Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég tekið gagnrýni?

Hvernig get ég tekið gagnrýni?

 KAFLI 21

Hvernig get ég tekið gagnrýni?

„Mamma var eins og rannsóknarlögregla — alltaf að leita að einhverju sem ég hafði gert rangt. Áður en ég náði að klára það sem ég átti að gera á heimilinu rannsakaði hún allt sem ég gerði í leit að mistökum.“ — Craig.

„Foreldrar mínir voru alltaf að skamma mig út af einhverju. Þau sögðu að ég væri ekkert að reyna að taka mig á — hvorki í skólanum, á heimilinu eða í söfnuðinum. Þau létu mig aldrei í friði.“ — James.

 FINNST þér stundum eins og ekkert sem þú gerir sé nógu gott fyrir foreldra þína? Finnst þér eins og það sé verið að skoða allt sem þú gerir undir stækkunargleri — að það sé fylgst með hverri hreyfingu þinni og stöðugt verið að gagnrýna þig en þú standist aldrei væntingar þeirra?

Hverja af eftirfarandi athugasemdum heyrir þú oftast?

□ Herbergið þitt er alltaf á hvolfi.

□ Þú horfir of mikið á sjónvarp.

□ Þú vakir of lengi fram eftir.

□ Þú ferð aldrei tímanlega á fætur.

Skrifaðu á línuna hér fyrir neðan þá athugasemd eða gagnrýni sem pirrar þig mest.

․․․․․

Athugasemdir og gagnrýni geta að sjálfsögðu farið í taugarnar á þér. En hugleiddu hina hliðina á málinu: Ef þú fengir aldrei neinar leiðbeiningar eða aga myndirðu þá ekki velta fyrir þér hvort foreldrunum þætti vænt um þig? (Hebreabréfið 12:8) Agi er í rauninni merki um væntumþykju foreldranna. Í Biblíunni segir að faðir agi þann son „sem hann hefur mætur á“. — Orðskviðirnir 3:12.

Þú getur þakkað fyrir að foreldrunum skuli þykja nógu vænt um þig til að leiðrétta þig og aga. Þú ert nú einu sinni á unglingsaldri og hefur takmarkaða reynslu. Inn á milli hlýturðu að þurfa að fá einhverja leiðréttingu. Án leiðsagnar gætirðu auðveldlega látið yfirbugast af ,æskunnar girndum‘. — 2. Tímóteusarbréf 2:22.

En það er sárt!

„Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar.“ (Hebreabréfið 12:11) Þetta á sérstaklega við þegar maður er ungur. Og það er ekkert skrítið! Persónuleiki þinn er að þroskast smám saman. Þú ert enn að fullorðnast og komast að því hver þú ert. Jafnvel þótt gagnrýni sé vandlega úthugsuð og sett fram á vingjarnlegan hátt getur hún samt vakið með þér gremju.

 Þessi viðbrögð eru skiljanleg af því að sjálfsmat þitt mótast auðveldlega af því sem aðrir segja um þig. Og álit foreldranna hefur sérstaklega mikil áhrif á sjálfsmat þitt. Þess vegna getur það verið mjög sárt þegar foreldri leiðréttir þig eða kvartar undan því hvernig þú gerir eitthvað.

Ættirðu að draga þá ályktun að ekkert sem þú gerir sé nógu gott eða að þú sért algerlega vonlaus bara af því að foreldrarnir benda á nokkra galla í fari þínu? Nei, því að enginn er fullkominn. (Prédikarinn 7:20) Það að gera mistök er hluti af þroskaferlinu. (Jobsbók 6:24) En hvað ef þér finnst foreldrarnir gagnrýna þig mikið ef þú gerir eitthvað rangt en hrósa þér lítið ef þú gerir eitthvað rétt? Það getur verið sárt. En það þýðir samt alls ekki að allt sem þú gerir sé mislukkað.

Hvað býr að baki gagnrýninni?

