonu?

  • Hvað einkennir góða foreldra?

  • Hvernig geta börnin átt þátt í hamingju fjölskyldunnar?

1. Hver er lykillinn að hamingjuríku fjölskyldulífi?

JEHÓVA GUÐ vill að fjölskyldur séu hamingjusamar. Í orði hans, Biblíunni, er að finna leiðbeiningar til allra í fjölskyldunni þar sem lýst er því hlutverki sem hann ætlar hverjum og einum. Við stuðlum að farsæld og hamingju fjölskyldunnar ef við leggjum okkur fram við að gera hlutverki okkar góð skil í samræmi við leiðbeiningar Guðs. „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það,“ eins og Jesús sagði. — Lúkas 11:28.

2. Hvað þurfum við að viðurkenna til að fjölskyldan sé hamingjusöm?

2 Hamingja fjölskyldunnar er fyrst og fremst undir því komin að við viðurkennum að Jehóva sé höfundur hennar. Jesús kallaði hann föður okkar, enda eiga allar fjölskyldur á jörðinni tilveru sína honum að þakka. (Matteus 6:9; Efesusbréfið 3:14, 15) Hann veit þess vegna hvað þarf til að gera fjölskylduna hamingjusama. Hvað kennir Biblían um hlutverk hvers og eins í fjölskyldunni?

GUÐ ER HÖFUNDUR FJÖLSKYLDUNNAR

3. Hvernig lýsir Biblían tilurð fjölskyldunnar og hvernig vitum við að lýsing hennar er sönn?

3 Jehóva Guð skapaði Adam og Evu, fyrstu mennina, og  leiddi þau saman í hjónaband. Hann gaf þeim fagurt heimili, paradísina Eden, og sagði þeim að eignast börn. „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina,“ sagði hann. (1. Mósebók 1:26-28; 2:18, 21-24) Sagan af Adam og Evu er enginn uppspuni því að Jesús vitnaði í 1. Mósebók sem sannsögulega heimild um upphaf fjölskyldunnar. (Matteus 19:4, 5) Þó að lífið nú á tímum sé ekki eins og Guð áformaði í upphafi og vandamálin séu mörg er engu að síður hægt að búa við hamingjuríkt fjölskyldulíf.

4. (a) Hvernig geta allir í fjölskyldunni stuðlað að því að hún sé hamingjusöm? (b) Hvers vegna er mikilvægt að kynna sér ævi Jesú til að fjölskyldan sé hamingjusöm?

4 Allir í fjölskyldunni geta átt sinn þátt í að gera fjölskyldulífið hamingjuríkt með því að líkja eftir kærleika Guðs. (Efesusbréfið 5:1, 2) En hvernig getum við líkt eftir Guði fyrst við getum ekki séð hann? Við getum gert það vegna þess að hann sendi frumgetinn son sinn, Jesú Krist, frá himnum til jarðar. (Jóhannes 1:14, 18) Jesús líkti svo vel eftir föður sínum á himnum að það var rétt eins og fólk væri í návist Jehóva og væri að hlusta á hann þegar það sá Jesú og heyrði til hans. (Jóhannes 14:9) Þess vegna getum við stuðlað að farsælu fjölskyldulífi með því að lesa okkur til um kærleika Jesú og líkja eftir honum.

FYRIRMYND EIGINMANNA

5, 6. (a) Hvernig fordæmi gaf Jesús eiginmönnum með framkomu sinni við söfnuðinn? (b) Hvað þurfum við að gera til hljóta fyrirgefningu Guðs?

5 Biblían segir að eiginmaður eigi að koma fram við konu sína eins og Jesús kom fram við lærisveinana. Biblían leiðbeinir eiginmönnum: „Þér menn, elskið konur yðar, að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann . . . Svo skulu þá eiginmennirnir elska konur sínar — eins og sína eigin líkami. Sá sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig, því að enginn hefur nokkuru sinni hatað sitt eigið hold, heldur elur hann það og annast,  að sínu leyti eins og Kristur söfnuðinn.“ — Efesusbréfið 5:23, 25-29, Biblían 1912.

6 Jesús gaf eiginmönnum fullkomna fyrirmynd með því að elska söfnuð lærisveina sinna. Hann „elskaði þá, uns yfir lauk“. Hann fórnaði lífinu fyrir þá enda þótt þeir væru engan veginn fullkomnir. (Jóhannes 13:1; 15:13) Eiginmaður er hvattur til að ‚elska eiginkonu sína og vera ekki beiskur við hana‘. (Kólossubréfið 3:19) Hvað auðveldar honum að gera þetta, einkum ef konunni hans verður eitthvað á stöku sinnum? Hann má ekki gleyma því að honum verða líka á mistök. Hann ætti að minna sig á hvað hann þarf að gera til að hljóta fyrirgefningu Guðs. Hvað er það? Hann þarf að fyrirgefa þeim sem syndga gegn honum, þar á meðal konunni sinni. Hún ætti auðvitað að fyrirgefa honum líka þegar honum verður eitthvað á. (Matteus 6:12, 14, 15) Þú áttar þig eflaust á því hvers vegna sagt hefur verið að gott hjónaband sé samband karls og konu sem kunna að fyrirgefa.

