Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 18. KAFLI

Jesús vinnur kraftaverk

Jesús vinnur kraftaverk

Kraftaverk Jesú sýna hvernig hann mun beita mætti sínum sem konungur.

GUÐ veitti Jesú mátt til að gera hluti sem aðrir menn gátu ekki. Jesús vann mörg kraftaverk, oft í augsýn fjölda sjónarvotta. Með þessum kraftaverkum sýndi Jesús að hann réð við óvini og erfiðleika sem ófullkomnir menn hafa aldrei getað unnið bug á. Lítum á nokkur dæmi.

Hungur. Fyrsta kraftaverk Jesú fólst í því að breyta vatni í úrvalsvín. Tvívegis mettaði hann þúsundir hungraðra með fáeinum brauðum og fiskum. Í báðum tilfellum var meira en nóg handa öllum.

Sjúkdómar. Jesús læknaði „hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal fólksins“. (Matteus 4:23) Hann læknaði blinda, heyrnarlausa, holdsveika og flogaveika. Hann réð við lömun og hvers kyns bæklun. Enginn sjúkdómur reyndist honum ofviða.

Illviðri. Einu sinni voru Jesús og lærisveinarnir að sigla yfir Galíleuvatn þegar stormur brast á. Lærisveinarnir voru dauðskelfdir en Jesús horfði einfaldlega í storminn og sagði: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Þá gerði stillilogn. (Markús 4:​37-39) Öðru sinni gekk hann á vatninu í ofviðri. — Matteus 14:​24-33.

Illir andar. Illir andar eru miklu öflugri en menn. Margir hafa lent í klóm þessara illskeyttu óvina Guðs og ekki getað losað sig. En Jesús rak margsinnis út illa anda svo að þeir misstu tökin á fólki. Hann óttaðist þá ekki. Þeir vissu hins vegar hvaða vald hann hafði og óttuðust hann.

Dauði. Dauðinn er kallaður „síðasti óvinurinn“ og það með réttu. (1. Korintubréf 15:26) Enginn maður getur sigrast á dauðanum. Jesús reisti hins vegar upp dána. Ekkja endurheimti son sinn og harmþrungnir foreldrar unga dóttur sína. Jesús reisti líka upp Lasarus, vin sinn, að viðstöddum hópi syrgjenda, og hafði Lasarus þó verið dáinn í næstum fjóra daga! Hörðustu óvinir Jesú viðurkenndu meira að segja að hann hefði unnið þetta kraftaverk. — Jóhannes 11:​38-48; 12:​9-11.

Af hverju gerði Jesús öll þessi kraftaverk? Dóu ekki allir að lokum sem hann reisti upp frá dauðum? Jú, en kraftaverkin höfðu varanlegt gildi. Þau sönnuðu að hinir hrífandi spádómar um konunginn Messías voru byggðir á staðreyndum. Það er engin ástæða til að draga í efa að konungurinn, sem Guð hefur valið, geti útrýmt hungri, sjúkdómum, illviðrum, illum öndum og sjálfum dauðanum. Hann er búinn að sýna að Guð hefur gefið honum vald til að gera allt þetta.

— Byggt á guðspjöllum Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar.