Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

5. KAFLI

Guð blessar Abraham og ætt hans

Guð blessar Abraham og ætt hans

Afkomendum Abrahams fjölgar. Guð verndar Jósef í Egyptalandi.

JEHÓVA vissi að sonurinn, sem honum þótti vænst um, myndi þurfa að þjást og deyja þegar fram liðu stundir. Þetta kom óbeint fram í spádóminum í 1. Mósebók 3:15. Gat Guð komið mannkyni í skilning um hve mikla fórn hann ætti eftir að færa? Í Biblíunni er sagt frá lifandi dæmi um það sem Guð átti eftir að gera þegar hann bað Abraham að fórna Ísak, heittelskuðum syni sínum.

Abraham hafði sterka trú. Við skulum hafa hugfast að Guð hafði lofað honum að frelsarinn, niðjinn sem spáð hafði verið um, kæmi af Ísak. Abraham treysti að Guð myndi reisa Ísak upp frá dauðum ef með þyrfti og ætlaði að hlýða Guði og fórna syninum. En engill Guðs stöðvaði Abraham í tæka tíð. Guð lofaði hinn trúa ættföður fyrir að vera fús til að fórna því sem var honum dýrmætast og ítrekaði fyrirheit sitt við hann.

Ísak eignast tvo syni, þá Esaú og Jakob. Ólíkt Esaú kunni Jakob að meta það sem andlegt var og var umbunað fyrir. Guð breytti nafni Jakobs í Ísrael. Hann eignast 12 syni og af þeim koma ættkvíslir Ísraels. En hvernig varð þessi fjölskylda að mikilli þjóð?

Ákveðin atburðarás hefst þegar synir Jakobs verða upp til hópa öfundsjúkir út í Jósef, næstyngsta bróðurinn. Þeir selja hann sem þræl og það er farið með hann til Egyptalands. En Guð blessar unga manninn sem er bæði trúr og hugrakkur. Jósef lendir í miklum erfiðleikum en faraó, egypski valdhafinn, skipar hann að lokum í valdamikið embætti. Það gerðist á heppilegum tíma því að hungursneyð skall á og Jakob sendi nokkra af sonum sínum til Egyptalands til að kaupa matvæli. Svo vildi til að Jósef réð yfir öllum matvælabirgðum Egypta. Eftir óvænta endurfundi fyrirgefur Jósef iðrandi bræðrum sínum og gerir ráðstafanir til að öll ættin flytjist til Egyptalands. Þeim er gefið úrvalsland til búsetu þar sem þeir geta dafnað og þeim fjölgað. Jósef gerir sér grein fyrir að Guð hefur haft hönd í bagga til að efna loforð sín.

Jakob bjó í Egyptalandi til æviloka ásamt ættinni sem fór ört vaxandi. Á dánarbeðinu sagði hann fyrir að frelsarinn, hinn fyrirheitni niðji, yrði voldugur stjórnandi fæddur af ætt Júda, sonar síns. Áður en Jósef dó mörgum árum síðar spáði hann að sá dagur myndi koma að Guð leiddi ætt Jakobs út úr Egyptalandi.

— Byggt á 1. Mósebók 20. til 50. kafla og Hebreabréfinu 11:​17-22.