7. Til hvers tók Jesús tillit og hvaða fordæmi gaf hann eiginmönnum með því?

7 Eiginmaðurinn ætti einnig að hafa hugfast að Jesús var alltaf tillitssamur við lærisveinana. Hann tók tillit til takmarka þeirra og líkamlegra þarfa. Hann sagði til dæmis einu sinni þegar þeir voru þreyttir: „Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund.“ (Markús 6:30-32) Eiginkonan verðskuldar hugulsemi og tillitssemi. Biblían kallar konuna ‚veikara ker‘ og segir eiginmanninum að ‚veita henni virðingu‘ vegna þess að bæði hjónin eiga að erfa „náðina og lífið“ að jöfnu. (1. Pétursbréf 3:7) Eiginmaðurinn ætti að vera þess minnugur að það er trúfesti fólks en ekki kynferði sem skiptir máli í augum Guðs. — Sálmur 101:6.

8. (a) Af hverju er sagt að ‚sá sem elski konu sína elski sjálfan sig‘? (b) Hvað þýðir það fyrir hjón að vera „einn maður“?

8 Biblían segir að eiginmaður, sem elskar konuna sína,  elski sjálfan sig. Ástæðan er sú að hjónin eru „ekki framar tvö, heldur einn maður“ eins og Jesús benti á. (Matteus 19:6) Hjón mega því ekki eiga í kynferðissambandi við nokkurn annan en maka sinn. (Orðskviðirnir 5:15-21; Hebreabréfið 13:4) Þau ættu að leggja sig fram um að fullnægja þörfum hvort annars en ekki hugsa aðeins um sínar eigin. (1. Korintubréf 7:3-5) Rétt er að taka eftir áminningunni: „Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ Eiginmaður á að elska konuna sína eins og sjálfan sig, minnugur þess að hann þarf að standa Jesú Kristi reikningsskap gerða sinna. — Efesusbréfið 5:29; 1. Korintubréf 11:3.

9. Hvaða eiginleiki Jesú er nefndur í Filippíbréfinu 1:8 og af hverju er mikilvægt að eiginmaður sýni hann?

9 Páll postuli nefnir „ástúð Krists Jesú“ í Filippíbréfinu 1:8. Ástúð Jesú endurnærði fólk og höfðaði sterkt til kvenna í hópi lærisveina hans. (Jóhannes 20:1, 11-13, 16) Eiginkona þráir sömuleiðis ástúð manns síns.

FYRIRMYND EIGINKVENNA

10. Hvernig er Jesús eiginkonum góð fyrirmynd?

10 Það þarf forystu til að fjölskyldulífið gangi vel og snurðulaust fyrir sig. Jesús þarf meira að segja að lúta forystu. ‚Guð er höfuð Krists‘ rétt eins og „maðurinn er höfuð konunnar“. (1. Korintubréf 11:3) Jesús var undirgefinn Guði og er okkur góð fyrirmynd því að við þurfum öll að lúta forystu einhvers.

11. Hvernig á kona að koma fram við eiginmann sinn og hvaða áhrif getur það haft?

11 Ófullkomnum mönnum verða á mistök og oft vantar mikið upp á að forysta þeirra sé fullkomin. Hvernig ætti eiginkonan að bregðast við því? Hún ætti ekki að gera lítið úr manninum sínum eða reyna að taka forystuna í sínar hendur. Hún ætti að minna sig á að hógvær og kyrrlátur andi er dýrmætur í augum Guðs. (1. Pétursbréf 3:4) Hún  á þá auðveldara með að vera undirgefin, jafnvel þegar á móti blæs. Biblían hvetur konu til að bera djúpa virðingu fyrir eiginmanni sínum. (Efesusbréfið 5:33) En breytir það einhverju ef hann viðurkennir ekki Krist sem höfuð sitt? Biblían segir eiginkonum: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ — 1. Pétursbréf 3:1, 2.

