Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 2. KAFLI

Biblían — bók frá Guði

Biblían — bók frá Guði
  • Að hvaða leyti er Biblían ólík öllum öðrum bókum?

  • Hvernig getur Biblían hjálpað þér að glíma við vandamál þín?

  • Hvers vegna geturðu treyst spádómum Biblíunnar?

1, 2. Að hvaða leyti er Biblían afar áhugaverð gjöf frá Guði?

ÞÚ HEFUR eflaust einhvern tíma fengið góða gjöf frá kærum vini. Hvernig var þér innanbrjósts? Sennilega varstu bæði glaður og spenntur. Gjöf segir nefnilega að gefandinn meti vináttu þína mikils. Eflaust þakkaðir þú vini þínum fyrir gjöfina og hugulsemina sem bjó að baki.

2 Biblían er gjöf frá Guði sem við ættum að vera honum innilega þakklát fyrir. Í þessari einstæðu bók er ýmislegt opinberað sem við gætum aldrei vitað annars. Hún segir til dæmis frá sköpun himingeimsins, jarðarinnar, fyrsta mannsins og fyrstu konunnar. Hún hefur að geyma áreiðanlegar lífsreglur sem hjálpa okkur að glíma við erfiðleika og áhyggjur lífsins. Hún lýsir hvernig Guð kemur til leiðar því sem hann ætlar sér og hvernig hann bætir ástandið á jörðinni. Biblían er einstök gjöf!

3. Hvað segir það um Jehóva að hann skuli hafa gefið okkur Biblíuna og hvers vegna er það gleðilegt?

3 Biblían er líka gjöf sem gleður því að hún segir margt um gjafarann, Jehóva Guð. Það eitt að hann skuli hafa  gefið slíka bók sannar að hann vill að við þekkjum sig vel. Biblían getur styrkt tengsl þín við Jehóva.

4. Hvað finnst þér athyglisvert við útbreiðslu Biblíunnar?

4 Ef þú átt Biblíuna þá ertu ekki einn um það. Hún hefur verið þýdd, í heild eða að hluta, á rösklega 2300 tungumál þannig að meira en 90 af hundraði jarðarbúa hafa aðgang að henni. Að meðaltali er dreift meira en milljón eintaka af Biblíunni á viku! Hún hefur komið út í milljörðum eintaka í heild eða að hluta. Engin önnur bók er eins útbreidd.

„Nýheimsþýðing“ Biblíunnar er fáanleg á mörgum tungumálum.

5. Í hvaða skilningi er Biblían „innblásin af Guði“?

5 Auk þess er Biblían „innblásin af Guði“. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16.) Hvað þýðir það? Biblían svarar: „Menn [töluðu] orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:21) Skýrum þetta með dæmi: Forstjóri biður ritara sinn að skrifa bréf. Í bréfinu koma fram hugmyndir og fyrirmæli forstjórans þannig að bréfið er frá honum en ekki ritaranum. Biblían inniheldur sömuleiðis boðskap frá Guði en ekki frá mönnunum sem skrifuðu  hana. Öll Biblían er því ‚orð Guðs‘. — 1. Þessaloníkubréf 2:13.

NÁKVÆM OG SJÁLFRI SÉR SAMKVÆM

6, 7. Hvers vegna er innra samræmi Biblíunnar sérstaklega athyglisvert?

6 Það tók meira en 1600 ár að skrifa Biblíuna. Ritararnir voru því uppi á ólíkum tímum og voru af ólíkum uppruna. Þeirra á meðal voru bændur, fiskimenn og fjárhirðar. Sumir voru spámenn, dómarar og konungar. Guðspjallaritarinn Lúkas var læknir. En þrátt fyrir ólíkan uppruna ritaranna er Biblían sjálfri sér samkvæm frá upphafi til enda. *

7 Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst hvernig erfiðleikar mannkynsins hófust. Síðasta bókin segir frá því að öll jörðin eigi eftir að verða fögur paradís. Biblían spannar mörg þúsund ára sögu og allt efni hennar tengist fyrirætlun Guðs og framvindu hennar með einhverjum hætti. Innra samræmi Biblíunnar er eftirtektarvert en þó eðlilegt í ljósi þess að hún er bók Guðs.

