Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 56: Sál - fyrsti konungur Ísraels

Saga 56: Sál - fyrsti konungur Ísraels
Samúel smyr Sál til konungs

SJÁÐU Samúel hella olíu á höfuð mannsins. Áður fyrr var þetta gert til að sýna hver hefði verið valinn sem konungur. Jehóva segir Samúel að hella olíunni á höfuð Sáls. Það er sérstök olía sem ilmar vel og er kölluð smurningarolía.

Sál fannst hann ekki vera nógu góður til að vera konungur. 'Ég tilheyri ættkvísl Benjamíns, þeirri minnstu í Ísrael,‘ segir hann við Samúel. 'Hvers vegna segir þú að ég muni verða konungur?‘ Jehóva geðjast vel að Sál vegna þess að hann þykist ekki vera stór og mikilvægur. Þess vegna velur Jehóva hann sem konung.

Sál er þó hvorki lítill né fátækur. Hann er af auðugri fjölskyldu og er mjög hár og myndarlegur maður. Hann er höfðinu hærri en nokkur annar Ísraelsmaður! Hann hleypur einnig mjög hratt og er sterkur. Fólkið er ánægt með að Jehóva skuli hafa valið Sál sem konung. Það hrópar og kallar: 'Lengi lifi konungurinn!‘

Óvinir Ísraels eru jafnsterkir og áður. Þeir valda Ísraelsmönnum enn þá miklum erfiðleikum. Skömmu eftir að Sál er gerður að konungi koma Ammónítar til að berjast gegn þeim. En Sál safnar saman miklum her og vinnur sigur á Ammónítum. Þá verður fólkið mjög ánægt með að hafa Sál sem konung.

Er árin líða leiðir Sál Ísraelsmenn til sigurs í mörgum orrustum við óvini þeirra. Sál á hugrakkan son sem heitir Jónatan. Jónatan hjálpar Ísraelsmönnum að vinna margar orrustur. Filistar eru enn verstu óvinir Ísraelsmanna. Dag einn koma Filistar þúsundum saman til að berjast við Ísraelsmenn.

Samúel segir Sál að bíða þar til hann komi og færi Jehóva fórn eða gjöf. En Samúel er seinn að koma. Sál er hræddur um að Filistar hefji bardagann svo að hann ber bara sjálfur fram fórnina. Þegar Samúel loksins kemur segir hann Sál að hann hafi óhlýðnast. 'Jehóva mun velja annan mann til að vera konungur yfir Ísrael,‘ segir Samúel.

Seinna óhlýðnast Sál aftur. Samúel segir þá við hann: 'Það er betra að hlýða Jehóva en að færa honum bestu sauðina að fórn. Fyrst þú hefur ekki hlýtt Jehóva mun Jehóva ekki hafa þig áfram sem konung Ísraels.‘

Af þessu getum við lært góða lexíu. Þetta sýnir okkur hve mikilvægt það er að hlýðnast Jehóva alltaf. Það sýnir líka að góður maður, eins og Sál var, getur breyst og orðið slæmur. Viljum við nokkurn tíma láta slíkt henda okkur?

1. Samúelsbók, kaflar 9 til 11; 13:5-14; 14:47-52; 15:1-35; 2. Samúelsbók 1:23.