12. Af hverju er ekkert að því að eiginkona tjái skoðanir sínar háttvíslega?

12 Hvort sem eiginmaðurinn er í trúnni eða ekki er það engin óvirðing af hálfu konunnar að láta háttvíslega í ljós að hún sé á annarri skoðun en hann. Kannski hefur hún á réttu að standa og þá væri það allri fjölskyldunni til góðs að hann hlustaði á hana. Abraham var ekki sammála Söru, eiginkonu sinni, þegar hún lagði til að vandamál í fjölskyldunni væri leyst með ákveðnum hætti. Guð sagði honum engu að síður: „Hlýð þú Söru.“ (Lestu 1. Mósebók 21:9-12.) Þegar eiginmaður tekur ákvörðun í einhverju máli ætti konan að sjálfsögðu að sýna undirgefni með því að styðja hann, svo framarlega sem ákvörðunin stangast ekki á við lög Guðs. — Postulasagan 5:29; Efesusbréfið 5:24.

Hvernig er Sara góð fyrirmynd fyrir eiginkonur?

13. (a) Hvað eru giftar konur hvattar til að gera í Títusarbréfinu 2:4, 5? (b) Hvað segir í Biblíunni um sambúðarslit og hjónaskilnað?

13 Eiginkona getur annast fjölskylduna með margvíslegum hætti. Biblían segir til dæmis að giftar konur eigi „að elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar“. (Títusarbréfið 2:4, 5) Eiginkona og móðir, sem gerir þetta, ávinnur sér ást og virðingu hinna í fjölskyldunni. (Lestu Orðskviðina 31:10, 28.) En þar sem hjónin eru bæði ófullkomin getur komið upp alvarleg staða sem leiðir til þess að þau slíti samvistum eða skilji. Biblían leyfir að hjón slíti samvistum undir vissum kringumstæðum. Það er  engu að síður alvörumál því að Biblían ráðleggur „að konan skuli ekki skilja við mann sinn . . . og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna“. (1. Korintubréf 7:10, 11) Og hjónaskilnaður er því aðeins leyfilegur samkvæmt Biblíunni að annað hjónanna fremji hjúskaparbrot. — Matteus 19:9.

FULLKOMIN FYRIRMYND FORELDRA

14. Hvernig kom Jesús fram við börn og hvað þurfa foreldrar að gefa börnunum?

14 Jesús gaf foreldrum fullkomna fyrirmynd með framkomu sinni við börn. Þegar reynt var að hindra börnin í að koma til hans sagði hann: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ Síðan segir Biblían: „Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ (Markús 10:13-16) Ættirðu ekki að gefa þér tíma til að vera með börnunum þínum fyrst Jesús gaf sér tíma til að sinna börnum? Þau þurfa að fá stóra skammta af tíma þínum en ekki smáklípu af og til. Þú þarft að gefa þér tíma til að kenna þeim því að það er verkefni sem Jehóva hefur falið foreldrum. — 5. Mósebók 6:4-9.

15. Hvað geta foreldrar gert til að vernda börnin?

 15 Illskan í heiminum vex dag frá degi þannig að foreldrar þurfa að vernda börnin gegn fólki sem vill gera þeim mein, til dæmis kynferðisafbrotamönnum. Jesús verndaði lærisveinana sem hann kallaði ‚börnin sín‘. Þegar hann var handtekinn og hann vissi að hann yrði líflátinn sá hann til þess að þeir kæmust undan. (Jóhannes 13:33; 18:7-9) Sem foreldri þarftu að vera á varðbergi gagnvart tilraunum Satans til að gera börnunum þínum mein. Þú þarft að kenna þeim að gæta sín. * (1. Pétursbréf 5:8) Líkamlegu, andlegu og siðferðilegu öryggi þeirra hefur aldrei verið ógnað sem nú.

Hvað geta foreldrar lært af framkomu Jesú við börn?

16. Hvað geta foreldrar lært af viðbrögðum Jesú við ófullkomleika lærisveinanna?

 16 Kvöldið áður en Jesús dó tóku lærisveinar hans að metast um það hver þeirra væri mestur. Í stað þess að reiðast þeim hélt Jesús áfram að höfða til þeirra bæði með orðum sínum og fordæmi. (Lúkas 22:24-27; Jóhannes 13:3-8) Sérðu hvernig þú gætir líkt eftir Jesú þegar þú leiðréttir börnin þín? Vissulega þurfa þau að fá aga en hann ætti að veita „í hófi“ og aldrei í reiðikasti. Ekki viltu tala í hugsunarleysi þannig að orðin séu eins og „spjótsstungur“. (Jeremía 30:11; Orðskviðirnir 12:18) Ögunin ætti að vera þannig að börnin geri sér grein fyrir því síðar að hún var verðskulduð og viðeigandi. — Efesusbréfið 6:4; Hebreabréfið 12:9-11.

