Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heyrir Guð og svarar bænum okkar?

Heyrir Guð og svarar bænum okkar?

ÞESSI spurning vekur áhuga og forvitni. Biblían sýnir að Jehóva hlustar á bænir. Það veltur að miklu leiti á okkur sjálfum hvort hann hlusti á bænir okkar.

Jesús fordæmdi trúarleiðtogana á fyrstu öld fyrir hræsni þegar þeir báðust fyrir því að þeir hugsuðu aðeins um að sýnast réttlátir í augum annarra. Hann sagði að slíkir menn hefðu „tekið út laun sín að fullu“. Það þýddi að þeir fengu aðeins það sem þeir þráðu mest, athygli manna en ekki það sem þeir þurftu, að Guð hlustaði á bænir þeirra. (Matteus 6:5) Nú á dögum biðja líka margir í samræmi við eigin vilja en ekki Guðs vilja. Þar sem þeir hunsa meginreglur Biblíunnar, sem við höfum rætt, hlustar Guð ekki á bænir þeirra.

En hvað með þig? Hlustar Guð á bænir þínar og svarar þeim? Svarið við þeirri spurningu veltur ekki á félagslegri stöðu þinni, kynþætti eða þjóðerni. Í Biblíunni erum við fullvissuð: „Guð mismunar ekki fólki heldur tekur hann á móti hverjum þeim sem óttast hann og gerir rétt, sama hverrar þjóðar hann er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Eiga þessi orð við um þig? Ef þú óttast Guð berðu djúpa virðingu fyrir honum og vilt ekki valda honum vonbrigðum. Að gera rétt merkir að gera það sem Guð segir að sé rétt frekar en það sem við viljum sjálf gera eða einhverjir aðrir vilja að við gerum. Viltu að Guð hlusti á bænir þínar? Í Biblíunni færðu leiðbeiningar um það hvernig þú átt að biðja svo að Guð hlusti á bænir þínar. *

Margir vænta þess auðvitað að Guð svari bænum þeirra með kraftaverki. En jafnvel á biblíutímanum gerði Guð sjaldan slík kraftaverk. Stundum liðu aldir á milli þess sem Biblían segir að Guð hafi gert kraftaverk. Biblían gefur einnig til kynna að tími kraftaverka tækju enda eftir daga postulanna. (1. Korintubréf 13:8–10) Þýðir þetta að Guð svari ekki bænum nú á dögum? Alls ekki! Skoðum dæmi um bænir sem hann svarar.

Guð gefur visku. Jehóva er fullkomin uppspretta sannrar visku. Hann er örlátur á hana og gefur þeim fúslega sem vilja þiggja leiðbeiningar hans og leitast við að fara eftir þeim. – Jakobsbréfið 1:5.

Guð gefur heilagan anda sinn og alla þá blessun sem fylgir honum. Heilagur andi Guðs er starfskraftur hans. Hann er sterkasta aflið í alheiminum. Hann getur hjálpað okkur að halda út í prófraunum. Hann getur fyllt okkur friði þegar við erum áhyggjufull. Hann getur hjálpað okkur að rækta aðra fallega og dýrmæta eiginleika. (Galatabréfið 5:22, 23) Jesús fullvissaði fylgjendur sína um að Guð gefi hann af örlæti. – Lúkas 11:13.

Guð uppfræðir þá sem leita hans í einlægni. (Postulasagan 17:26, 27) Um allan heim er fólk sem leitar sannleikans í einlægni. Þetta fólk vill kynnast Guði, vita hvað hann heitir, hver fyrirætlun hans er með jörðina og mannkynið og hvernig er hægt að eignast vináttu hans. (Jakobsbréfið 4:8) Vottar Jehóva hitta oft þannig fólk og þeir eru fúsir að hjálpa því að finna svör Biblíunnar við þessum spurningum.

Er það kannski þannig sem þú hefur fengið þetta tímarit? Ertu að leita að Guði? Hann er ef til vill að svara bæn þinni.

^ gr. 5 Í 17. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? er hægt að fá nánari upplýsingar um hvernig við ættum að biðja þannig að Guð hlusti á bænir okkar. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.