Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 44: Rahab felur njósnarana

Saga 44: Rahab felur njósnarana

ÞESSIR menn eru í vanda staddir. Þeir verða að komast burt, annars verða þeir drepnir. Þeir eru njósnarar Ísraelsmanna og það er konan Rahab sem hjálpar þeim. Rahab býr hér í húsi á borgarmúr Jeríkó. Nú skulum við komast að því hvers vegna þessir menn eru í vanda staddir.

Ísraelsmenn eru reiðubúnir að fara yfir ána Jórdan inn í Kanaanland. En fyrst sendir Jósúa út tvo njósnara. Hann segir við þá: 'Farið og kannið landið og borgina Jeríkó.‘

Rahab og ísraelsku njósnararnir tveir

Þegar njósnararnir koma inn í Jeríkó fara þeir í hús Rahab. En einhver segir við konunginn í Jeríkó: 'Tveir Ísraelsmenn komu hingað í kvöld til þess að njósna um landið.‘ Konungurinn sendir strax menn til Rahab og þeir skipa henni: 'Komdu út með mennina sem þú felur inni í húsinu þínu!‘ En Rahab hefur falið njósnarana uppi á þaki. Hún segir: 'Það komu vissulega einhverjir menn en ég veit ekki hvaðan þeir voru. Þeir fóru aftur rétt fyrir myrkur, áður en borgarhliðinu var lokað. Ef þið flýtið ykkur getið þið náð þeim!‘ Og mennirnir hraða sér af stað til að elta þá uppi.

Um leið og þeir fara flýtir Rahab sér upp á þakið. 'Ég veit að Jehóva ætlar að gefa ykkur þetta land,‘ segir hún við njósnarana. 'Við höfum heyrt að hann þurrkaði upp Rauðahafið þegar þið fóruð út úr Egyptalandi, og hvernig þið drápuð konungana Síhon og Óg. Ég hef sýnt ykkur góðvild og viljið þið þess vegna lofa mér að vera góðir við mig. Bjargið föður mínum og móður, bræðrum og systrum.‘

Njósnararnir lofa því en Rahab verður að gera dálítið. 'Þú skalt taka þetta rauða reipi og binda það í gluggann þinn,‘ segja njósnararnir, 'og fá alla ættingja þína inn í húsið til þín. Þegar við síðan komum til að taka Jeríkó munum við sjá reipið í glugganum þínum og ekki deyða nokkurn mann í húsi þínu.‘ Þegar njósnararnir koma aftur til Jósúa segja þeir honum frá öllu sem gerst hefur.

Jósúabók 2:1-24; Hebreabréfið 11:31.