Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 84: Engill heimsækir Maríu

Saga 84: Engill heimsækir Maríu

ÞESSI fallega kona er María. Hún er ísraelsk og býr í borginni Nasaret. Guð veit að hún er mjög væn og guðhrædd kona. Þess vegna hefur hann sent engil sinn, Gabríel, með boðskap til hennar. Veistu hvað Gabríel á að segja Maríu? Við skulum nú heyra það.

'Sæl vert þú sem nýtur mikillar velþóknunar,‘ segir Gabríel við hana. 'Jehóva er með þér.‘ María hefur aldrei séð hann áður. Hún verður hrædd því að hún veit ekki hvað hann á við. En Gabríel sefar strax ótta hennar.

María

'Vertu ekki hrædd, María,‘ segir hann. 'Jehóva hefur miklar mætur á þér. Þess vegna ætlar hann að veita þér dásamlegt hlutverk. Þú munt brátt eignast son, og þú skalt kalla hann Jesú.‘

Gabríel útskýrir málið frekar: 'Drengurinn mun verða mikill og verða kallaður sonur hins hæsta Guðs. Jehóva mun gera hann að konungi eins og Davíð var. En Jesús mun vera konungur að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða!‘

'Hvernig getur þetta gerst?‘ spyr María. 'Ég er ekki einu sinni gift. Ég hef ekki verið með karlmanni svo hvernig get ég eignast barn?‘

'Kraftur Guðs mun koma yfir þig,‘ svarar Gabríel. 'Þess vegna mun barnið vera kallað sonur Guðs.‘ Síðan segir hann við Maríu: 'Þú manst eftir Elísabetu frænku þinni. Fólk sagði að hún væri of gömul til að eignast börn. En núna mun hún bráðum eignast son. Þú sérð því að Guði er ekkert ómögulegt.‘

María svarar strax: 'Ég er ambátt Jehóva! Verði mér eins og þú hefur sagt.‘ Þá fer engillinn frá henni.

María flýtir sér að heimsækja Elísabetu. Þegar Elísabet heyrir rödd Maríu tekur barnið í kviði hennar viðbragð af gleði. Elísabet fyllist anda Guðs og segir við Maríu: 'Þú nýtur sérstakrar blessunar meðal kvenna.‘ María dvelur hjá Elísabetu í um það bil þrjá mánuði og fer síðan heim aftur til Nasaret.

María er um það bil að giftast manni sem heitir Jósef. En þegar Jósef fréttir að María eigi von á barni finnst honum að hann ætti ekki að kvænast henni. Þá segir engill Guðs við hann: 'Vertu óhræddur að taka Maríu þér fyrir konu. Það er Guð sem hefur gefið henni son.‘ María og Jósef giftast og þau bíða nú eftir að Jesús fæðist.

Lúkas 1:26-56; Matteus 1:18-25.