Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Um hvað ættum við að tala í bænum okkar?

Um hvað ættum við að tala í bænum okkar?

SUMIR álíta að hún hafi verið endurtekin oftar en nokkur kristin bæn. Hvort sem það er rétt eða ekki þá er bænin sem Jesús kenndi, stundum kölluð faðirvorið, sannarlega á meðal þeirra mest misskildu. Milljónir manna fara með hana utanbókar á hverjum degi og stundum oft á dag. En það var ekki þannig sem Jesús ætlaðist til að bænin væri notuð. Hvernig vitum við það?

Rétt áður en Jesús fór með bænina sagði hann: „Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki fara með sömu orðin aftur og aftur.“ (Matteus 6:7) Setti Jesús síðan fram bænina til að menn myndu læra hana og endurtaka þvert ofan í það sem hann var nýbúinn að segja? Að sjálfsögðu ekki. Jesús var að kenna okkur hvað bænir okkar ættu að fjalla um og hvaða málefni ættu að hafa forgang. Skoðum betur hvað hann sagði. Bænina er að finna í Matteusi 6:9–13.

„Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“

Jesús minnir fylgjendur sína þannig á að allar bænir ættu að beinast til föður síns, Jehóva. En veistu hvers vegna nafn Guðs er svona mikilvægt og hvers vegna þarf að helga það eða gera það heilagt?

Frá upphafi mannkynssögunnar hefur heilagt nafn Guðs verið rægt. Andstæðingur Guðs, Satan, hefur kallað Guð lygara og eigingjarnan stjórnanda sem fer ekki með réttmætt vald yfir sköpunarverum sínum. (1. Mósebók 3:1–6) Margir hafa tekið afstöðu með Satan og segja að Guð sé kaldur, grimmur og hefnigjarn eða neita því að til sé skapari yfirhöfuð. Aðrir hafa jafnvel ráðist á nafnið sjálft, tekið burt nafnið Jehóva úr biblíuþýðingum og bannað notkun þess.

Í Biblíunni er sagt að Guð muni leiðrétta allt slíkt óréttlæti. (Esekíel 39:7) Með því að gera það uppfyllir hann allar þarfir okkar og leysir öll vandamál. Hvernig? Svarið við þeirri spurningu er að finna í næstu orðunum í bæn Jesú.

„Láttu ríki þitt koma.“

Það ríkir mikill ruglingur meðal trúarkennara um Guðsríki. En eins og áheyrendur Jesú vissu höfðu spámenn Guðs lengi sagt að Messías, frelsari valinn af Guði, myndi stjórna ríki sem myndi breyta heiminum. (Jesaja 9:6, 7; Daníel 2:44) Það mun helga nafn Guðs með því að afhjúpa lygar Satans og kollvarpa Satan og öllu sem hann hefur komið til leiðar. Guðsríki mun binda enda á stríð, sjúkdóma, drepsóttir og jafnvel dauðann. (Sálmur 46:9; 72:12–16; Jesaja 25:8; 33:24) Þegar þú biður um að Guðsríki komi þá ertu að biðja um að Guð standi við öll þessi loforð.

„Láttu vilja þinn verða á jörð eins og á himni.“

Orð Jesú gefa til kynna að vilji Guðs verði gerður á jörðu rétt eins og á himnum þar sem Guð dvelur. Ekki hefur verið hægt að koma í veg fyrir vilja Guðs á himnum. Þar hefur sonur Guðs háð stríð við Satan og þá sem fylgdu honum og kastað þeim niður til jarðar. (Opinberunarbókin 12:9–12) Þriðji hluti faðirvorsins hefur eins og fyrstu tveir hjálpað okkur að hafa í forgangi það sem mestu máli skiptir – ekki okkar eigin vilja heldur vilja Guðs. Vilji hans kemur alltaf því allra besta til leiðar fyrir allt sköpunarverkið. Þess vegna sagði jafnvel Jesús, sem var fullkominn maður, við föður sinn: „En verði þó ekki minn vilji heldur þinn.“ – Lúkas 22:42.

„Gefðu okkur brauð fyrir daginn í dag.“

Jesús sýndi því næst að við getum líka beðið varðandi okkar eigin þarfir. Það er ekkert rangt við það að biðja til Guðs að við getum séð fyrir okkur á hverjum degi. Þegar við gerum það gleymum við ekki að Jehóva er sá sem ,gefur öllum líf og andardrátt og alla hluti‘. (Postulasagan 17:25) Biblían gefur til kynna að hann er ástríkur faðir sem hefur yndi af því að gefa börnunum sínum það sem þau þurfa. En rétt eins og ástríkir foreldrar svarar hann ekki bænum sem eru börnum hans ekki fyrir bestu.

„Fyrirgefðu skuldir okkar.“

Skuldar þú Guði eitthvað? Þarftu á fyrirgefningu hans að halda? Margir skilja ekki lengur hvað synd er og að hún er mjög alvarlegt mál. En Biblían kennir að synd sé ástæðan fyrir alvarlegustu vandamálunum og orsök dauðans. Þar sem við fæðumst syndarar syndgum við öll oft og eina von okkar um varanlega framtíð er háð fyrirgefningu Guðs. (Rómverjabréfið 3:23; 5:12; 6:23) Það er mikill léttir að komast að því að Biblían segir: „Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa.“ – Sálmur 86:5.

„Frelsaðu okkur frá hinum vonda.“

Gerirðu þér grein fyrir því hve sárlega við þurfum á vernd Guðs að halda? Margir neita að trúa því að hinn vondi, Satan, sé yfirhöfuð til. En Jesús sagði að Satan væri raunverulegur og kallaði hann jafnvel stjórnanda þessa heims. (Jóhannes 12:31; 16:11) Satan hefur spillt þessum heimi sem hann stjórnar og honum er jafn mikið í mun að spilla þér og koma í veg fyrir að þú eigir náið samband við föður þinn, Jehóva. (1. Pétursbréf 5:8) Jehóva er hins vegar langtum sterkari en Satan og hefur ánægju af að vernda þá sem elska hann.

Þetta stutta yfirlit yfir meginatriði bænarinnar sem Jesús kenndi er ekki tæmandi yfir allt sem er viðeigandi að nefna í bænum okkar. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:14 segir um Guð að „hann heyri okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans“. Hafðu því ekki áhyggjur af því að vandamál þín séu of ómerkileg til að tala um þau við Guð. – 1. Pétursbréf 5:7.

En hvað með stað og stund? Skiptir máli hvenær og hvar við förum með bæn?