Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig ætla ég að nota líf mitt?

Hvernig ætla ég að nota líf mitt?

 KAFLI 38

Hvernig ætla ég að nota líf mitt?

„Ég var ekki vanur að hafa miklar áhyggjur af framtíðinni. En þegar kom að því að ég átti að útskrifast úr skóla áttaði ég mig á því að ég var á leiðinni út í hinn stóra heim og þyrfti að fara að vinna fyrir mér — og borga reikninga.“ — Alex.

ÍMYNDAÐU þér að þú sért að skipuleggja ferðalag langt frá heimaslóðum þínum. Þú myndir örugglega byrja á því að skoða á korti hvaða leið væri best að fara. Það sama má segja um framtíð þína. „Maður hefur marga möguleika,“ segir Michael, ungur maður sem vinnur núna á einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Hvernig geturðu ráðið fram úr öllum þessum valmöguleikum? „Þetta snýst allt um að setja sér markmið,“ segir Michael.

Ímyndaðu þér að markmið sé eins og áfangastaður. Þú kemst líklega ekki á þennan stað með því að ráfa um stefnulaust. Það er miklu betra að skoða kort og ákveða hvaða leið þú ætlar að fara. Þá ertu að fara eftir leiðbeiningunum í Orðskviðunum 4:26: „Veldu fótum þínum beina braut.“ Biblíuþýðingin Contemporary English Version orðar versið svona: „Þú þarft að vita hvert þú stefnir.“

 Á næstu árum áttu eftir að taka mikilvægar ákvarðanir í sambandi við tilbeiðsluna á Guði, atvinnu, hjónaband, fjölskyldu og önnur stór mál. Það er auðveldara að taka viturlegar ákvarðanir ef þú veist hvert þú stefnir. Og þegar þú skipuleggur líf þitt er eitt sem þú mátt alls ekki hunsa.

„Mundu eftir skapara þínum“

Til að njóta raunverulegrar hamingju verðurðu að taka til þín orð hins vitra Salómons konungs: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Prédikarinn 12:1) Með öðrum orðum ættu þær ákvarðanir, sem þú tekur í lífinu, að stjórnast af löngun þinni til að gleðja Guð.

Af hverju skiptir það svona miklu máli? Í Opinberunarbókinni 4:11 segir: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“  Allar lifandi verur á himni og jörð standa í þakkarskuld við skaparann. Ert þú þakklát(ur) fyrir að hann skuli hafa gefið þér „líf og anda og alla hluti“? (Postulasagan 17:25) Finnurðu ekki hjá þér löngun til að gefa Jehóva Guði eitthvað til baka fyrir allt sem hann hefur gefið þér?

Margir ungir vottar, sem muna eftir skapara sínum, hafa sóst eftir að þjóna honum í fullu starfi. Skoðum nokkrar spennandi greinar þjónustunnar sem þú gætir stefnt að.

Brautryðjandastarf. Brautryðjendur verja miklum tíma í boðunarstarfinu. Með þjálfun og reynslu skerpa þeir hæfileika sína sem biblíukennarar.

Að þjóna þar sem þörfin er mikil. Sumir flytjast á svæði þar sem eru fáir boðberar. Aðrir læra nýtt tungumál og starfa með erlendum málhópi í nálægum söfnuði eða flytja jafnvel til annars lands. *

Trúboðsstarf. Hæfir brautryðjendur, sem hafa góða heilsu og þrótt, eru þjálfaðir til að þjóna í öðru landi. Trúboðar lifa spennandi og innihaldsríku lífi.

Betelþjónusta. Þeir sem tilheyra Betelfjölskyldunni þjóna  á deildarskrifstofum Votta Jehóva. Í sumum löndum felur það í sér framleiðslu og flutning á biblíuritum.

Alþjóðlegt sjálfboðastarf. Þeir sem vinna við byggingarvinnu á alþjóðavettvangi ferðast til annarra landa til að hjálpa við byggingu ríkissala, mótshalla og deildarskrifstofa.

Þjónustuþjálfunarskólinn. Hæfir einhleypir öldungar og safnaðarþjónar fá þjálfun í safnaðarmálum og ræðumennsku. Sumir nemendur skólans eru sendir til að þjóna í öðru landi.

Skipuleggðu „ferðalagið“

Það er háleitt markmið að stefna að þjónustu í fullu starfi og það mun færa þér mikla blessun. En til að það gangi eftir er nauðsynlegt að skipuleggja sig. Spyrðu þig til dæmis: Hvaða hæfileika og kunnáttu hef ég sem ég gæti nýtt til að sjá fyrir mér?

Kelly stefndi að því að verða brautryðjandi þannig að hún skipulagði sig eftir því þegar hún valdi sér vinnu. „Ég varð að velja mér starfsgrein sem gerði mér fært að vera brautryðjandi,“ segir hún.

