Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 77: Þeir vildu ekki falla fram

Saga 77: Þeir vildu ekki falla fram

MANSTU eftir að hafa heyrt um þessa þrjá ungu menn? Já, þetta eru vinir Daníels sem neituðu að borða mat konungsins. Babýloníumenn kölluðu þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó. En líttu á þá núna. Hvers vegna beygja þeir sig ekki niður fyrir framan þetta risastóra líkneski eins og allir aðrir? Nú skulum við komast að því.

Manstu eftir lögunum sem Jehóva skrifaði sjálfur, boðorðunum tíu? Það fyrsta hljóðar þannig: 'Þú mátt ekki tilbiðja neina aðra guði en mig.‘ Ungu mennirnir hlýða þessum lögum jafnvel þótt það sé ekki auðvelt.

Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, hefur kallað saman marga háttsetta menn til að heiðra þetta líkneski sem hann hefur látið reisa. Hann er nýbúinn að segja við þá alla: 'Þegar þið heyrið hljóminn í lúðrunum, hörpunum og hinum hljóðfærunum skuluð þið falla fram og tilbiðja þetta gulllíkneski. Hverjum þeim er ekki fellur fram og tilbiður mun samstundis verða kastað í brennandi heitan eldsofn.‘

Nebúkadnesar verður mjög reiður þegar hann fréttir að Sadrak, Mesak og Abed-Negó hafi ekki fallið fram. Hann lætur færa þá til sín og gefur þeim annað tækifæri til að falla fram. En ungu mennirnir treysta á Jehóva. 'Guð okkar, sem við þjónum, er fær um að bjarga okkur,‘ segja þeir við Nebúkadnesar. 'En jafnvel þótt hann bjargi okkur ekki munum við ekki falla fram fyrir gulllíkneski þínu.‘

Sadrak, Mesak og Abed-Negó

Svar þeirra gerir Nebúkadnesar enn reiðari. Þar nálægt er eldsofn og hann skipar: 'Kyndið ofninn sjöfalt heitara en venjulega!‘ Síðan lætur hann sterkustu hermennina sína binda Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í eldsofninn. Ofninn er svo heitur að logarnir drepa sterku mennina. En hvað um ungu mennina þrjá sem þeir köstuðu þangað inn?

Konungurinn horfir inn í eldsofninn og verður mjög hræddur. 'Bundum við ekki þrjá menn og köstuðum inn í brennheitan eldsofninn?‘ spyr hann.

'Jú, það gerðum við,‘ svara þjónar hans.

'En ég sé fjóra menn ganga um inni í eldinum,‘ segir hann. 'Þeir eru ekki bundnir og eldurinn brennir þá ekki. Og sá fjórði líkist syni guðanna.‘ Konungurinn gengur nær dyrum eldsofnsins og hrópar: 'Sadrak, Mesak og Abed-Negó! Komið út, þið þjónar hins hæsta Guðs!‘

Þegar þeir koma út geta allir séð að þeim hefur ekki orðið meint af. Þá segir konungurinn: 'Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós! Hann sendi engil sinn og bjargaði þeim af því að þeir vildu ekki falla fram og tilbiðja neinn annan guð en sinn eigin.‘

Er trúfesti þeirra gagnvart Jehóva ekki gott fordæmi fyrir okkur?

2. Mósebók 20:3; Daníel 3:1-30.