6. HLUTI
Hvaða framtíð bíður hinna dánu?
1. Hverjar eru gleðifréttirnar um hina dánu?
Þegar Jesús kom til Betaníu í grennd við Jerúsalem voru liðnir fjórir dagar síðan Lasarus, vinur hans, dó. Jesús fór að gröfinni ásamt Mörtu og Maríu, systrum hins látna. Fjölda fólks dreif að. Geturðu ímyndað þér gleði Mörtu og Maríu þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum? – Lestu Jóhannes 11:21-24, 38-44.
Marta vissi hvaða framtíð beið hinna dánu. Hún vissi að Jehóva ætlar að reisa þá upp til að lifa á jörðinni á nýjan leik. – Lestu Jobsbók 14:14, 15.
2. Hvað gerist við dauðann?
Guð sagði við Adam: „Mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.“ — 1. MÓSEBÓK 3:19.
Mennirnir eru myndaðir af moldu jarðar. (1. Mósebók 2:7; 3:19) Við erum ekki andar í mannslíkama. Við erum hold og blóð og enginn hluti okkar lifir þegar líkaminn deyr. Heilinn deyr þegar við deyjum og hugarstarfsemin hættir. Lasarus minntist ekki á að hann hefði upplifað neitt meðan hann var dáinn vegna þess að dáið fólk er án meðvitundar. – Lestu Sálm 146:4; Prédikarann 9:5, 6, 10.
Kvelur Guð fólk í eldi eftir dauðann? Þar sem hinir dánu eru án meðvitundar, eins og fram kemur í Biblíunni, er kenningin um helvíti augljóslega röng. Hún er hreinn rógur um Guð. Honum þykir það fráleit hugmynd að kvelja fólk í eldi. – Lestu Jeremía 7:31.
Horfðu á myndskeiðið Hvað gerist við dauðann?
3. Geta hinir dánu haft samband við okkur?
Dáið fólk getur hvorki talað né heyrt. (Sálmur 115:17) En til eru illir englar og þeir reyna stundum að tala við fólk og þykjast vera dánir einstaklingar. (2. Pétursbréf 2:4) Jehóva bannar okkur að reyna að ná sambandi við hina látnu. – Lestu 5. Mósebók 18:10, 11.
4. Hverjir fá upprisu?
Margar milljónir manna, sem hafa dáið, eiga eftir að lifa á nýjan leik á jörð. Í þessum hópi verða margir sem þekktu ekki Guð og gerðu ýmislegt rangt. – Lestu Lúkas 23:43; Postulasöguna 24:15.
Þeir sem rísa upp frá dauðum fá tækifæri til að kynna sér sannleikann um Guð og sýna að þeir trúi á Jesú með því að hlýða honum. (Opinberunarbókin 20:11-13) Þeir sem rísa upp og gera það sem gott er fá að lifa að eilífu á jörð. – Lestu Jóhannes 5:28, 29.
5. Hvað lærum við um Jehóva af upprisunni?
Hinir dánu eiga sér framtíð vegna þess að Guð sendi son sinn til að deyja fyrir okkur mennina. Upprisan er lýsandi fyrir kærleika Jehóva og óverðskuldaða gæsku hans. Hvern hlakkarðu sérstaklega til að hitta þegar dánir rísa upp? – Lestu Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 6:23.