Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 87: Drengurinn Jesús í musterinu

Saga 87: Drengurinn Jesús í musterinu

SJÁÐU drenginn sem er að tala við þessa fullorðnu menn. Þeir eru kennarar í musteri Guðs í Jerúsalem. Og drengurinn er Jesús. Hann hefur stækkað talsvert. Núna er hann 12 ára gamall.

Kennararnir undrast mjög hvað Jesús veit mikið um Guð og það sem skrifað er um í Biblíunni. En hvers vegna eru ekki Jósef og María þarna líka? Hvar eru þau? Nú skulum við komast að því.

Jesús talar við kennarana

Á hverju ári fer Jósef með fjölskyldu sína til Jerúsalem til sérstakrar hátíðar sem kallast páskar. Það er löng leið frá Nasaret til Jerúsalem. Í þá daga voru hvorki til bílar né járnbrautarlestir. Flestir ganga og það tekur minnst þrjá daga að komast til Jerúsalem.

En núna er fjölskylda Jósefs orðin stærri. Jesús á þess vegna nokkur yngri systkini sem gæta þarf. Jósef og María eru nú þegar lögð af stað með börnin sín heimleiðis til Nasaret. Þau halda að Jesús sé með einhverju af samferðafólkinu. En þegar þau nema staðar um kvöldið til að hvíla sig finna þau Jesú hvergi. Þau leita hans meðal ættingja og vina en hann er ekki hjá þeim! Þá snúa þau við til Jerúsalem til að leita hans þar.

Loksins finna þau Jesú þarna hjá kennurunum. Hann hlustar á þá og spyr spurninga. Og viska Jesú gerir alla forviða. En María segir: 'Barn, hvers vegna gerðir þú okkur þetta? Faðir þinn og ég höfum leitað þín áhyggjufull.‘

'Hvers vegna voruð þið að leita að mér?‘ svarar Jesús. 'Vissuð þið ekki að ég hlyti að vera í húsi föður míns?‘

Já, Jesús elskar að vera þar sem hann getur lært um Guð. Ætti ekki það sama að gilda um okkur? Heima í Nasaret fór Jesús á samkomur í hverri viku til að tilbiðja Guð. Hann lærði mjög margt frá Biblíunni af því að hann hlustaði alltaf vel. Við skulum reyna að líkjast Jesú.

Lúkas 2:41-52; Matteus 13:53-56.