Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 35: Jehóva gefur lögmál sitt

Saga 35: Jehóva gefur lögmál sitt

UM TVEIM mánuðum eftir að Ísraelsmenn yfirgefa Egyptaland koma þeir til Sínaífjalls sem einnig er kallað Hóreb. Það var á þessum stað sem Jehóva talaði við Móse frá brennandi þyrnirunnanum. Þar setur fólkið upp tjaldbúðir sínar og dvelur um tíma.

Móse gengur upp á fjallið en fólkið bíður fyrir neðan. Uppi á fjallstindinum segir Jehóva við Móse að hann vilji að Ísraelsmenn hlýði sér og að þeir verði sérstök þjóð, þjóð Guðs. Þegar Móse kemur niður af fjallinu segir hann Ísraelsmönnum hvað Jehóva hefur sagt. Og fólkið segist munu hlýða Jehóva vegna þess að það vilji vera þjóð hans.

Nú gerir Jehóva nokkuð mjög óvenjulegt. Hann lætur reyk koma upp úr fjallstindinum og háværar þrumur heyrast. Hann talar einnig til fólksins: 'Ég er Jehóva, Guð ykkar, sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi.‘ Síðan gefur hann því boðorð: 'Þið megið ekki tilbiðja neina aðra guði en mig.‘

Tvær steintöflur

Guð gefur Ísraelsmönnum níu önnur boðorð eða lög. Fólkið verður óttaslegið og segir við Móse: 'Tala þú til okkar af því að við erum hrædd um að deyja ef Guð talar til okkar.‘

Síðar segir Jehóva við Móse: 'Komdu til mín upp á fjallið. Ég ætla að gefa þér tvær steintöflur sem ég hef skrifað á þau lög sem ég vil að fólkið haldi.‘ Móse fer því aftur upp á fjallið. Þar dvelur hann í 40 daga og nætur.

Guð setur fólki sínu mjög mörg lög. Móse skrifar þau niður. Guð gefur Móse einnig tvær steintöflur. Á þær hefur hann sjálfur ritað þau 10 lög sem hann hafði talað til fólksins. Þau eru kölluð boðorðin tíu.

Móse á Sínaífjalli

Boðorðin tíu eru mikilvæg lög. En þau mörgu lög önnur, sem Guð gefur Ísraelsmönnum, eru einnig mikilvæg. Eitt þeirra hljóðar svo: 'Þú skalt elska Jehóva, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, öllum huga þínum, allri sálu þinni og öllum mætti þínum.‘ Annað hljóðar svona: 'Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Sonur Guðs, Jesús Kristur, sagði að þessi lög væru tvö mikilvægustu boðorðin sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni. Seinna munum við læra margt um son Guðs og kenningar hans.

2. Mósebók 19:1-25; 20:1-21; 24:12-18; 31:18; 5. Mósebók 6:4-6; 3. Mósebók 19:18; Matteus 22:36-40.