Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar á að draga mörkin?

Hvar á að draga mörkin?

 KAFLI 4

Hvar á að draga mörkin?

Rétt eða rangt . . .

Kærustupar má ekki undir neinum kringumstæðum snerta hvort annað.

□ Rétt

□ Rangt

Kærustupar getur gert sig sekt um saurlifnað án þess að hafa kynmök.

□ Rétt

□ Rangt

Kærustupar, sem sýnir hvort öðru ekki innileg ástaratlot, getur ekki verið ástfangið í raun.

□ Rétt

□ Rangt

ÞÚ HEFUR örugglega hugsað mikið um þessi mál. Ef þú átt kærasta eða kærustu getur stundum verið erfitt að vita hvar á að draga mörkin þegar kemur að því að sýna ástúð. Skoðum aðeins nánar fullyrðingarnar þrjár hér að ofan og sjáum hvernig orð Guðs hjálpar okkur að svara spurningunni: Hvar á að draga mörkin?

 Kærustupar má ekki undir neinum kringumstæðum snerta hvort annað.

Rangt. Biblían fordæmir ekki eðlilega og hreina tjáningu á ástúð. Til dæmis getum við lesið um stúlkuna Súlammít og fjárhirði nokkurn sem voru ástfangin. Samband þeirra var hreint og heiðvirt. Þau sýndu samt hvort öðru einhverja ástúð áður en þau giftust. (Ljóðaljóðin 1:2; 2:6; 8:5) Kærustupari, sem er alvarlega að hugleiða hjónaband, getur sömuleiðis fundist það eiga við að sýna hvort öðru viðeigandi ástúð. *

En þau verða engu að síður að vera vel á verði. Kossar, faðmlög eða eitthvað annað, sem æsir upp kynhvötina, getur leitt til siðleysis. Þótt fólk hafi góðan ásetning er alltof auðvelt að ganga of langt og leiðast út í kynferðislegt siðleysi. — Kólossubréfið 3:5.

Kærustupar getur gert sig sekt um saurlifnað án þess að hafa kynmök.

Rétt. Gríska orðið porneiʹa, sem þýtt er ,saurlifnaður‘ og ,frillulífi‘, hefur breiða merkingu. Það er notað um allar kynlífsathafnir utan hjónabands og lýsir misnotkun kynfæranna. Saurlifnaður felur því ekki aðeins í sér samfarir heldur líka munnmök, endaþarmsmök og það að fróa annarri manneskju.

En Biblían fordæmir ekki bara saurlifnað og frillulífi. Páll postuli skrifaði: „Holdsins verk  eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi [„taumleysi“, New World Translation].“ Hann bætti við: „Þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.“ — Galatabréfið 5:19-21.

Hvað er „óhreinleiki“? Gríska orðið felur í sér alls kyns óhreinleika í tali og hegðun. Það væri vissulega óhreinleiki að láta hendur sínar laumast inn undir föt hins aðilans, færa hann úr fötum eða þukla vissa líkamshluta, svo sem brjóstin. Biblían setur það að gæla við brjóstin í samband við þann unað sem er einungis ætlaður hjónum. — Orðskviðirnir 5:18, 19.

Sumir unglingar eru blygðunarlausir og bjóða siðferðisreglum Guðs birginn. Þeir ganga of langt af ásettu ráði, eða sækjast af græðgi eftir sem flestum til að stunda kynferðislegan óhreinleika með. Þeir eru þannig sekir um það sem Páll postuli kallaði „taumleysi“. Gríska orðið, sem svo er þýtt, merkir ,taumlaus ástríða, svívirðileg verk, óhóf, ósvífni‘. Þú vilt örugglega ekki verða ,tilfinningalaus‘ með því að ,ofurselja þig lostalífi svo að þú fremjir alls konar siðleysi af græðgi‘. — Efesusbréfið 4:17-19.

 Kærustupar, sem sýnir hvort öðru ekki innileg ástaratlot, getur ekki verið ástfangið í raun.

Rangt. Gagnstætt því sem margir halda styrkja óviðeigandi ástaratlot ekki sambandið. Þvert á móti rífa þau niður gagnkvæma virðingu og traust. Lítum á reynslu Láru. „Dag einn, þegar mamma mín var ekki heima, kom kærasti minn í heimsókn til að horfa á sjónvarpið. Í fyrstu hélt hann bara í höndina mína en síðan fór hann að snerta mig á öðrum stöðum. Ég þorði ekki að segja honum að hætta því að ég var hrædd um að hann myndi reiðast og vilja fara,“ segir hún.

Hvað finnst þér? Þótti kærasta Láru virkilega vænt um hana eða var hann bara að hugsa um sínar eigin langanir? Ef einhver reynir að fá þig til að gera eitthvað óhreint, elskar hann þig þá í raun og veru?

