Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 23. KAFLI

Fagnaðarerindið breiðist út

Fagnaðarerindið breiðist út

Páll fer um sjó og land til að boða fagnaðarerindið.

PÁLL boðar fagnaðarerindið um ríki Guðs af miklum krafti eftir að hafa tekið trú. En nú er maðurinn, sem ofsótti kristna söfnuðinn, ofsóttur sjálfur. Þessi ötuli postuli fer í nokkrar boðunarferðir og ferðast víða til að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið, en þetta ríki er leið Guðs til að láta upphaflega fyrirætlun sína með mannkynið ná fram að ganga.

Í fyrstu boðunarferð sinni er Páll staddur í Lýstru og læknar þar mann sem hafði verið lamaður á fótum frá fæðingu. Mannfjöldinn tekur þá að hrópa að Páll og Barnabas, ferðafélagi hans, séu guðir. Tvímenningunum tekst með naumindum að koma í veg fyrir að fólkið færi þeim fórnir. Fjandmenn Páls hafa síðar þau áhrif að þetta sama fólk grýtir Pál og telur hann dáinn. En Páll lifir og snýr aftur til borgarinnar síðar til að uppörva lærisveinana og hvetja þá.

Hópur Gyðinga í kristna söfnuðinum heldur því fram að trúað fólk af öðrum þjóðum þurfi að fylgja vissum ákvæðum Móselaganna. Páll leggur málið fyrir postulana og öldungana í Jerúsalem. Eftir að hafa skoðað ritningarnar vandlega og leitað leiðsagnar heilags anda komast þeir að niðurstöðu. Þeir skrifa söfnuðunum og hvetja þá til að forðast skurðgoðadýrkun, neyta ekki blóðs né kjöts sem hafði ekki verið blóðgað og forðast saurlifnað. Það var „nauðsynlegt“ að halda þessi ákvæði en til þess þurfti ekki að fylgja lögmáli Móse. — Postulasagan 15:​28, 29.

Í annarri boðunarferðinni kemur Páll til Beroju. Hún stóð í Makedóníu þar sem nú heitir Grikkland. Gyðingar þar í borg taka fúslega við orðinu og rannsaka daglega ritningarnar til að sannreyna það sem Páll kennir. En sökum andstöðu neyðist Páll til að halda för sinni áfram og fer til Aþenu. Páll flytur kröftuga ræðu í áheyrn lærðra Aþenumanna. Ræðan er prýðisdæmi um nærgætni, innsæi og málsnilld.

Páll heldur til Jerúsalem eftir að hafa lokið þriðju boðunarferðinni. Leiðin liggur í musterið en Gyðingar gera uppþot og ætla að drepa hann. Rómverskir hermenn skakka leikinn og síðan er Páll yfirheyrður. Þar sem hann er rómverskur ríkisborgari fær hann síðar að verja mál sitt fyrir Felix, landstjóra Rómverja. Gyðingar geta ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því sem þeir saka Pál um. Til að koma í veg fyrir að Festus, sem er annar rómverskur landstjóri, framselji hann Gyðingum segir Páll: „Ég skýt máli mínu til keisarans.“ Festus svarar: „Til keisarans skaltu fara.“ — Postulasagan 25:​11, 12.

Páll er síðan fluttur sjóleiðis til Ítalíu til að verja mál sitt. Eftir skipbrot við Möltu hefur hann vetursetu á eynni. Hann kemur að lokum til Rómar og býr þar í tvö ár í húsnæði sem hann hafði leigt sér. Þótt hermaður gæti hans er hann ötull sem fyrr og boðar ríki Guðs öllum sem heimsækja hann.

— Byggt á Postulasögunni 11:22–28:⁠31.