Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐAUKI

Ættu kristnir menn að nota krossinn í tilbeiðslu sinni?

Ættu kristnir menn að nota krossinn í tilbeiðslu sinni?

KROSSINN er elskaður og virtur af milljónum manna. Í Íslenskri orðabók er hann kallaður „tákn kristinnar trúar“. En ættu kristnir menn að nota krossinn í trúariðkun sinni?

Það er athyglisvert að Jesús Kristur dó ekki á krossi. Gríska orðið staurosʹ, sem er yfirleitt þýtt „kross“, merkir fyrst og fremst „uppréttur rimill eða staur“. The Companion Bible segir: „[Staurosʹ] merkir aldrei tvö tré lögð í kross undir einhverju horni. . . . Ekkert í grískum texta [Nýja testamentisins] gefur minnstu vísbendingu um að átt sé við tvo trébjálka.“

 Á nokkrum stöðum nota biblíuritarar annað orð um aftökutækið sem notað var til að lífláta Jesú. Þetta er gríska orðið xylon. (Postulasagan 5:30; 10:39; Galatabréfið 3:13; 1. Pétursbréf 2:24) Orðið merkir einfaldlega „timbur“ eða „stafur, kylfa eða tré“.

Bókin Das Kreuz und die Kreuzigung (Krossinn og krossfestingin), eftir Hermann Fulda, varpar ljósi á það hvers vegna einfaldur staur var notaður við opinberar aftökur: „Ekki voru tré á öllum þeim stöðum þar sem opinberar aftökur fóru fram. Því var einföldum bjálka stungið niður í jörðina. Glæpamenn voru bundnir eða negldir á bjálkann með hendur teygðar upp og oft líka á fótum.“

En sterkustu sönnunina er að finna í orði Guðs. Páll postuli segir: „Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: ‚Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir.‘“ (Galatabréfið 3:13) Páll vitnar þarna í 5. Mósebók 21:22, 23 þar sem talað er greinilega um tré en ekki kross. Sá sem tekinn var af lífi með þessum hætti var álitinn „bölvaður“, þannig að varla hefur þótt við hæfi að kristnir menn skreyttu heimili sín með myndum af Kristi á aftökustaurnum.

Ekkert bendir til þess að þeir sem kölluðu sig kristna hafi notað krossinn við tilbeiðslu fyrstu 300 árin eftir dauða Krists. Heiðni keisarinn Konstantínus kom krossinum á framfæri sem trúartákni á fjórðu öld þegar hann snerist til svonefndrar kristni. Hvað sem Konstantínusi gekk til er ljóst að krossinn átti ekkert skylt við Jesú Krist. Raunar er krossinn heiðinn að uppruna. New Catholic Encyclopedia viðurkennir að „krossinn sé bæði að finna í menningarsamfélögum fyrir tíma kristninnar og utan hennar“. Í ýmsum öðrum heimildarritum er krossinn settur í samband við náttúrudýrkun og heiðna frjósemisdýrkun.

Þessu heiðna tákni var trúlega haldið á lofti í þeim tilgangi að auðvelda heiðnum mönnum að taka „kristna“ trú. Dýrkun heiðinna tákna er hins vegar fordæmd skýlaust í  Biblíunni. (2. Korintubréf 6:14-18) Biblían leggur sömuleiðis bann við hvers kyns skurðgoðadýrkun. (2. Mósebók 20:4, 5; 1. Korintubréf 10:14) Sannkristnir menn hafa því ærna ástæðu til að nota ekki krossinn í guðsdýrkun sinni. *

^ gr. 5 Nánari upplýsingar um krossinn er að finna á bls. 89-93 í bókinni Reasoning From the Scriptures sem er gefin út af Vottum Jehóva.