14. KAFLI
Guð talar fyrir munn spámanna
Jehóva skipar spámenn til að boða dóma og flytja boðskap sem tengist hreinni tilbeiðslu og voninni um Messías.
SPÁMENNIRNIR koma fram á sjónarsviðið á konungatímanum í Ísrael og Júda. Þeir voru einstaklega hugrakkir trúmenn sem fluttu boð frá Guði. Við skulum líta á fernt sem spámenn Guðs boðuðu.
1. Eyðing Jerúsalem. Spámenn Guðs, einkum Jesaja og Jeremía, boðuðu með löngum fyrirvara að Jerúsalem yrði eytt og hún yfirgefin. Þeir lýstu með ljóslifandi hætti hvers vegna borgin hefði kallað yfir sig reiði Guðs. Borgarbúar litu á sig sem fulltrúa Jehóva en verk þeirra, svo sem falstrúariðkanir, spilling og ofbeldi, sýndu annað. — 2. Konungabók 21:10-15; Jesaja 3:1-8, 16-26; Jeremía 2:1–3:13.
2. Sönn tilbeiðsla endurreist. Þjóð Guðs yrði frelsuð eftir 70 ára útlegð í Babýlon. Hún myndi snúa heim til ættjarðarinnar sem legið hafði í eyði og endurreisa musteri Jehóva í Jerúsalem. (Jeremía 46:27; Amos 9:13-15) Um 200 árum fyrir fram nafngreindi Jesaja valdhafann sem myndi vinna Babýlon og veita þjóð Guðs leyfi til að endurreisa sanna tilbeiðslu. Hann átti að heita Kýrus. Jesaja lýsti meira að segja hvernig Kýrus myndi vinna borgina með óvenjulegum hætti. — Jesaja 44:24–45:3.
3. Koma Messíasar og ævi hans. Messías átti að fæðast í bænum Betlehem. (Míka 5:1) Hann yrði lítillátur og myndi koma til Jerúsalem ríðandi ösnufola. (Sakaría 9:9) Þótt hann væri mildur og góðviljaður yrði hann óvinsæll og margir myndu hafna honum. (Jesaja 42:1-3; 53:1, 3) Hann yrði líflátinn með grimmilegum hætti. Áttu það að vera endalok hans? Nei, því að fórn hans átti að gera mörgum kleift að hljóta syndafyrirgefningu. (Jesaja 53:4, 5, 9-12) Til að áorka því þurfti hann að rísa upp frá dauðum.
4. Stjórn Messíasar yfir jörðinni. Ófullkomnir menn eru í rauninni ófærir um að stjórna friðsamlega en konungurinn Messías yrði nefndur Friðarhöfðingi. (Jesaja 9:5, 6; Jeremía 10:23) Undir stjórn hans eiga allir menn að búa saman í sátt og samlyndi og í friði við dýrin. (Jesaja 11:3-7) Sjúkdómar verða liðin tíð. (Jesaja 33:24) Dauðinn verður meira að segja afmáður að eilífu. (Jesaja 25:8) Undir stjórn Messíasar verða dánir reistir upp til að lifa á jörð. — Daníel 12:13.
— Byggt á bókum Jesaja, Jeremía, Daníels, Amosar, Míka og Sakaría.