Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju ættirðu að kynna þér Biblíuna?

Af hverju ættirðu að kynna þér Biblíuna?

Hefurðu kynnt þér Biblíuna? Þessi einstaka bók er jafnframt langútbreiddasta bók í sögu mannkyns. Fólk frá alls konar menningarheimum hefur fundið von og huggun í boðskap hennar og hún hefur reynst góður leiðarvísir í daglegu lífi. Margir vita þó lítið um Biblíuna. Kannski vilt þú kynnast henni betur, hvort sem þú ert trúhneigður eða ekki. Þetta rit er samið í þeim tilgangi að gefa aðgengilegt yfirlit yfir efni Biblíunnar.

ÁÐUR en þú tekur þér Biblíuna í hönd og byrjar að lesa er gott fyrir þig að vita örlítið um hana. Biblían, sem er einnig kölluð Heilög ritning, er safn 66 minni bóka. Sú fyrsta heitir 1. Mósebók en sú síðasta er nefnd Opinberunarbókin.

Hver er höfundur Biblíunnar? Það er athyglisverð spurning. Biblían var skrifuð á rúmlega 1.600 árum og um það bil 40 menn tóku þátt í verkinu. Þessir menn segjast þó ekki vera höfundar Biblíunnar. „Sérhver ritning er innblásin af Guði,“ skrifaði einn þeirra. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Annar sagði: „Andi Drottins talaði af munni mínum, orð hans var mér á tungu.“ (2. Samúelsbók 23:⁠2) Ritararnir halda því fram að Jehóva Guð, Drottinn alheims, sé höfundur Biblíunnar. Þeir benda á að hann vilji vera í nánum tengslum við mennina.

Til að skilja Biblíuna þarf líka að hafa annað í huga. Meginviðfangsefni hennar er að staðfesta rétt Guðs til að stjórna mannkyni fyrir milligöngu ríkis síns á himnum. Í þessu riti geturðu kynnt þér hvernig þetta þema er eins og rauður þráður allt frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar.

Hafðu þetta í huga þegar þú kynnir þér efni vinsælustu bókar í heimi, Biblíunnar.