Þegar strákur þrýstir á stelpu til að ganga gegn samvisku sinni og kristnum siðferðisreglum brýtur hann lög Guðs og grefur undan þeirri fullyrðingu að hann elski hana einlæglega. Og stelpa, sem gefur fúslega eftir, lætur nota sig. Það sem verra er þá hefur hún framið óhreinan verknað — jafnvel gert sig seka um saurlifnað. * — 1. Korintubréf 6:9, 10.

Setjið skýr mörk

Ef þú átt kærasta eða kærustu, hvernig getið þið forðast óviðeigandi ástaratlot? Það er skynsamlegt að setja skýr  mörk fyrir fram. Í Orðskviðunum 15:22 segir: „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ Ræðið þess vegna saman um hvað sé viðeigandi. Ef þið bíðið með að setja reglur um þessa hluti þangað til þið eruð í aðstæðum þar sem ástríðurnar geta blossað upp er það eins og að bíða með að setja upp reykskynjara þangað til það kviknar í húsinu.

Það getur auðvitað verið erfitt að ræða svona viðkvæmt mál — jafnvel vandræðalegt — ekki síst þegar sambandið er rétt að hefjast. En með því að setja skýr mörk um hegðun getið þið komið í veg fyrir að alvarleg vandamál komi  upp seinna meir. Skynsamleg mörk geta virkað eins og reykskynjari sem lætur í sér heyra við fyrstu merki elds. Og það hversu vel ykkur gengur að tala um slík mál getur líka gefið ykkur hugmynd um hversu mikil framtíð er í þessu sambandi. Sjálfstjórn, þolinmæði og óeigingirni eru grunnurinn að góðu kynlífi í hjónabandi. — 1. Korintubréf 7:3, 4.

Það er ekki alltaf auðvelt að fylgja meginreglum Guðs. En þú getur treyst leiðbeiningum hans. Í Jesaja 48:17 segir Jehóva að hann sé sá „sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga“. Já, Jehóva vill þér aðeins það besta!

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 24 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

Í NÆSTA KAFLA

Þú ert ekki afbrigðilegur þótt þú hafir ekki sofið hjá. Þú hefur þvert á móti tekið rétta ákvörðun. Finndu út hvers vegna.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Sums staðar í heiminum telst það ókurteisi og jafnvel óviðeigandi að kærustupar sýni hvort öðru ástúð á almannafæri. Kristið fólk leggur sig fram um að hegða sér þannig að það hneyksli ekki aðra. — 2. Korintubréf 6:3.

^ gr. 25 Málin, sem hér eru rædd, eiga að sjálfsögðu við um bæði kynin.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Kærleikurinn . . . hegðar sér ekki ósæmilega.“ — 1. Korintubréf 13:4, 5.

RÁÐ

Hittist í hópi eða hafið siðgæðisvörð með í för. Forðist varasamar aðstæður, eins og að vera ein í húsi eða íbúð eða kyrrstæðum bíl.

VISSIRÐU . . . ?

Ef maður er trúlofaður þarf auðvitað að ræða ýmis viðkvæm mál. En gróft tal, sem ætlað er að vekja kynferðislegar langanir, er ein mynd óhreinleika — líka þótt slíkt eigi sér stað í gegnum síma eða með SMS-skilaboðum.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ég get forðast siðleysi með því að ․․․․․

Ef kærasti minn eða kærasta reynir að fá mig til að gera eitthvað óhreint ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Hvar myndirðu draga mörkin varðandi líkamlega snertingu við hitt kynið?

Útskýrðu muninn á frillulífi, óhreinleika og taumleysi.

[Innskot á blaðsíðu 46]

„Ég og unnusti minn höfum lesið saman biblíutengdar greinar um hvernig við getum haldið okkur siðferðilega hreinum. Við erum þakklát fyrir það hvernig þær hafa hjálpað okkur að halda samviskunni hreinni.“— Leticia

[Rammi á bls. 44]

Hvað ef við höfum gengið of langt?

Hvað eigið þið að gera ef þið hafið hegðað ykkur ósæmilega? Ekki blekkja sjálf ykkur og halda að þið getið leyst vandann upp á eigin spýtur. „Ég bað til Jehóva: ,Hjálpaðu okkur að gera þetta ekki aftur,‘“ segir unglingur nokkur. „Stundum virkaði það en stundum ekki.“ Talið þess vegna við foreldra ykkar. Í Biblíunni erum við hvött til að kalla til okkar öldunga safnaðarins. (Jakobsbréfið 5:14) Þessir kristnu umsjónarmenn geta gefið ykkur leiðbeiningar, ráð og áminningar þannig að þið getið aftur eignast gott samband við Guð.

[Myndir á bls. 47]

Myndirðu bíða með að setja reykskynjara í húsið þitt þangað til það kviknaði í? Þá skuluð þið ekki heldur bíða þangað til ástríðurnar blossa upp áður en þið ákveðið hvar draga eigi mörkin.