8. Nefndu dæmi um vísindalega nákvæmni Biblíunnar.

8 Biblían er vísindalega nákvæm. Hún inniheldur jafnvel upplýsingar sem voru langt á undan hennar samtíð. Tökum dæmi. Í 3. Mósebók voru Ísraelsmönnum sett lög um sóttkví og hreinlæti. Aðrar þjóðir vissu ekkert um slík mál. Biblían talaði um að jörðin væri kringlótt eða hnöttótt meðan hugmyndir manna um lögun hennar voru allt aðrar. (Jesaja 40:22) Biblían segir  réttilega að jörðin ‚svífi í tómum geimnum‘. (Jobsbók 26:7) Biblían er auðvitað ekki vísindarit en hún er nákvæm þegar hún drepur á vísindaleg mál. En það er að sjálfsögðu það sem maður býst við af bók sem er frá Guði.

9. (a) Hvernig ber Biblían vitni um að hún sé sögulega nákvæm og áreiðanleg? (b) Hvað segir heiðarleiki biblíuritaranna um Biblíuna sjálfa?

9 Biblían er einnig sögulega nákvæm og áreiðanleg. Í frásögnum hennar eru menn ekki aðeins nafngreindir heldur eru ættir þeirra einnig raktar. * Veraldlegir söguritarar þögðu oft yfir því ef þjóð þeirra beið ósigur en biblíuritararnir eru heiðarlegir og segja jafnvel frá mistökum sjálfra sín og þjóðar sinnar. Biblíuritarinn Móse viðurkennir til dæmis í 4. Mósebók að sér hafi orðið alvarlega á og hafi hlotið harðar ákúrur fyrir. (4. Mósebók 20:2-12) Slíkur heiðarleiki er sjaldgæfur í öðrum sagnaheimildum en hann einkennir Biblíuna vegna þess að hún er innblásin af Guði.

RAUNSÆ OG GAGNLEG BÓK

10. Hvers vegna kemur ekki á óvart að Biblían skuli vera raunsæ og gagnleg?

10 Þar sem Biblían er innblásin af Guði er hún ‚nytsöm til fræðslu, umvöndunar og leiðréttingar‘. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hún er raunsæ og gagnleg. Hún ber vott um næman skilning á mannlegu eðli. Það er ekkert undarlegt því að höfundur hennar, Jehóva Guð, er skapari mannsins. Hann skilur hugsunarhátt okkar og tilfinningalíf betur en við sjálf. Hann veit hvað þarf til að gera okkur hamingjusöm og hann veit líka hvers konar lífsstefnu við ættum að forðast.

11, 12. (a) Um hvað ræddi Jesús í fjallræðunni? (b) Um hvaða önnur hagnýt mál er fjallað í Biblíunni og hvers vegna eru ráðleggingar hennar alltaf í gildi?

 11 Lítum á eina af ræðum Jesú sem kölluð er fjallræðan, en hana er að finna í Matteusi 5. til 7. kafla. Jesús kemur inn á margt í ræðunni, meðal annars hvernig finna megi sanna hamingju, setja niður deilur, biðjast fyrir og sjá efnislega hluti í réttu ljósi. Kennsla hans er  hrein snilld og á ekki síður erindi til okkar sem nú lifum en til þeirra sem hlustuðu á hann á sínum tíma.

12 Biblían ræðir um fjölskyldulíf, vinnuhætti og samskipti við annað fólk. Meginreglur hennar eiga við alla menn og ráð hennar eru alltaf til góðs. Jehóva lýsir visku Biblíunnar í hnotskurn með orðum spámannsins Jesaja: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt.“ — Jesaja 48:17.

SPÁDÓMSBÓK

Biblíuritarinn Jesaja spáði falli Babýlonar.

13. Hverju lét Jehóva Jesaja spá um Babýlon?

13 Í Biblíunni er fjöldi spádóma og margir þeirra hafa nú þegar ræst. Lítum á dæmi. Jehóva lét Jesaja spámann segja fyrir að borgin Babýlon yrði lögð í eyði, en Jesaja var uppi á áttundu öld f.Kr. (Jesaja 13:19; 14:22, 23) Í spádóminum kom nákvæmlega fram hvernig borgin yrði sigruð. Innrásarliðið myndi þurrka upp ána, sem rann gegnum borgina, og ganga inn í hana án nokkurra átaka. Jesaja nafngreindi jafnvel konunginn sem myndi sigra Babýlon. Hann átti að heita Kýrus. — Lestu Jesaja 44:27–45:2.

14, 15. Lýstu hvernig spádómur Jesaja um Babýlon rættist.

14 Um 200 árum síðar, nóttina 5.-6. október árið 539 f.Kr., hafði her nokkur slegið upp búðum nálægt Babýlon. Fyrir hernum fór persneskur konungur sem hét Kýrus. Nú var komið að uppfyllingu hins merkilega spádóms. En réðst her Kýrusar inn í Babýlon án bardaga eins og spáð var?

