Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 76: Eyðing Jerúsalemborgar

Saga 76: Eyðing Jerúsalemborgar

NÚNA eru liðin meira en 10 ár síðan Nebúkadnesar flutti alla best menntuðu Ísraelsmennina til Babýlonar. Og sjáðu nú hvað er að gerast! Það er verið að brenna Jerúsalem. Og þá Ísraelsmenn, sem ekki hafa verið drepnir, er nú verið að herleiða til Babýlonar.

Mundu að spámenn Jehóva vöruðu við að þetta myndi gerast ef þjóðin sneri sér ekki frá illsku sinni. En Ísraelsmenn hlustuðu ekki á spámennina. Þeir héldu hiklaust áfram að tilbiðja falsguði í stað Jehóva og verðskulda þess vegna refsingu. Við vitum það vegna þess að Esekíel, spámaður Guðs, segir okkur frá illum verkum Ísraelsmanna.

Veistu hver Esekíel er? Hann er einn ungu mannanna sem Nebúkadnesar flutti til Babýlonar meira en 10 árum áður en Jerúsalem var lögð í eyði. Daníel og vinir hans þrír, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, voru einnig fluttir til Babýlonar á sama tíma.

Á meðan Esekíel er í Babýlon sýnir Jehóva honum það ljóta sem er að gerast heima í musterinu í Jerúsalem. Jehóva gerir það með kraftaverki. Esekíel er í raun og veru enn þá í Babýlon en Jehóva lætur hann sjá allt sem fram fer í musterinu. Og það sem Esekíel sér er hræðilegt!

'Sjáðu þennan viðbjóð sem fólkið hefur í frammi hér við musterið,‘ segir Jehóva við Esekíel. 'Líttu á veggina þakta myndum af snákum og öðrum dýrum. Og sjáðu, Ísraelsmenn tilbiðja þær!‘ Esekíel sér þetta og hann skrifar það niður.

Farið með fanga frá Jerúsalem

'Sérðu hvað leiðtogar Ísraelsmanna gera í leynum?‘ spyr Jehóva Esekíel. Já, hann sér það líka. Þarna eru 70 menn og þeir tilbiðja allir falsguði. Þeir segja: 'Jehóva sér okkur ekki. Hann hefur yfirgefið landið.‘

Því næst sýnir Jehóva Esekíel nokkrar konur við norðurhlið musterisins. Þar sitja þær og tilbiðja falsguðinn Tammús. Og sjáðu mennina við innganginn að musteri Jehóva! Þeir eru um það bil 25. Þeir beygja sig niður móti austri og tilbiðja sólina!

'Þessir menn bera enga virðingu fyrir mér,‘ segir Jehóva. Þeir gera ekki aðeins það sem rangt er heldur gera þeir það í musteri mínu!‘ Þess vegna lofar Jehóva: 'Þeir skulu finna fyrir afli reiði minnar. Og ég mun ekki vorkenna þeim þegar þeim verður eytt.‘

Aðeins þrem árum eftir að Jehóva sýnir Esekíel allt þetta gera Ísraelsmenn uppreisn gegn Nebúkadnesar konungi. Hann fer því í herför gegn þeim. Eftir eitt og hálft ár brjótast Babýloníumenn í gegnum múra Jerúsalem og brenna borgina til grunna. Flestir íbúanna eru drepnir eða herleiddir til Babýlonar.

Hvers vegna hefur Jehóva látið þessa hræðilegu eyðingu koma yfir Ísraelsmenn? Vegna þess að þeir hafa ekki hlustað á Jehóva og ekki hlýtt lögum hans. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að gera alltaf það sem Guð segir.

Í byrjun er nokkrum mönnum leyft að dvelja áfram í Ísrael. Nebúkadnesar konungur setur Gyðing, sem heitir Gedalja, yfir þessa menn. En nokkrir Ísraelsmenn myrða Gedalja. Núna óttast fólkið að Baýloníumenn muni koma og útrýma því öllu vegna þessa illvirkis. Þess vegna flýr það til Egyptalands og neyðir Jeremía til að koma með.

Þá er alls ekkert fólk eftir í Ísrael. Í 70 ár býr enginn í landinu. Það liggur algerlega í eyði. En Jehóva lofar að hann muni flytja þjóð sína aftur til landsins eftir 70 ár. En hvernig skyldi fólki Guðs, sem flutt hefur verið til Babýlonar, vegna þangað til? Það skaltu fá að sjá.

2. Konungabók 25:1-26; Jeremía 29:10; Esekíel 1:1-3; 8:1-18.