Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 24: Jósef reynir bræður sína

Saga 24: Jósef reynir bræður sína

JÓSEF langar að vita hvort eldri bræður hans 10 séu enn þá illgjarnir og vondir. Þess vegna segir hann: 'Þið eruð njósnarar. Þið eruð komnir hingað til að finna út hvar varnir landsins eru veikar.‘

'Nei, það erum við ekki,‘ svara þeir. 'Við erum heiðarlegir menn. Við erum allir bræður. Við vorum 12 en einn er ekki lengur á lífi og sá yngsti er heima hjá föður okkar.‘

Jósef lætur sem hann trúi þeim ekki. Hann setur Símeon í fangelsi og lætur hina bræðurna fá matvæli og fara heim. En hann segir við þá: 'Þegar þið komið hingað aftur verðið þið að hafa yngsta bróður ykkar með.‘

Þegar bræðurnir koma síðan heim til Kanaanlands segja þeir Jakobi föður sínum frá öllu sem gerst hafði. Jakob verður mjög hryggur. 'Jósef er horfinn,‘ segir hann grátandi, 'og núna er Símeon horfinn. Þið fáið ekki að fara með Benjamín, yngsta son minn.‘ En þegar matarforðinn þeirra er að verða búinn neyðist Jakob til að leyfa þeim að taka Benjamín með til Egyptalands, svo að þeir geti fengið meiri mat.

Nú sér Jósef bræður sína koma. Það gleður hann mjög að sjá Benjamín, yngsta bróður sinn. Auðvitað veit enginn þeirra að þessi voldugi maður er Jósef. Nú gerir Jósef dálítið til að reyna þessa 10 hálfbræður sína.

Hann lætur þjóna sína fylla sekki þeirra af korni. En án þess að bræður hans viti lætur hann einnig setja sérstakan silfurbikar sinn í sekk Benjamíns. Þeir leggja af stað heim en eru komnir skamman spöl þegar Jósef sendir þjóna sína á eftir þeim. Þegar þjónarnir ná þeim segja þeir: 'Hvers vegna hafið þið stolið silfurbikar húsbónda okkar?‘

'Við höfum ekki stolið bikar hans,‘ segja allir bræðurnir. 'Þið megið drepa þann okkar sem þið finnið bikarinn hjá.‘

Þjónarnir leita þá í öllum sekkjunum og finna bikarinn í sekk Benjamíns eins og þú sérð á myndinni. Þjónarnir segja: 'Þið hinir megið fara en Benjamín verður að koma með okkur.‘ Hvað gera hálfbræðurnir 10 núna?

Þeir fylgja allir Benjamín til baka í hús Jósefs. Jósef segir við bræður sína: 'Þið megið allir fara heim en Benjamín verður að vera hér eftir sem þræll minn.‘

Nú gengur Júda fram og segir: 'Ef ég fer heim án drengsins mun faðir minn deyja því hann elskar hann mjög heitt. Láttu mig verða hér eftir sem þræl þinn en leyfðu drengnum að fara heim.‘

Jósef sér nú að bræður hans hafa breyst. Þeir eru ekki lengur harðbrjósta og vondir. Við skulum sjá hvað Jósef gerir núna.

1. Mósebók 42:9-38; 43:1-34; 44:1-34.

Bræður Jósefs sakaðir um þjófnað