Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 16: Ísak eignast góða konu

Saga 16: Ísak eignast góða konu

HVER ætli hún sé þessi kona á myndinni? Hún heitir Rebekka. Og maðurinn, sem hún gengur í áttina til, er Ísak. Hún ætlar að verða eiginkona hans. Hvernig bar það til?

Þannig var að Abraham, faðir Ísaks, vildi að sonur hans eignaðist góða konu. Hann vildi ekki að Ísak kvæntist einni af konunum í Kanaanlandi af því að fólkið þar tilbað falsguði. Þess vegna kallaði Abraham á þjón sinn og mælti: 'Ég vil að þú farir til ættingja minna í Harran og finnir konu handa Ísak syni mínum.‘

Þjónn Abrahams tók strax tíu úlfalda og lagði af stað. Þetta var langt ferðalag. Þegar hann var kominn nálægt staðnum þar sem ættingjar Abrahams bjuggu nam hann staðar við brunn. Þetta var síðla dags, um það leyti er konurnar í borginni voru vanar að koma til að sækja vatn í brunninn. Þjónn Abrahams sagði þess vegna í bæn til Jehóva: 'Megi sú kona, sem gefur mér og úlföldunum að drekka, vera sú sem þú velur handa Ísak.‘

Rebekka hittir Ísak

Áður en langt um leið kom Rebekka til að sækja vatn. Þegar þjónninn bað hana um að gefa sér að drekka gerði hún það. Síðan sótti hún einnig nóg vatn handa öllum úlföldunum sem voru mjög þyrstir. Það var erfitt verk því að úlfaldar drekka ósköpin öll af vatni.

Þegar Rebekka hafði lokið þessu spurði þjónn Abrahams hvað faðir hennar héti. Hann spurði einnig hvort hann mætti gista á heimili þeirra yfir nóttina. Hún svaraði: 'Faðir minn heitir Betúel og þú getur gist hjá okkur því að þar er nægilegt húsrúm.‘ Þjónn Abrahams vissi að Betúel var sonur Nahors sem var bróðir Abrahams. Hann féll þess vegna á kné og þakkaði Jehóva fyrir að leiða sig til ættingja Abrahams.

Um kvöldið sagði þjónn Abrahams þeim Betúel og Laban, bróður Rebekku, hvers vegna hann væri þangað kominn. Þeir samþykktu báðir að Rebekka mætti fara með honum og giftast Ísak. Hvað sagði Rebekka þegar hún var spurð? Hún sagði einnig já. Hún vildi fara. Strax næsta dag stigu þau á bak úlföldunum og hófu hina löngu ferð til baka til Kanaanlands.

Það var kvöld þegar þau komu á leiðarenda. Rebekka kom auga á mann sem var á gangi úti á akrinum. Það var Ísak. Hann gladdist við að sjá Rebekku. Sara, móðir hans, var dáin þrem árum áður og hann var enn þá sorgbitinn vegna þess. En Ísak fékk mikla ást á Rebekku og tók aftur gleði sína.

1. Mósebók 24:1-67.