Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bæn: Kemur hún að gagni?

Bæn: Kemur hún að gagni?

GERIR það okkur eitthvað gott að biðja? Biblían sýnir að svo sé, bænir trúfastra þjóna Guðs komu þeim sannarlega að gagni. (Lúkas 22:40; Jakobsbréfið 5:13) Bænir mæta áskapaðri þörf okkar fyrir samskipti við Guð og geta gert okkur ákaflega gott tilfinningalega og líkamlega. Hvernig?

Segjum að þú eigir barn sem fær gjöf. Myndirðu kenna því að það sé nóg að finna til þakklætis? Eða myndirðu kenna því að tjá þakklæti sitt? Þegar við setjum mikilvægar tilfinningar í orð sjáum við þær í skýrara ljósi og styrkjum þær jafnvel. Á það líka við þegar við tölum við Guð? Sannarlega. Skoðum dæmi.

Bænir til að tjá þakklæti. Þegar við þökkum föður okkar fyrir það góða í lífi okkar beinum við um leið athyglinni að því. Það gerir það að verkum að við finnum til meira þakklætis og erum glaðari og jákvæðari. – Filippíbréfið 4:6.

Dæmi: Jesús tjáði þakklæti sitt fyrir það hvernig Jehóva heyrði og brást við bænum sínum. – Jóhannes 11:41.

Bænir um fyrirgefningu. Þegar við biðjum Guð um fyrirgefningu styrkjum við samvisku okkar, iðrumst enn meir og erum meðvitaðri um alvarleika syndarinnar. Við finnum líka fyrir létti vegna þess að við losnum við sektarkennd.

Dæmi: Davíð bað til Guðs til að tjá iðrun sína og sorg. – Sálmur 51.

Bænir um leiðsögn og visku. Að biðja Jehóva um leiðsögn eða visku til að taka góðar ákvarðanir getur hjálpað okkur að vera einlæglega auðmjúk. Það minnir okkur á takmörk okkar og hjálpar okkur að læra að treysta himneskum föður okkar. – Orðskviðirnir 3:5, 6.

Dæmi: Salómon bað auðmjúkur um leiðsögn og visku til að ríkja yfir Ísraelsþjóðinni. – 1. Konungabók 3:5–12.

Bænir í neyð. Ef við úthellum hjarta okkar í bæn til Guðs þegar við erum í tilfinningalegu uppnámi róar það okkur og við setjum traust okkar á Jehóva en ekki okkur sjálf. – Sálmur 62:9.

Dæmi: Asa konungur bað til Guðs þegar hann stóð andspænis ógnvekjandi óvini. – 2. Kroníkubók 14:10.

Bænir í þágu annarra. Slíkar bænir hjálpa okkur að berjast gegn eigingirni og hafa meiri samúð og samkennd.

Dæmi: Jesús bað fyrir fylgjendum sínum. – Jóhannes 17:9–17.

Bænir til að lofa Guð. Þegar við lofum Jehóva fyrir yndisleg verk hans og eiginleika eykst virðing okkar og þakklæti gagnvart honum. Slíkar bænir geta líka hjálpað okkur að nálgast Guð okkar og faðir.

Dæmi: Davíð lofaði Guð af hjarta fyrir sköpunarverkið. – Sálmur 8.

Annað sem við njótum vegna bænarinnar er „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi“. (Filippíbréfið 4:7) Fáir finna ró í þessum órólega heimi. En að gera það bætir jafnvel heilsuna. (Orðskviðirnir 14:30) Byggist þetta eingöngu á okkar eigin viðleitni? Eða er það háð einhverju mikilvægara?

Bænir gera okkur gott á margvíslegan hátt, líkamlega, tilfinningalega og umfram allt bæta þær samband okkar við Guð.