15 Babýloníumenn héldu hátíð þessa nótt og töldu sig örugga innan þykkra múra borgarinnar. Meðan á því stóð greip Kýrus til þess snilldarbragðs að veita ánni, sem rann gegnum borgina, úr farvegi hennar. Áður en langt um leið hafði lækkað svo í ánni að menn hans  gátu vaðið hana og komist alveg að borgarmúrunum. En hvernig gátu þeir komist inn fyrir múrana? Einhverra orsaka vegna höfðu Babýloníumenn sýnt það kæruleysi að skilja borgarhliðin eftir opin!

16. (a) Hverju spáði Jesaja um afdrif Babýlonar? (b) Hvernig rættist spádómur Jesaja um eyðingu Babýlonar?

16 Spáð var um Babýlon: „Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.“ (Jesaja 13:20) Hér er gengið lengra en að spá falli borgarinnar því að samkvæmt spádóminum átti Babýlon að leggjast í eyði til frambúðar. Þessi spádómsorð rættust í einu og öllu. Rústir Babýlonar eru um 80 kílómetra suður af Bagdad í Írak og eru sönnun þess að orð Jehóva fyrir munn Jesaja spámanns rættust: „Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar.“ — Jesaja 14:22, 23. *

Rústir Babýlonar.

17. Hvernig styrkir það trú okkar að sjá að spádómar Biblíunnar hafa uppfyllst?

 17 Það styrkir trúna óneitanlega að sjá dæmi um biblíuspádóma og uppfyllingu þeirra. Fyrst Jehóva hefur uppfyllt loforð sín áður fyrr höfum við fulla ástæðu til að treysta því að hann breyti jörðinni í paradís eins og hann hefur heitið. (Lestu 4. Mósebók 23:19.) Við höfum „von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum“. — Títusarbréfið 1:2. *

„ORÐ GUÐS ER LIFANDI“

18. Hvað segir Páll postuli um „orð Guðs“?

18 Af framangreindu er ljóst að Biblían er einstök bók. En gildi hennar er ekki aðeins fólgið í innra samræmi,  vísindalegri og sögulegri nákvæmni, raunsæi, gagnsemi og áreiðanlegum spádómum. Páll postuli, sem var kristinn maður, skrifaði: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ — Hebreabréfið 4:12.

19, 20. (a) Hvernig getur Biblían hjálpað þér að sjá sjálfan þig í nýju ljósi? (b) Hvernig geturðu sýnt að þú sért þakklátur fyrir Biblíuna?

19 Það getur haft djúpstæð áhrif á líf okkar að lesa „orð“ Guðs eins og boðskapur hans er oft nefndur. Biblían getur hjálpað okkur að sjá sjálf okkur í nýju ljósi. Við segjumst kannski elska Guð. En viðbrögð okkar við því sem innblásið orð hans, Biblían, kennir sýna hvernig við hugsum í raun og veru og afhjúpa innstu hvatir okkar.

20 Biblían er sannarlega frá Guði komin. Við ættum að lesa hana, grandskoða og elska. Sýndu að þú kunnir að meta þessa gjöf Guðs með því að halda áfram að kynna þér efni hennar. Þannig færðu góðan skilning á því hvað Guð ætlast fyrir með mannkynið. Í næsta kafla er fjallað um það hver fyrirætlun Guðs er og hvernig hann hrindir henni í framkvæmd.

^ gr. 6 Sumir segja að það séu mótsagnir og misræmi í Biblíunni en engin haldgóð rök eru fyrir því. Nánari upplýsingar má finna í 7. kafla bókarinnar The Bible — God’s Word or Man’s? gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 9 Sjá til dæmis ítarlega ættarskrá Jesú í Lúkasi 3:23-38.

^ gr. 16 Nánari upplýsingar um spádóma Biblíunnar má finna á bls. 27-29 í bæklingnum Bók fyrir alla menn, gefinn út af Vottum Jehóva.

^ gr. 17 Eyðing Babýlonar er aðeins eitt dæmi af mörgum um uppfyllta biblíuspádóma. Af öðrum dæmum mætti nefna eyðingu Týrusar og Níníve. (Esekíel 26:1-5; Sefanía 2:13-15) Einnig mætti nefna að Daníel spáði um heimsveldi sem áttu að koma eftir að Babýlon væri liðin undir lok, þar á meðal Medíu-Persíu og Grikkland. (Daníel 8:5-7, 20-22) Í viðaukanum „Jesús Kristur – hinn fyrirheitni Messías“ er fjallað um marga Messíasarspádóma sem rættust á Jesú Kristi.