Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 92: Jesús reisir upp dána

Saga 92: Jesús reisir upp dána

STÚLKAN, sem þú sérð hér, er 12 ára. Jesús heldur í hönd hennar og móðir hennar og faðir standa þar hjá. Veistu hvers vegna þau eru svona glöð á svipinn? Við skulum nú komast að því.

Jesús reisir upp dóttur Jaírusar

Faðir stúlkunnar er háttsettur maður sem heitir Jaírus. Dag einn veikist dóttir hans og er lögð í rúmið. En henni batnar ekki. Hún veikist meir og meir. Jaírus og kona hans eru mjög áhyggjufull því það lítur út fyrir að litla stúlkan þeirra muni deyja. Hún er einkadóttir þeirra. Jaírus fer því að leita að Jesú. Hann hefur heyrt um kraftaverkin sem Jesús gerir.

Þegar Jaírus finnur Jesú er hann umkringdur miklum mannfjölda. Jaírus kemst þó í gegnum mannþröngina og fellur að fótum Jesú. 'Dóttir mín er fárveik,‘ segir hann. 'Viltu vera svo góður að koma og lækna hana,‘ biður hann. Jesús segist munu koma.

Meðan þeir eru á leiðinni treðst fólkið til þess að komast nær. Allt í einu stansar Jesús. 'Hver snerti mig?‘ spyr hann. Jesús fann að kraftur gekk út frá honum svo að hann veit að einhver snerti hann. En hver? Það er kona sem hefur verið mjög veik í 12 ár. Hún snerti föt Jesú og varð samstundis heilbrigð!

Jaírusi líður betur við þetta því að hann sér hversu auðvelt það er fyrir Jesú að lækna. En þá kemur sendiboði. 'Vertu ekki að ónáða Jesú lengur,‘ segir hann við Jaírus. 'Dóttir þín er dáin.‘ Jesús heyrir þetta og segir við Jaírus: 'Hafðu ekki áhyggjur. Hún mun verða heilbrigð.‘

Þegar þeir loksins koma að húsi Jaírusar er fólkið þar mjög sorgmætt og grætur. En Jesús segir: 'Grátið ekki. Stúlkan er ekki dáin. Hún bara sefur.‘ Fólkið hlær þá og gerir gys að Jesú af því að það veit að hún er dáin.

Jesús tekur þá foreldra stúlkunnar og þrjá af postulum sínum með sér inn í herbergið þar sem stúlkan liggur. Hann tekur í hönd hennar og segir: 'Rístu upp!‘ Og þá lifnar hún við eins og þú sérð hér. Hún stendur upp og gengur um gólf! Þess vegna eru foreldrar hennar svona frá sér numdir af gleði.

Þessi stúlka er ekki fyrsta manneskjan sem Jesús reisti upp frá dauðum. Sú fyrsta, sem Biblían segir frá, er sonur ekkju í borginni Nain. Síðar reisir Jesús einnig Lasarus, bróður Maríu og Mörtu, upp frá dauðum. Þegar Jesús ríkir sem konungur Guðs mun hann gefa miklum fjölda fólks lífið aftur. Finnst þér það ekki gleðilegt?

Lúkas 8:40-56; 7:11-17; Jóhannes 11:17-44.