FYRIRMYND BARNA

17. Hvernig er Jesús fullkomin fyrirmynd fyrir börn?

17 Geta börn lært af Jesú? Já, vissulega. Jesús sýndi með fordæmi sínu hvernig börn ættu að hlýða foreldrunum. „Ég [tala] það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér,“ sagði hann. „Ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“ (Jóhannes 8:28, 29) Jesús var hlýðinn föður sínum á himnum og Biblían segir börnum að hlýða foreldrunum. (Lestu Efesusbréfið 6:1-3.) Þó að Jesús væri fullkomið barn hlýddi hann ófullkomnum, mennskum foreldrum sínum, þeim Jósef og Maríu. Hlýðni hans hefur eflaust verið öllum í fjölskyldunni til blessunar. — Lúkas 2:4, 5, 51, 52.

18. Af hverju hlýddi Jesús alltaf himneskum föður sínum og hver gleðst þegar börn hlýða foreldrunum?

18 Geta börnin lagt sig fram við að líkjast Jesú betur og gleðja foreldra sína? Guð ætlast til þess að þau hlýði foreldrunum þó að þeim finnist það stundum erfitt. (Orðskviðirnir 1:8; 6:20) Jesús hlýddi himneskum föður sínum í einu og öllu, jafnvel þegar mest á reyndi. Einu sinni, þegar vilji Guðs fól í sér afar erfitt verkefni, sagði Jesús: „Tak þennan kaleik [verkefnið] frá mér!“ Hann gerði engu að síður það  sem faðir hans fór fram á vegna þess að honum var ljóst að faðir hans vissi hvað væri honum fyrir bestu. (Lúkas 22:42) Börn gleðja bæði foreldra sína og föðurinn á himnum með því að læra hlýðni. * — Orðskviðirnir 23:22-25.

Um hvað ættu börn að hugsa þegar þau verða fyrir freistingu?

19. (a) Hvernig reynir Satan að freista barna? (b) Hvaða áhrif getur það haft á foreldrana ef börnin gera sig sek um siðleysi?

19 Satan djöfullinn freistaði Jesú og við getum gengið að því vísu að hann reyni líka að freista barnanna til að gera rangt. (Matteus 4:1-10) Oft beitir hann hópþrýstingi sem getur verið erfitt að standast. Þess vegna er mjög mikilvægt að börnin séu ekki í slæmum félagsskap. (1. Korintubréf 15:33) Dína, dóttir Jakobs, lagði lag sitt við fólk sem tilbað ekki Jehóva og það endaði með ósköpum. (1. Mósebók 34:1, 2) Hugsaðu þér hve dapurlegt það væri ef einhver í fjölskyldunni gerði sig sekan um kynferðislegt siðleysi. — Orðskviðirnir 17:21, 25.

LYKILLINN AÐ HAMINGJURÍKU FJÖLSKYLDULÍFI

20. Hvað þurfa allir í fjölskyldunni að gera til að hún sé hamingjusöm?

20 Leiðbeiningar Biblíunnar geta auðveldað fólki að takast  á við erfiðleika í fjölskyldunni. Raunar má segja að þær séu lykillinn að hamingjuríku fjölskyldulífi. Eiginmaður ætti því að elska konu sína og koma fram við hana eins og Kristur kemur fram við söfnuðinn. Konan ætti að virða forystu eiginmannsins og fylgja fordæmi vænu konunnar sem er lýst í Orðskviðunum 31:10-31. Foreldrar eru hvattir til að sinna uppeldi barnanna vel. (Orðskviðirnir 22:6) Feður ættu að ‚veita heimili sínu góða forstöðu‘. (1. Tímóteusarbréf 3:4, 5; 5:8) Og börnin ættu að hlýða foreldrunum. (Kólossubréfið 3:20) Enginn í fjölskyldunni er fullkominn og öllum verða á mistök. Verið því auðmjúk og biðjið hvert annað fyrirgefningar.

21. Hvers konar framtíð lýsir Biblían og hvernig getum við átt hamingjuríkt fjölskyldulíf núna?

21 Biblían inniheldur mikinn sjóð af verðmætum leiðbeiningum um fjölskyldulíf. Hún segir einnig frá nýjum heimi Guðs og jarðneskri paradís sem verður full af fólki sem tilbiður hann. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Það er stórfengleg framtíð sem er í vændum. En við getum nú þegar búið við hamingjuríkt fjölskyldulíf með því að fylgja leiðbeiningum Guðs sem er að finna í orði hans, Biblíunni.

^ gr. 15 Finna má leiðbeiningar um verndun barna í 32. kafla bókarinnar Lærum af kennaranum mikla, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 18 Það er því aðeins rétt af barni að óhlýðnast ef foreldrarnir fara fram á að það brjóti lög Guðs. — Postulasagan 5:29.