Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 83: Múrar Jerúsalemborgar

Saga 83: Múrar Jerúsalemborgar
Verkamenn endurbyggja múra Jerúsalem

LÍTTU á alla vinnuna sem fram fer hér. Ísraelsmenn eru önnum kafnir við að byggja múra Jerúsalemborgar. Þegar Nebúkadnesar konungur eyddi Jerúsalem 152 árum áður braut hann niður múrana og brenndi borgarhliðin. Ísraelsmenn byggðu ekki múrana upp aftur strax eftir heimkomuna frá Babýlon.

Hvernig ætli borgarbúum hafi liðið að búa hér öll þessi ár án múra kringum borgina sína? Þeim hefur ekki fundist þeir vera óhultir. Óvinirnir gátu auðveldlega komist inn í borgina og ráðist á þá. En loksins er þessi maður, Nehemía, kominn til að hjálpa þeim að endurbyggja múrana. Veistu hver Nehemía er?

Nehemía er Ísraelsmaður frá borginni Súsa þar sem Mordekai og Ester búa. Nehemía starfaði í höll konungs og hefur ef til vill verið góður vinur Mordekai og Esterar drottningar. En Biblían segir ekki að Nehemía hafi unnið fyrir Ahasverus konung, eiginmann Esterar. Hann vann fyrir næsta konung, Artaxerxes.

Þú manst að Artaxerxes er góði konungurinn sem gaf Esra mikla peninga til að gera við musteri Jehóva í Jerúsalem. En Esra endurbyggði ekki niðurbrotna múra borgarinnar. Sjáum nú hvernig það atvikaðist að Nehemía vann það verk.

Liðin eru 13 ár síðan Artaxerxes gaf Esra peningana til að gera við musterið. Nehemía er núna yfirbyrlari Artaxerxesar konungs. Starf hans felst í því að bera konunginum vín og gæta þess að honum sé ekki byrlað eitur. Þetta er mikið trúnaðarstarf.

Dag einn kemur Hananí, bróðir Nehemía, og nokkrir aðrir menn frá Ísraelslandi í heimsókn til Nehemía. Þeir segja honum frá erfiðleikum Ísraelsmanna og frá múrum Jerúsalem sem ekki hafa enn verið endurreistir. Nehemía verður mjög hryggur og hann biður til Jehóva.

Dag nokkurn tekur konungurinn eftir að Nehemía er sorgmæddur og hann spyr: 'Hví ert þú svona dapur í bragði?‘ Nehemía segir honum að það sé vegna þess að Jerúsalem sé í mjög slæmu ásigkomulagi og múrarnir niðurbrotnir. 'Hverjar eru þá óskir þínar?‘ spyr konungurinn.

Nehemía hefur umsjón með byggingarvinnunni

'Leyfðu mér að fara til Jerúsalem,‘ segir Nehemía, 'svo að ég geti endurreist múrana.‘ Artaxerxes konungur er mjög vingjarnlegur. Hann gefur Nehemía fararleyfi og hjálpar honum að útvega timbur til að nota við endurbygginguna. Fljótlega eftir að Nehemía kemur til Jerúsalem segir hann fólkinu frá áformum sínum. Því líst vel á hugmyndina og það segir: 'Við skulum byrja að byggja.‘

Þegar óvinir Ísraelsmanna sjá múrinn rísa segja þeir: 'Við skulum fara þangað og drepa þá og stöðva byggingarvinnuna.‘ En Nehemía kemst að því og lætur verkamennina fá sverð og spjót. Hann segir: 'Óttist ekki óvini okkar. Berjist fyrir bræður ykkar, börn ykkar, konur og heimili.‘

Fólkið sýnir mikið hugrekki. Það er tilbúið að berjast dag og nótt og heldur áfram að byggja. Á aðeins 52 dögum eru múrarnir fullgerðir. Nú getur fólkið fundið til öryggis inni í borginni. Nehemía og Esra kenna fólkinu lög Guðs og það er hamingjusamt.

En þó er ekki allt eins og það var áður en Ísraelsmenn voru herleiddir til Babýlonar. Persakonungur ríkir yfir þeim og þeir verða að þjóna honum. En Jehóva hefur lofað að senda nýjan konung sem færa mun fólkinu frið. Hver er sá konungur? Hvernig mun hann koma á friði á jörðinni? Um 450 ár líða áður en meira fréttist um það. Þá á sér stað mikilvægasta barnsfæðing sem um getur. En það er önnur saga.

Nehemía, kaflar 1 til 6.