Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 40: Móse slær klettinn

Saga 40: Móse slær klettinn

ÁRIN líða — 10 ár, 20 ár, 30 ár, 39 ár! Og enn þá eru Ísraelsmenn í eyðimörkinni. En öll þessi ár annast Jehóva fólk sitt. Hann gefur því manna að borða. Hann leiðir það á daginn með skýstólpa en á nóttunni með eldsúlu. Í öll þessi ár slitna föt fólksins ekki og það verður ekki sárfætt.

Núna er fyrsti mánuður 40. ársins frá því að þeir yfirgáfu Egyptaland. Ísraelsmenn slá aftur búðum sínum í Kades. Þeir voru á þessum stað þegar njósnararnir 12 voru sendir til að njósna um Kanaanland næstum því 40 árum áður. Í Kades deyr Mirjam, systir Móse. Og eins og fyrr þá stofna menn til vandræða hér.

Fólkið finnur hvergi vatn. Það kvartar þess vegna við Móse: 'Betra væri að við hefðum dáið. Hvers vegna leiddir þú okkur út úr Egyptalandi á þennan hræðilega stað þar sem ekkert vex? Hér er ekkert korn, engar fíkjur, engin vínber, engin granatepli. Hér er ekki einu sinni vatn að drekka.‘

Móse slær klettinn

Þegar Móse og Aron ganga til samfundatjaldsins til að biðjast fyrir segir Jehóva við Móse: 'Kallaðu fólkið saman. Síðan skaltu í augsýn allra tala við klettinn þarna. Út úr honum mun koma nógu mikið vatn handa öllu fólkinu og dýrunum þeirra.‘

Móse safnar þá fólkinu saman og segir: 'Takið nú eftir, þið sem treystið ekki á Guð! Þurfum við Aron að láta koma vatn út úr þessum kletti handa ykkur?‘ Þá slær Móse tvisvar í klettinn með stafnum sínum og mikill vatnsflaumur tekur að streyma út úr klettinum. Það er nægilegt drykkjarvatn handa öllu fólkinu og dýrunum.

En Jehóva er reiður við Móse og Aron. Veistu hvers vegna? Það er vegna þess að Móse og Aron sögðu að þeir myndu fá vatn til að streyma út úr klettinum. En í raun og veru gerði Jehóva það. Og vegna þess að Móse og Aron sögðu ekki sannleikann um þetta segist Jehóva ætla að refsa þeim. 'Þið munuð ekki leiða fólk mitt inn í Kanaan,‘ segir hann.

Brátt leggja Ísraelsmenn upp frá Kades. Eftir skamman tíma koma þeir til fjallsins Hór. Uppi á þessu fjalli deyr Aron. Hann er 123 ára þegar hann deyr. Ísraelsmenn eru hryggir og í 30 daga syrgja þeir allir Aron. Sonur hans, Eleasar, tekur nú við sem æðsti prestur Ísraelsþjóðarinnar.

4. Mósebók 20:1-13, 22-29; 5. Mósebók 29:5.