Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 24. KAFLI

Páll skrifar söfnuðunum

Páll skrifar söfnuðunum

Bréf Páls styrkja kristna söfnuðinn.

HINN nýstofnaði kristni söfnuður á að gegna mikilvægu hlutverki í því að vilji Jehóva nái fram að ganga. En það líður ekki á löngu áður en frumkristnir menn sæta árásum. Verða þeir Guði trúir í utanaðkomandi ofsóknum og gagnvart lúmskari hættum innan frá? Í Nýja testamentinu er að finna 21 bréf þar sem gefin eru góð ráð og hvatningarorð.

Fjórtán af þessum bréfum, frá Rómverjabréfinu til Hebreabréfsins, voru skrifuð af Páli postula. Bréfin eru nefnd eftir þeim sem þau eru stíluð á, hvort sem það eru söfnuðir eða einstaklingar. Lítum á sumt af því sem Páll fjallar um í bréfum sínum.

Leiðbeiningar um hegðun og siðferði. Þeir sem stunda saurlifnað, hórdóm og aðrar grófar syndir „munu ekki erfa Guðs ríki“. (Galatabréfið 5:​19-21; 1. Korintubréf 6:​9-11) Þeir sem tilbiðja Guð verða að vera sameinaðir óháð þjóðerni. (Rómverjabréfið 2:11; Efesusbréfið 4:​1-6) Þeir eiga að gefa fúslega af sjálfum sér til að hjálpa þurfandi trúsystkinum. (2. Korintubréf 9:⁠7) „Biðjið án afláts,“ hvetur Páll. Kristnir menn eru hvattir til að úthella hjörtum sínum fyrir Jehóva í bæn. (1. Þessaloníkubréf 5:17; 2. Þessaloníkubréf 3:1; Filippíbréfið 4:​6, 7) Til að Guð heyri bænir þarf að biðja í trú. — Hebreabréfið 11:⁠6.

Hvernig dafna fjölskyldur best? Eiginmaður á að elska eiginkonu sína eins og eigin líkama. Eiginkona á að bera djúpa virðingu fyrir eiginmanni sínum. Börn eiga að hlýða foreldrum sínum því að það er Guði þóknanlegt. Foreldrar þurfa að leiðbeina og kenna börnunum í kærleika í samræmi við meginreglur Guðs. — Efesusbréfið 5:22–6:4; Kólossubréfið 3:​18-21.

Hjálp til að skilja fyrirætlun Guðs. Mörg ákvæði Móselaganna höfðu það hlutverk að vernda Ísraelsmenn og leiðbeina þeim þangað til Kristur kæmi. (Galatabréfið 3:24) Kristnir menn þurfa hins vegar ekki að halda lögmálið til að tilbiðja Guð. Hebreabréfið er ætlað kristnum mönnum sem voru Gyðingar að uppruna. Þar varpar Páll ljósi á þýðingu lögmálsins og skýrir hvernig fyrirætlun Guðs kom fram í Kristi. Páll bendir á að margt í lögmálinu hafi haft spádómlega þýðingu. Dýrafórnirnar fyrirmynduðu til dæmis fórn Jesú en  hún er forsenda þess að fá syndir sínar fyrirgefnar. (Hebreabréfið 10:​1-4) Með dauða Jesú felldi Guð lagasáttmálann úr gildi því að hans var ekki lengur þörf. — Kólossubréfið 2:​13-17; Hebreabréfið 8:⁠13.

Leiðbeiningar um skipulag safnaðarins. Karlmenn, sem fara með forystu í söfnuðinum, þurfa að hafa gott siðferði og uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru í Biblíunni. (1. Tímóteusarbréf 3:​1-10, 12, 13; Títusarbréfið 1:​5-9) Þeir sem tilbiðja Jehóva Guð eiga að safnast saman reglulega til að uppörva hver annan. (Hebreabréfið 10:​24, 25) Samkomur eiga að vera fræðandi og uppbyggilegar. — 1. Korintubréf 14:​26, 31.

Þegar Páll skrifar Tímóteusi síðara bréfið er hann kominn aftur til Rómar. Hann situr í fangelsi og bíður dóms. Aðeins fáeinir hugrakkir trúbræður taka þá áhættu að heimsækja hann. Páll veit að hann á skammt eftir ólifað. „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna,“ segir hann. (2. Tímóteusarbréf 4:⁠7) Hann deyr sennilega píslarvættisdauða skömmu síðar. En bréf hans eru þjónum Guðs til leiðsagnar enn þann dag í dag.

— Byggt á Rómverjabréfinu, 1. Korintubréfi, 2. Korintubréfi, Galatabréfinu, Efesusbréfinu, Filippíbréfinu, Kólossubréfinu, 1. Þessaloníkubréfi, 2. Þessaloníkubréfi, 1. Tímóteusarbréfi, 2. Tímóteusarbréfi, Títusarbréfinu, Fílemonsbréfinu og Hebreabréfinu.