Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 105: Biðin í Jerúsalem

Saga 105: Biðin í Jerúsalem

FÓLKIÐ á myndinni er lærisveinar Jesú. Það hefur hlýtt honum og verið kyrrt í Jerúsalem. Á meðan það bíður allt saman fyllir skyndilega hávær gnýr allt húsið eins og þegar hvín í stormi. Og þá birtast tungur af eldi yfir höfði hvers og eins þessara lærisveina. Geturðu séð á myndinni að það er logi yfir höfði sérhvers þeirra? Hvað táknar þetta?

Heilagur andi kemur yfir lærisveina á fyrstu öld

Þetta er kraftaverk! Jesús er kominn aftur til himna til föður síns og núna úthellir hann heilögum anda Guðs yfir fylgjendur sína. Veistu hvað andinn fær þá til að gera? Þeir byrja allir að tala mismunandi tungumál sem þeir höfðu aldrei kunnað áður.

Margir í Jerúsalem heyra hljóðið sem hljómar eins og mikið hvassviðri og þeir koma til að sjá hvað er að gerast. Sumir þeirra eru útlendingar sem hafa komið þangað til hvítasunnuhátíðar Ísraelsmanna. En hvað þessir gestir verða undrandi! Þeir heyra lærisveinana tala á þeirra eigin tungumáli um dásemdarverk Guðs.

'Þetta fólk kemur allt frá Galíleu,‘ segja aðkomumennirnir. 'Hvernig getur það þá talað öll þessi mismunandi tungumál sem töluð eru í heimalöndum okkar?‘

Pétur gengur nú fram til að útskýra málið. Hann hefur upp rödd sína og segir fólkinu hvernig Jesús var líflátinn og að Jehóva hafi reist hann upp frá dauðum. 'Nú er Jesús á himni við hægri hönd Guðs,‘ segir Pétur. 'Og hann hefur úthellt heilögum anda eins og hann hefur lofað. Þess vegna hafið þið séð og heyrt þessi kraftaverk.‘

Þegar fólkið heyrir hvað Pétur segir verða margir mjög hryggir vegna þess sem gert var við Jesú. 'Hvað eigum við að gera?‘ spyrja þeir. Pétur segir þeim: 'Þið verðið að breyta lífi ykkar og láta skírast.‘ Á þessum sama degi láta um 3000 manns skírast og verða lærisveinar Jesú.

Postulasagan 2:1-47.