Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 17. KAFLI

Jesús fræðir fólk um ríki Guðs

Jesús fræðir fólk um ríki Guðs

Jesús kennir lærisveinunum margt en einbeitir sér aðallega að einu — ríki Guðs.

HVAÐA verkefni hafði Jesús hér á jörð? Hann sagði sjálfur: „Mér ber . . . að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Lítum á fernt sem Jesús kenndi varðandi ríki Guðs en það var þungamiðjan í kennslu hans.

1. Jesús átti að verða konungur. Hann sagði berum orðum að hann væri hinn fyrirheitni Messías. (Jóhannes 4:​25, 26) Hann benti einnig á að hann væri konungurinn sem Daníel spámaður hafði séð í sýn. Jesús sagði postulunum að þegar fram liðu stundir myndi hann sitja í „dýrðarhásæti“ og þeir myndu líka sitja í hásætum. (Matteus 19:28) Hann kallaði þennan hóp meðstjórnenda sinna „litla hjörð“ og sagðist líka eiga „aðra sauði“ sem ekki tilheyrðu þeim hópi. — Lúkas 12:32; Jóhannes 10:⁠16.

2. Ríki Guðs kemur á sönnu réttlæti. Jesús gaf til kynna að ríki Guðs myndi binda enda á mesta óréttlæti sögunnar með því að helga nafn Jehóva Guðs og hrekja allar þær ásakanir sem Satan hefur borið á hendur Jehóva allt frá uppreisninni í Eden. (Matteus 6:​9, 10) Jesús var alltaf óhlutdrægur og kenndi án manngreinarálits bæði körlum og konum, ríkum og fátækum. Þótt hann hefði fyrst og fremst það hlutverk að kenna Ísraelsmönnum rétti hann einnig hjálparhönd Samverjum og fólki af öðrum þjóðum. Hann var ólíkur trúarleiðtogum samtíðarinnar og sýndi aldrei minnstu hlutdrægni.

3. Ríki Guðs átti ekki að vera hluti af þessum heimi. Jesús var uppi á miklum umbrotatímum og heimaland hans var undir erlendum yfirráðum. En þegar fólk reyndi að fá hann til að blanda sér í stjórnmál dró hann sig í hlé. (Jóhannes 6:​14, 15) Hann sagði stjórnmálamanni nokkrum: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóhannes 18:36) Hann sagði við fylgjendur sína: „Þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Hann leyfði þeim ekki að beita vopnum, ekki einu sinni til að verja hann. — Matteus 26:​51, 52.

„Jesús [fór] um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ — Lúkas 8:⁠1.

4. Stjórn Krists átti að byggjast á kærleika. Jesús lofaði að endurnæra fólk og létta byrðar þess. (Matteus 11:​28-30) Hann stóð við orð sín. Hann kenndi fólki hvernig það gæti tekist á við áhyggjur sínar, bætt samskiptin við aðra, varast efnishyggju og höndlað hamingjuna. (Matteus 5. til 7. kafli) Allir áttu auðvelt með að leita til hans af því að hann var kærleiksríkur. Fólk úr öllum stéttum samfélagsins streymdi til hans, jafnvel það sem lægst var sett, í trausti þess að hann sýndi því vinsemd og virti reisn þess. Jesús verður frábær stjórnandi!

Jesús fræddi fólk um ríki Guðs á annan hátt, ekki síður áhrifaríkan. Hann vann fjölda kraftaverka. Við skulum kanna af hverju hann gerði það.

— Byggt á guðspjöllum Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar.