Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 5: Lífið verður erfitt

Saga 5: Lífið verður erfitt

MIKLIR erfiðleikar mættu Adam og Evu eftir að þau höfðu verið rekin út úr Edengarðinum. Þau urðu að vinna hörðum höndum til að afla sér matar. Í stað fallegra ávaxtatrjáa uxu þyrnar og þistlar út um allt. Þannig fór það þegar Adam og Eva óhlýðnuðust Guði og hættu að vera vinir hans.

Adam vinnur erfiðisvinnu með syni sínum

En verra var þó að Adam og Eva byrjuðu að deyja. Þú manst að Guð varaði þau við að þau myndu deyja ef þau ætu ávöxt af ákveðnu tré. Sama dag og þau átu ávöxtinn byrjuðu þau að deyja. En hvað þau voru heimsk að hlusta ekki á Guð!

Börn Adams og Evu fæddust öll eftir að Guð rak foreldra þeirra út úr Edengarðinum. Það olli því að börnin hlutu einnig að hrörna með aldrinum og deyja.

Hefðu Adam og Eva aðeins hlýðnast Jehóva hefðu þau og börnin þeirra lifað hamingjusömu lífi. Þau hefðu öll getað lifað hamingjusöm að eilífu á jörðinni. Enginn hefði þurft að verða ellihrumur þegar árin liðu, veikjast og deyja.

Guð vill að fólk lifi að eilífu í hamingju og hann lofar að einhvern tíma muni koma að því. Öll jörðin mun ekki aðeins verða falleg heldur mun allt fólkið verða heilbrigt. Allir jarðarbúar munu verða góðir vinir og einnig vinir Guðs.

Eva með börnin sín

En Eva var ekki lengur vinur Guðs. Þess vegna var það ekki auðvelt fyrir hana að fæða börn. Það var sárt. Ertu ekki sammála því að óhlýðni hennar við Jehóva hafi vissulega valdið henni mikilli sorg?

Adam og Eva eignuðust marga syni og dætur. Þegar fyrsti sonur þeirra fæddist nefndu þau hann Kain. Annan son sinn létu þau heita Abel. Hvað kom fyrir þá? Veistu það?

1. Mósebók 3:16-23; 4:1, 2; Opinberunarbókin 21:3, 4.