Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 37: Tilbeiðslutjald

Saga 37: Tilbeiðslutjald

VEISTU hvaða bygging þetta er? Þetta er sérstakt tjald til að tilbiðja Jehóva í. Það er einnig kallað samfundatjaldið. Ísraelsmenn luku gerð þess einu ári eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. Veistu hver átti hugmyndina að gerð þess?

Samfundatjaldið

Jehóva átti hugmyndina. Á meðan Móse var uppi á Sínaífjalli sagði Jehóva honum hvernig ætti að búa það til. Það átti að vera auðvelt að taka það í sundur þannig að hægt væri að bera það í pörtum á annan stað og setja það saman þar aftur. Þegar Ísraelsmenn fluttust stað úr stað í eyðimörkinni báru þeir tjaldið með sér.

Líttu inn í litla herbergið í enda tjaldsins. Þar getur þú séð kassa eða kistu. Hún er kölluð sáttmálsörkin. Ofan á henni eru tveir englar eða kerúbar úr gulli, sinn á hvorum enda. Guð skrifaði aftur boðorðin tíu á tvær steintöflur vegna þess að Móse hafði brotið þær tvær fyrstu. Þessar steintöflur voru nú geymdar inni í sáttmálsörkinni. Í henni var einnig geymd krukka með manna. Manstu hvað manna er?

Jehóva velur Aron, bróður Móse, til að vera æðsti prestur. Hann leiðir fólkið í tilbeiðslunni á Jehóva. Synir hans eru einnig prestar.

Líttu núna á stærra herbergið í tjaldinu. Það er tvöfalt stærra en litla herbergið. Sérðu kassann eða litla skápinn sem svolítill reykur stígur upp frá? Þetta er altarið þar sem prestarnir brenna ilmandi efni sem kallast reykelsi. Þá er þar ljósastika með sjö lömpum. Þriðji hluturinn í herberginu er borð og á því liggja 12 brauð.

Úti fyrir framan samfundatjaldið stendur stór laug eða ker full af vatni. Prestarnir þvo sér úr henni. Þar er einnig stóra altarið. Á því eru dauðu dýrin brennd sem fórn til Jehóva. Samfundatjaldið stendur alveg í miðjum búðum Ísraelsmanna sem búa í tjöldum sínum allt í kringum það.

2. Mósebók 25:8-40; 26:1-37; 27:1-8; 28:1; 30:1-10, 17-21; 34:1, 2; Hebreabréfið 9:1-5.