Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

19. KAFLI

Jesús spáir langt fram í tímann

Jesús spáir langt fram í tímann

Jesús lýsir atburðum sem eiga sér stað eftir að hann tekur við konungdómi og núverandi heimskerfi er í þann mund að líða undir lok.

JESÚS er staddur á Olíufjallinu ásamt fjórum af postulunum. Þeir hafa gott útsýni yfir Jerúsalem og musterið. Nú spyrja postularnir hann nánar út í mál sem hann hafði talað um áður. Hann var nýbúinn að segja þeim að musterið yrði lagt í rúst og hafði áður talað við þá um „endi veraldar“. (Matteus 13:​40, 49) Nú spyrja postularnir: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ — Matteus 24:⁠3.

Jesús sagði þeim þá hvað myndi eiga sér stað áður en Jerúsalem yrði eytt. En spádómurinn náði lengra fram í tímann. Hann átti að uppfyllast í meiri mæli síðar og þá um allan heim. Jesús lýsti atburðum og aðstæðum í heiminum sem samanlagt yrðu tákn þess að hann væri tekinn við völdum sem konungur á himnum. Jarðarbúar gætu með öðrum orðum séð af þessu tákni að Jehóva Guð hefði gert Jesú að konungi hins langþráða Messíasarríkis. Táknið myndi sýna að þetta ríki væri í þann mund að útrýma illskunni og koma á sönnum friði á jörð. Það sem Jesús spáði myndi þannig einkenna síðustu daga hins gamla heimskerfis — trúar-, stjórnmála- og þjóðfélagskerfin sem nú eru — og boða að nýr heimur væri að renna upp.

Jesús sagði hvað myndi gerast á jörðinni þegar hann hefði tekið við konungdómi á himnum. Þá yrðu útbreiddar styrjaldir, matvælaskortur, drepsóttir og miklir jarðskjálftar. Lögleysi myndi færast í aukana. Sannir lærisveinar Jesú myndu prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs út um allan heim. Að síðustu myndi skella á mesta þrenging sem þekkst hefði í sögu mannkyns. — Matteus 24:⁠21.

Hvernig gátu fylgjendur Jesú vitað að þrengingin væri í nánd? „Nemið líkingu af fíkjutrénu,“ sagði Jesús. (Matteus 24:32) Þegar fíkjutréð tekur að laufgast er það augljóst merki þess að sumarið sé í nánd. Þegar allt það sem Jesús spáði myndi eiga sér stað á ákveðnu tímabili yrði það að sama skapi augljóst merki þess að endirinn væri nærri. Enginn nema faðirinn myndi vita með vissu á hvaða degi og stund þrengingin mikla skylli á. Þess vegna hvatti Jesús lærisveinana til að halda vöku sinni og sagði: „Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn.“ — Markús 13:⁠33.

— Byggt á Matteusi 24. og 25. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla.

^ gr. 14 Nánari upplýsingar um spádóm Jesú er að finna í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.