Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 9: Nói smíðar örk

Saga 9: Nói smíðar örk
Fólkið hlær að Nóa

NÓI átti eiginkonu og þrjá syni. Synir hans hétu Sem, Kam og Jafet. Þeir áttu allir eiginkonur. Þess vegna voru átta manns í fjölskyldu Nóa.

Nú lét Guð Nóa vinna óvenjulegt verk. Hann sagði honum að smíða stóra örk. Þessi örk var á stærð við stórt skip en líktist frekar stórum og löngum kassa. 'Láttu hana vera þrjár hæðir,‘ sagði Guð, 'og útbúðu herbergi í henni.‘ Herbergin voru fyrir Nóa og fjölskyldu hans, dýrin og þann mat sem þau öll myndu þarfnast.

Guð sagði Nóa einnig að ganga þannig frá örkinni að ekkert vatn gæti lekið inn. Hann sagði: 'Ég ætla að láta mikið vatnsflóð koma og eyða öllum heiminum. Allir sem ekki eru í örkinni munu deyja.‘

Nói og synir hans hlýddu Guði og hófu smíðina. En hitt fólkið hló bara. Það hélt áfram að gera illt. Enginn trúði Nóa þegar hann sagði hvað Guð ætlaði að gera.

Fjölskylda Nóa safnar saman dýrunum og matnum til að fara með í örkina

Það tók langan tíma að smíða örkina af því að hún var svo stór. Loksins, eftir mörg ár, var verkinu lokið. Þá sagði Guð Nóa að koma dýrunum inn í örkina. Hann sagði honum að taka með tvö og tvö af sumum dýrategundum, bæði karldýr og kvendýr. En af öðrum dýrategundum sagði Guð Nóa að taka sjö og sjö. Guð sagði honum einnig að taka með allar hinar margvíslegu fuglategundir. Nói gerði nákvæmlega eins og Guð sagði.

Að þessu loknu fór Nói og fjölskylda hans einnig inn í örkina. Síðan lokaði Guð dyrunum. Fyrir innan beið Nói og fjölskylda hans. Reyndu að ímynda þér að þú sért þarna inni í örkinni með þeim að bíða. Kæmi í raun og veru flóð eins og Guð hafði sagt?

1. Mósebók 6:9-22; 7:1-9.