Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 17: Ólíkir tvíburar

Saga 17: Ólíkir tvíburar
Esaú

FINNST þér ekki mikill munur á þessum tveim drengjum? Veistu hvað þeir heita? Drengurinn með bogann er Esaú og sá sem gætir lambanna er Jakob.

Esaú og Jakob voru tvíburar, synir Ísaks og Rebekku. Ísak, föður þeirra, þótti mjög vænt um Esaú af því að hann var slyngur veiðimaður og kom oft með villibráð í matinn fyrir fjölskylduna. En Rebekka hélt meira upp á Jakob af því að hann var rólyndur og friðsamur drengur.

Abraham, afi þeirra, var enn á lífi og við getum ímyndað okkur hversu mikið yndi Jakob hefur haft af því að hlusta á hann tala um Jehóva. Þegar Abraham að lokum dó 175 ára gamall voru tvíburarnir 15 ára.

Þegar Esaú var fertugur að aldri kvæntist hann tveim konum frá Kanaanlandi. Ísak og Rebekku þótti það mjög leiðinlegt því að þessar konur tilbáðu ekki Jehóva.

Dag einn gerðist nokkuð sem gerði Esaú mjög reiðan við Jakob bróður sinn. Sú stund kom er Ísak skyldi veita eldri syni sínum blessun. Af því að Esaú var eldri en Jakob bjóst hann við að hljóta þessa blessun. En áður en kom að því hafði Esaú selt Jakobi réttinn til að öðlast blessunina. Auk þess hafði Guð sagt, þegar drengirnir fæddust, að Jakob myndi öðlast blessunina. Og þannig fór það. Ísak veitti Jakobi, syni sínum, þessa blessun.

Jakob

Esaú reiddist Jakobi þegar hann frétti þetta. Hann varð svo reiður að hann sagðist ætla að drepa hann. Þegar Rebekka heyrði það varð hún mjög áhyggjufull. Hún sagði við Ísak, manninn sinn: 'Það yrði alveg hræðilegt ef Jakob tæki líka upp á því að kvænast einni af þessum konum frá Kanaan.‘

Ísak kallaði þá á Jakob og sagði við hann: 'Þú skalt ekki kvænast konu frá Kanaanlandi. Farðu heldur til húss afa þíns, Betúels í Harran. Þú skalt kvænast einni af dætrum Labans, sonar hans.‘

Jakob hlýddi föður sínum og lagði strax af stað í hina löngu ferð til ættingja sinna í Harran.

1. Mósebók 25:5-11, 20-34; 26:34, 35; 27:1-46; 28:1-5; Hebreabréfið 12:16, 17.