Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

13. KAFLI

Góðir konungar og slæmir

Góðir konungar og slæmir

Ísrael klofnar í tvö ríki. Fæstir af konungum þeirra eru Guði trúir. Babýloníumenn eyða Jerúsalem.

EINS og Jehóva hafði sagt fyrir klofnaði Ísrael í tvö ríki eftir að Salómon sneri baki við sannri tilbeiðslu. Rehabeam sonur hans, sem tók við af honum, stjórnaði með harðri hendi. Tíu af ættkvíslum Ísraels gerðu þar af leiðandi uppreisn og stofnuðu norðurríkið sem nefnt var Ísrael. Tvær af ættkvíslunum héldu tryggð við konunginn af ætt Davíðs sem sat í Jerúsalem. Þær mynduðu suðurríkið Júda.

Saga beggja ríkjanna var róstusöm, aðallega vegna þess að konungarnir voru flestir trúlausir og hlýddu ekki boðum Guðs. Ísrael farnaðist enn verr en Júda því að konungar þess beittu sér fyrir falsdýrkun allt frá upphafi. Spámenn eins og Elía og Elísa unnu máttarverk og reistu jafnvel upp dána. En þrátt fyrir það sótti alltaf í sama farið í norðurríkinu. Að síðustu leyfði Guð að Assýringar eyddu norðurríkið.

Júdaríkið stóð rúmlega öld lengur en Ísraelsríkið en átti líka yfir höfði sér refsingu Guðs. Einungis fáeinir Júdakonungar sinntu viðvörunum spámanna og reyndu að leiða þjóðina aftur til Jehóva Guðs. Jósía konungur hófst til dæmis handa við að útrýma falsguðadýrkun í Júda og lét gera við musteri Jehóva. Það hafði djúpstæð áhrif á hann þegar upprunalegt eintak fannst af lögmáli Guðs sem Móse hafði ritað. Hann setti þá enn meiri kraft í siðbótarherferð sína.

Arftakar Jósía fylgdu því miður ekki góðu fordæmi hans. Jehóva leyfði því Babýloníumönnum að sigra Júda og eyða Jerúsalem ásamt musterinu. Þeir sem eftir lifðu voru fluttir í útlegð til Babýlonar. Guð sagði fyrir að þjóðin yrði í útlegð í 70 ár. Júda lá í eyði allan tímann uns þjóðinni var leyft að snúa aftur til ættjarðar sinnar eins og heitið hafði verið.

Konungar af ætt Davíðs myndu þó ekki vera við völd fyrr en Messías, frelsarinn fyrirheitni, kæmi. Flestir konunganna, sem höfðu setið í Jerúsalem, sýndu og sönnuðu að ófullkomnir menn eru ekki færir um að stjórna svo vel fari. Enginn nema Messías er fullkomlega hæfur stjórnandi. Jehóva sagði því við síðasta konunginn af ætt Davíðs: „Niður með kórónuna . . . Þetta verður ekki fyrr en sá kemur sem hefur það dómsvald sem ég veiti honum.“ — Esekíel 21:​26, 27.

— Byggt á 1. Konungabók, 2. Konungabók, 2. Kroníkubók 10. til 36. kafla og Jeremía 25:​8-11.