Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 39: Stafur Arons blómgast

Saga 39: Stafur Arons blómgast

LÍTTU á blómin og fullþroskaðar möndlurnar sem vaxa á stafnum eða prikinu. Þetta er stafur Arons. Blómin og fullþroskuðu ávextirnir uxu út úr staf Arons á aðeins einni nóttu! Við skulum athuga hvers vegna.

Móse réttir Aroni stafinn

Ísraelsmenn eru nú búnir að reika um eyðimörkina um tíma. Sumum þeirra finnst að Móse eigi ekki að vera leiðtogi þeirra né Aron æðsti prestur. Kóra er einn þeirra sem hugsa þannig og það sama gera Datan, Abíram og 250 aðrir af höfðingjum fólksins. Þeir koma allir til Móse og segja: 'Hvers vegna upphefur þú sjálfan þig yfir okkur hina?‘

Móse segir við Kóra og fylgjendur hans: 'Í fyrramálið skuluð þið taka eldpönnur og láta reykelsi á þær. Komið síðan að samfundatjaldi Jehóva. Við skulum þá sjá hvern Jehóva velur.‘

Næsta dag koma Kóra og 250 fylgjendur hans til samfunda- tjaldsins. Margir aðrir koma einnig til að styðja þessa menn. Jehóva er mjög reiður. 'Víkið burt frá tjöldum þessara vondu manna,‘ segir Móse. 'Snertið ekkert sem tilheyrir þeim.‘ Fólkið hlýðir og færir sig burt frá tjöldum þeirra Kóra, Datans og Abírams.

Síðan segir Móse: 'Af þessu munuð þið sjá hvern Jehóva hefur valið. Jörðin mun opnast og gleypa þessa vondu menn.‘

Móse hefur ekki fyrr sleppt orðinu en jörðin opnast. Tjald Kóra og allt sem hann á og Datan og Abíram og þeir sem með þeim eru hrapa niður og jörðin lokast yfir þeim. Þegar Ísraelsmenn heyra angistaróp þeirra sem hrapa ofan í jörðina hrópa þeir: 'Hlaupum! Jörðin gæti gleypt okkur líka!‘

Kóra og 250 fylgjendur hans eru enn þá við samfundatjaldið. Jehóva lætur þá eld falla af himni og þeir brenna allir upp. Síðan segir Jehóva að Eleasar, sonur Arons, skuli taka eldpönnur dánu mannanna og búa til úr þeim þunna málmplötu til að klæða altarið með. Þessi altarisklæðning á að vera Ísraelsmönnum viðvörun um að enginn annar en Aron og synir hans megi þjóna sem prestar fyrir Jehóva.

En Jehóva vill gera öllum augljóst að það séu Aron og synir hans sem hann hefur valið sem presta. Hann segir við Móse: 'Láttu höfuðsmann hverrar ættkvíslar Ísraels koma með sinn staf. Láttu Aron koma með sinn staf fyrir ættkvísl Leví. Settu síðan alla stafina inn í samfundatjaldið fyrir framan sáttmálsörkina. Á staf þess manns, sem ég hef valið til að vera prestur, skulu vaxa blóm.‘

Næsta morgun fer Móse að gá og sjáðu! Það eru blóm og fullþroskaðar möndlur á staf Arons! Skilur þú núna hvers vegna Jehóva lét staf Arons blómgast?

4. Mósebók 16:1-49; 17:1-11; 26:10.