Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 21: Bræður Jósefs hata hann

Saga 21: Bræður Jósefs hata hann

LÍTTU á hversu hryggur og örvæntingarfullur þessi drengur er. Þetta er Jósef. Bræður hans eru nýbúnir að selja hann þessum mönnum sem eru á leið til Egyptalands. Þar verður Jósef gerður að þræli. Hvers vegna eru hálfbræður hans svona vondir? Það er vegna þess að þeir öfunda Jósef.

Bræður Jósefs selja hann

Jakobi, föður þeirra, þótti afskaplega vænt um Jósef. Hann sýndi honum væntumþykju sína með því að láta gera handa honum fallegan og síðan kyrtil. Þegar 10 eldri bræður hans sáu hve heitt Jakob elskaði Jósef urðu þeir öfundsjúkir og tóku að hata hann. En þeir hötuðu hann einnig af annarri ástæðu.

Jósef hafði dreymt tvo drauma. Í báðum draumunum hafði hann séð bræður sína beygja sig fyrir sér. Þegar hann sagði þeim frá draumunum lögðu þeir enn þá meira hatur á hann.

Dag einn, þegar eldri bræður Jósefs eru að gæta hjarðar föður síns, biður Jakob hann að fara til þeirra og kanna hvernig þeim líði. Þegar bræður Jósefs sjá hann koma segja sumir þeirra: 'Við skulum drepa hann!‘ En Rúben, elsti bróðirinn, segir þá: 'Nei, það megið þið ekki!‘ Í stað þess grípa þeir Jósef og kasta honum niður í gryfju. Síðan setjast þeir og ræða um hvað þeir eigi að gera við hann.

Í sama mund eiga nokkrir Ísmaelítar leið fram hjá. Júda segir við hálfbræður sína: 'Við skulum selja hann Ísmaelítunum.‘ Og það gera þeir. Þeir selja Jósef fyrir 20 silfurpeninga. En hvað það var ódrengilegt og ljótt af þeim!

Hvað ætla bræðurnir núna að segja föður sínum? Þeir drepa geit og dýfa kyrtli Jósefs mörgum sinnum í blóðið úr henni. Síðan taka þeir kyrtilinn heim til föður síns og segja: 'Við fundum þetta. Gáðu hvort þetta er ekki kyrtillinn hans Jósefs.‘

Jakob sér að svo er. 'Villidýr hlýtur að hafa drepið Jósef,‘ segir hann grátandi. Það var einmitt það sem bræður Jósefs vildu láta föður sinn halda. Jakob er harmi sleginn og hann grætur í marga daga. En Jósef er ekki dáinn. Nú skulum við sjá hvernig fer fyrir honum.

1. Mósebók 37:1-35.