Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

11. HLUTI

Hvernig eru meginreglur Biblíunnar okkur til góðs?

Hvernig eru meginreglur Biblíunnar okkur til góðs?

1. Hvers vegna þurfum við á leiðsögn að halda?

Meginreglur Biblíunnar hvetja til þess að við gætum fyllsta öryggis. — SÁLMUR 36:10.

Skapari okkar er vitrari en við. Hann er umhyggjusamur faðir sem lætur sér annt um okkur. Það var ekki ætlun hans að við værum honum óháð. (Jeremía 10:23) Rétt eins og börn þurfa handleiðslu foreldra sinna þurfum við öll á leiðsögn Guðs að halda. (Jesaja 48:17, 18) Jehóva hefur gefið okkur meginreglur í Biblíunni til að leiðbeina okkur. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Lög og meginreglur Jehóva vísa okkur á bestu leiðina til að lifa lífinu núna og skýra hvernig við getum hlotið eilíft líf í framtíðinni. Þar sem Guð skapaði okkur ættum við að þiggja leiðsögn hans með þökkum. – Lestu Sálm 19:8, 12; Opinberunarbókina 4:11.

2. Hvað er meginregla?

Með meginreglu er átt við grundvallarsannindi, ólíkt lögum sem eiga stundum aðeins við tilteknar aðstæður. (5. Mósebók 22:8) Við þurfum að sýna góða dómgreind til að skilja hvernig ákveðnar meginreglur eiga við hverju sinni. (Orðskviðirnir 2:10-12) Svo dæmi sé tekið kennir Biblían að lífið sé gjöf frá Guði. Ef við höfum þessa meginreglu að leiðarljósi gætum við þess að setja ekki sjálf okkur eða aðra í óþarfa hættu, svo sem á vinnustað, heima eða á ferðalögum. – Lestu Postulasöguna 17:28.

3. Hvaða tvær meginreglur eru mikilvægastar?

Jesús talaði um tvær meginreglur sem væru öllum öðrum fremri. Sú fyrri varpar ljósi á sjálfan tilgang lífsins – að þekkja Guð, elska hann og þjóna honum dyggilega. Við ættum alltaf að hafa þessa meginreglu að leiðarljósi þegar við tökum ákvarðanir. (Orðskviðirnir 3:6) Þeir sem lifa eftir henni hljóta vináttu Guðs, sanna hamingju og eilíft líf. – Lestu Matteus 22:36-38.

Hin meginreglan getur stuðlað að góðum samskiptum við aðra. (1. Korintubréf 13:4-7) Þeir sem fylgja henni líkja eftir umhyggju Guðs fyrir mönnunum. – Lestu Matteus 7:12; 22:39, 40.

4. Hvernig eru meginreglur Biblíunnar okkur til góðs?

Meginreglur Biblíunnar hvetja til kærleika og samheldni í fjölskyldunni. (Kólossubréfið 3:12-14) Biblían veitir fjölskyldum einnig vernd með annarri meginreglu – þeirri að hjónabandið eigi að vera varanlegt. – Lestu 1. Mósebók 2:24.

Biblían hjálpar okkur að fullnægja efnislegum og tilfinningalegum þörfum okkar. Vinnuveitendur halda til dæmis gjarnan í starfsmenn sem eru heiðarlegir og duglegir eins Biblían hvetur til. (Orðskviðirnir 10:4, 26; Hebreabréfið 13:18) Í Biblíunni er einnig lögð áhersla á að vera nægjusamur og taka vináttu Guðs fram yfir efnislega hluti. – Lestu Matteus 6:24, 25, 33; 1. Tímóteusarbréf 6:8-10.

Við getum líka verndað heilsuna með því að lifa eftir meginreglum Biblíunnar. (Orðskviðirnir 14:30; 22:24, 25) Sem dæmi má nefna að við drögum úr hættunni á banvænum sjúkdómum og slysum ef við forðumst drykkjuskap. Í Biblíunni er lagt bann við ofdrykkju en við megum neyta áfengis í hófi. (Orðskviðirnir 23:20; Sálmur 104:15; 1. Korintubréf 6:10) Meginreglur Guðs eru okkur til góðs því að þær hvetja okkur ekki aðeins til að stjórna gerðum okkar heldur einnig hugsunum. (Sálmur 119:97-100) En sannkristnir menn lifa ekki aðeins eftir meginreglum Biblíunnar af því að það er sjálfum þeim til hagsbóta. Þeir gera það til að heiðra Jehóva. – Lestu Matteus 5:14-16.