 Kelly fór í starfsnám í framhaldsskóla. Það hjálpaði henni að ná helsta markmiði sínu. „Það sem ég vildi framar öllu var að þjóna í fullu starfi,“ segir hún. „Allt annað skipti minna máli.“ Kelly er mjög ánægð með það sem hún valdi. „Mér finnst þetta hafa verið ein besta ákvörðun sem ég hefði getað tekið,“ segir hún.

Biddu um leiðsögn

Ef þú værir að ferðast um ókunnar slóðir þyrftirðu mjög líklega að spyrja til vegar. Þú getur gert hið sama þegar þú skipuleggur framtíð þína. Fáðu álit annarra. Í Orðskviðunum 20:18 segir: „Vel ráðin áform fá framgang.“

Foreldrar þínir geta veitt góða leiðsögn. En þú getur líka þegið ráð hjá öðrum þroskuðum trúsystkinum sem hafa  sýnt með lífi sínu að þau fylgja visku Guðs. „Leitaðu til fullorðinna sem eru til fyrirmyndar í söfnuðinum þínum eða í nágrannasöfnuðum,“ ráðleggur Roberto sem er á þrítugsaldri og þjónar á Betel.

Jehóva Guð vill meira en nokkur annar hjálpa þér að taka þannig ákvarðanir í lífinu að þú hljótir sem mesta hamingju. Biddu hann þess vegna um að hjálpa þér ,að skilja hver sé vilji hans‘ í sambandi við framtíð þína. (Efesusbréfið 5:17) Fylgdu á öllum sviðum lífsins ráðunum í Orðskviðunum 3:5, 6: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“

Nánari upplýsingar um þetta efni er að finna á mynddisknum „Young People Ask — What Will I Do With My Life?“ Hann er fáanlegur á meira en 30 tungumálum.

[Neðanmáls]

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Reynið mig . . . segir Drottinn hersveitanna, og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun.“ — Malakí 3:10.

RÁÐ

Talaðu við nokkra boðbera sem hafa þjónað Jehóva í fullu starfi í mörg ár. Reyndu að komast að því hvers vegna þeir völdu þetta ævistarf og hvernig þeim finnst Jehóva hafa blessað þá.

VISSIR ÞÚ . . .?

Rafstraumur getur knúið raftæki. Sömuleiðis getur heilagur andi Guðs hjálpað þér að áorka miklu í þjónustu hans. — Postulasagan 1:8.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Til að hjálpa mér að hafa meiri ánægju af boðunarstarfinu ætla ég að tala við ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Hvaða kunnáttu og hæfileikum býrðu yfir?

● Með hvaða hætti geturðu notað hæfileika þína til að lofa Jehóva?

● Hvaða greinar þjónustunnar, sem nefndar voru í þessum kafla, höfða mest til þín?

[Innskot á bls. 313]

„Ég ber mikla virðingu fyrir foreldrum mínum. Það sem hefur haft góð áhrif á mig er eldmóður þeirra í boðunarstarfinu, hvernig þau hafa tekist á við fjárhagserfiðleika og hvernig þau hafa hvatt mig til að þjóna í fullu starfi.“ — Jarrod

 [Mynd á bls. 314]

Vinnublað

Markmiðin mín

Merktu við hvaða markmið þú myndir vilja setja þér. Notaðu auðu línurnar til að laga markmiðin að þínum óskum eða búa til ný markmið.

Boðunarstarfið

□ Fjölga starfstímum mínum í ․․․․․ klukkutíma á mánuði

□ Dreifa ․․․․․ ritum í hverjum mánuði

□ Nota Biblíuna þegar ég tala um trú mína

□ Fara í ․․․․․ endurheimsóknir á mánuði

□ Hefja biblíunámskeið

Önnur markmið: ․․․․․

Sjálfsnám

□ Lesa ․․․․․ blaðsíður í Biblíunni á hverjum degi

□ Undirbúa mig fyrir hverja samkomu

□ Rannsaka eftirfarandi biblíuefni: ․․․․․

Söfnuðurinn

□ Svara að minnsta kosti einu sinni á hverri samkomu

□ Tala við einhvern eldri bróður eða systur sem mig langar til að kynnast betur

□ Heimsækja aldrað eða lasið trúsystkini

Önnur markmið: ․․․․․

Dagsetning

Skoðaðu listann aftur eftir hálft ár og athugaðu hvernig þér hefur tekist að ná markmiðum þínum. Lagfærðu þau eða bættu nýjum við eftir þörfum.

[Mynd á bls. 312]

Ef þú hefur markmið kemurðu í veg fyrir að þú sóir kröftum þínum til einskis.