Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 80: Fólk Guðs yfirgefur Babýlon

Saga 80: Fólk Guðs yfirgefur Babýlon

NÆSTUM tvö ár eru liðin síðan Medar og Persar hertóku Babýlon. Sjáðu hvað er að gerast núna! Já, Ísraelsmenn eru að yfirgefa Babýlon. Hvernig fengu þeir frelsi? Hver leyfði þeim að fara?

Það gerði Kýrus Persakonungur. Löngu áður en Kýrus fæddist lét Jehóva spámann sinn, Jesaja, skrifa um hann: 'Þú munt gera það sem ég vil að þú gerir. Hliðin skulu standa opin svo að þú getir hertekið borgina.‘ Og það var Kýrus sem stjórnaði hertöku Babýlonar. Medar og Persar komust að næturlagi inn í borgina gegnum hlið sem skilin höfðu verið eftir opin.

En Jesaja spámaður hafði einnig sagt að Kýrus myndi fyrirskipa endurbyggingu Jerúsalem og musteris hennar. Gerði Kýrus það? Já. Heyrðu hvað hann segir við Ísraelsmenn: 'Farið nú til Jerúsalem og endurbyggið musteri Jehóva, Guðs ykkar.‘ Og það er þetta sem Ísraelsmenn eru nú á leiðinni til að gera.

Ísraelsmenn yfirgefa Babýlon

En ekki geta allir Ísraelsmenn í Babýlon ferðast til Jerúsalem. Þetta er mjög löng leið, um það bil 800 kílómetrar, og margir eru of gamlir eða sjúkir fyrir svona langt ferðalag. Sumir hafa einnig aðrar ástæður fyrir því að fara ekki. En Kýrus segir þeim sem ekki fara: 'Gefið fólkinu, sem snýr heim til að endurbyggja Jerúsalem og musterið þar, silfur og gull og aðrar gjafir.‘

Þessir Ísraelsmenn, sem eru að fara til Jerúsalem, fá því margar gjafir. Kýrus gefur þeim kerin og bikarana sem Nebúkadnesar konungur hafði tekið úr musteri Jehóva þegar hann lagði Jerúsalem í eyði. Fólkið fær marga muni til að bera með sér á heimleiðinni.

Eftir fjögurra mánaða ferðalag koma Ísraelsmenn til Jerúsalem. Þá eru liðin nákvæmlega 70 ár síðan borgin var lögð í eyði og landið skilið eftir algerlega mannlaust. En þótt Ísraelsmenn séu nú aftur í sínu eigin landi eiga þeir erfiða tíma fyrir höndum eins og við munum lesa um næst.

Jesaja 44:28; 45:1-4; Esra 1:1-11.