Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 106: Leystir úr fangelsi

Saga 106: Leystir úr fangelsi

SÉRÐU engilinn sem heldur dyrum fangelsisins opnum? Mennirnir, sem hann er að hleypa út, eru postular Jesú. Við skulum nú komast að hvað olli því að þeir voru settir í fangelsi.

Engill frelsar lærisveinana

Aðeins skammur tími er liðinn síðan heilögum anda var úthellt yfir lærisveina Jesú. Dag einn síðdegis eru Pétur og Jóhannes að fara inn í musterið í Jerúsalem. Þar við innganginn er maður sem hefur verið lamaður allt sitt líf. Hann er borinn þangað á hverjum degi svo hann geti betlað peninga af þeim sem ganga inn í musterið. Þegar hann sér Pétur og Jóhannes biður hann þá að gefa sér eitthvað. Hvað ætli postularnir geri?

Þeir staldra við og horfa á vesalings manninn. 'Ég á enga peninga,‘ segir Pétur, 'en það sem ég hef gef ég þér. Í nafni Jesú skaltu standa upp og ganga!‘ Pétur tekur þá í hægri hönd mannsins og hann stekkur strax á fætur og byrjar að ganga. Þegar fólkið sér þetta verður það gagntekið af undrun og mikilli gleði vegna þessa dásamlega kraftaverks.

'Guð, sem reisti Jesú upp frá dauðum, gaf okkur mátt til að gera þetta kraftaverk,‘ segir Pétur. Á meðan hann og Jóhannes eru að tala koma nokkrir af trúarleiðtogunum aðvífandi. Þeir eru reiðir af því að Pétur og Jóhannes eru að segja fólkinu að Jesús hafi verið reistur upp frá dauðum. Þeir handsama þá þess vegna og varpa þeim í fangelsi.

Næsta dag halda trúarleiðtogarnir fjölmennan fund. Pétur og Jóhannes eru leiddir inn og einnig maðurinn sem þeir læknuðu. 'Með hvaða krafti gerðuð þið þetta kraftaverk?‘ spyrja trúarleiðtogarnir.

Pétur segir þeim að það hafi verið gert með krafti Guðs sem reisti Jesú upp frá dauðum. Prestarnir vita ekki hvað þeir eiga að taka til bragðs því að þeir geta ekki neitað því að þetta stórkostlega kraftaverk hafi raunverulega gerst. Þeir vara postulana við að tala framar um Jesú og láta þá síðan lausa.

Dagarnir líða og postularnir halda áfram að prédika um Jesú og lækna sjúka. Fregnir af þessum kraftaverkum berast út. Fólk kemur jafnvel í hópum frá bæjunum í kringum Jerúsalem með sjúka til postulanna til að þeir lækni þá. Trúarleiðtogarnir verða öfundsjúkir og handsama postulana og setja þá í fangelsi. En þar sitja þeir ekki lengi.

Um nóttina opnar engill Guðs dyr fangelsisins eins og þú sérð hér. Engillinn segir: 'Farið og gangið fram í musterinu og haldið áfram að tala til fólksins.‘ Morguninn eftir, þegar trúarleiðtogarnir senda menn til fangelsisins til að sækja postulana, eru þeir horfnir. Seinna finna mennirnir þá þar sem þeir eru að kenna í musterinu og leiða þá fyrir öldungaráðið.

'Við bönnuðum ykkur stranglega að tala meira um Jesú,‘ segja trúarleiðtogarnir. 'En þið hafið fyllt Jerúsalem með kenningu ykkar.‘ Þá svara postularnir: 'Framar ber að hlýða Guði en mönnum.‘ Þeir halda því ótrauðir áfram að boða "fagnaðarerindið.“ Er það ekki gott fordæmi fyrir okkur?

Postulasagan, kaflar 3 til 5.