Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

21. KAFLI

Jesús er upprisinn

Jesús er upprisinn

Jesús birtist fylgjendum sínum til að kenna þeim og hvetja þá.

Á ÞRIÐJA degi eftir dauða Jesú uppgötva konur úr hópi lærisveinanna að steininum, sem lokaði gröfinni, hefur verið velt frá. Og gröfin er tóm!

Tveir englar birtast konunum. „Þér leitið að Jesú frá Nasaret,“ segir annar þeirra. „Hann er upp risinn.“ (Markús 16:⁠6) Konurnar hlaupa strax af stað til að segja postulunum frá þessu. Þær hitta Jesú á leiðinni. „Óttist ekki,“ segir hann. „Farið og segið bræðrum mínum og systrum að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“ — Matteus 28:⁠10.

Síðar sama dag eru tveir lærisveinar á göngu frá Jerúsalem til þorps sem heitir Emmaus. Ókunnugur maður slæst í för með þeim og spyr um hvað þeir séu að ræða. Þetta var reyndar Jesús upprisinn en var þannig útlits að þeir þekktu hann ekki í fyrstu. Þeir segja honum daprir í bragði að þeir hafi verið að tala um Jesú. Ókunni maðurinn tekur þá að skýra fyrir þeim það sem sagt var um Messías í öllum ritningunum. Jesús hafði vissulega uppfyllt messíasarspádómana í smáatriðum. * Þegar lærisveinarnir áttuðu sig á að ókunni maðurinn var Jesús, reistur upp sem andi, hvarf hann sjónum þeirra.

Lærisveinarnir tveir snúa þegar í stað við og halda aftur til Jerúsalem. Postularnir eru þar saman komnir bak við læstar dyr. Þegar tvímenningarnir segja frá því sem gerðist birtist Jesús. Fylgjendur hans eru furðu lostnir og trúa varla eigin augum. „Hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar?“ spyr hann. „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi.“ — Lúkas 24:​38, 46.

Jesús birtist lærisveinum sínum við ýmis tækifæri í 40 daga eftir að hann er reistur upp. Einu sinni birtist hann meira en 500 í einu! Það er líklega þá sem hann felur þeim þetta mikilvæga verkefni: „Farið . . . og gerið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:​19, 20.

Í síðasta skiptið, sem Jesús hittir 11 trúa postula sína, lofar hann: „Þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:⁠8) Síðan lyftist Jesús upp til himna og ský huldi hann sjónum þeirra.

— Byggt á Matteusi 28. kafla, Markúsi 16. kafla, Lúkasi 24. kafla, Jóhannesi 20. og 21. kafla og 1. Korintubréfi 15:​5, 6.

^ gr. 6 Finna má dæmi um messíasarspádóma, sem rættust á Jesú, í 14. kafla, 15. kafla og 16. kafla þessa bæklings og í viðaukanum „Jesús Kristur – hinn fyrirheitni Messías“ í bókinni Hvað kennir Biblían?