Stundum gæti pabbi þinn eða mamma virst of gagnrýnin, ekki af því að þú gerðir eitthvað rangt heldur bara af því að hann eða hún er í slæmu skapi. Var þetta erfiður dagur hjá mömmu þinni? Glímir hún við einhver veikindi? Þá gæti þurft lítið til áður en hún fer að skamma þig, til dæmis fyrir smá óreiðu í herberginu þínu. Er pabbi þinn pirraður og áhyggjufullur út af fjármálum fjölskyldunnar? Þá gætu hugsunarlaus orð hans virkað eins og „spjótsstungur“. (Orðskviðirnir 12:18, Biblían 1981) Að sjálfsögðu er leiðinlegt að fá ósanngjarna gagnrýni. En í stað þess að hugsa of mikið um það sem er ósanngjarnt — sem mun bara gera þig enn leiðari — skaltu reyna að horfa fram hjá göllum foreldra þinna. Mundu þetta: „Öll hrösum við margvíslega. Hrasi  einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn.“ — Jakobsbréfið 3:2.

Foreldrar eru ófullkomnir og þeim getur líka fundist eins og ekkert sem þeir geri sé nógu gott. Ef þér verða á mistök gæti það meira að segja látið þeim líða eins og þau hafi brugðist. Tökum dæmi. Móðir gagnrýnir dóttur sína fyrir að fá lélegar einkunnir í skóla. En móðirin gæti verið að hugsa: Ég er hrædd um að ég sé léleg móðir af því að mér tekst ekki að hvetja dóttur mína til að standa sig vel í skóla.

Að halda ró sinni

Hvað svo sem býr að baki gagnrýninni er spurningin þessi: Hvernig geturðu tekið henni? Í fyrsta lagi skaltu gæta þess að svara ekki reiðilega til baka. Í Orðskviðunum 17:27 segir: „Hygginn maður er orðvar og skynsamur maður er fáorður.“ Hvernig geturðu verið „orðvar“ eða gætt tungunnar þegar þú verður fyrir gagnrýni? Prófaðu eftirfarandi tillögur:

Hlustaðu. Í stað þess að réttlæta þig strax og halda fram sakleysi þínu skaltu reyna að halda aftur af tilfinningunum og hlusta á það sem foreldrar þínir hafa að segja. Lærisveinninn Jakob sagði að maður ætti að vera „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“. (Jakobsbréfið 1:19) Ef þú reiðist og grípur fram í fyrir foreldrum þínum halda þeir að þú sért ekki að hlusta. Það á eftir að ergja þau og hafa í för með sér meiri gagnrýni en ekki minni.

 Einbeittu þér. Stundum gæti þér fundist leiðbeiningarnar vera gefnar á óvingjarnlegan hátt. Í stað þess að hugsa of mikið um það hvernig foreldrarnir töluðu við þig skaltu einbeita þér að því hvað þau sögðu. Spyrðu þig: Hvað af þessu get ég tekið til mín? Hef ég heyrt foreldra mína kvarta undan þessu áður? Hvað kostar það mig að fara að óskum þeirra? Mundu að áhyggjur þeirra eru sprottnar af kærleika þótt það virðist kannski ekki vera þannig í augnablikinu. Ef þeim þætti ekki vænt um þig myndu þau ekki aga þig. — Orðskviðirnir 13:24.

Taktu undir. Ef þú endurtekur vingjarnlega með eigin orðum það sem foreldrar þínir sögðu fullvissarðu þá um að þú hafir verið að hlusta. Tökum dæmi. Foreldrar þínir gætu sagt: „Herbergið þitt er alltaf á hvolfi. Þú ferð ekki út fyrir hússins dyr fyrr en þú hefur lagað til.“ Ef til vill finnst þér ekkert vera að herberginu þínu. En það er sennilega lítil hjálp í því að tilkynna þeim það. Reyndu að sjá málin frá sjónarhóli þeirra. Það væri betra að sleppa allri kaldhæðni og segja eitthvað á borð við: „Þú hefur rétt fyrir þér. Það er drasl í herberginu mínu. Viltu að ég lagi til í því núna eða eftir mat?“ Ef þú tekur undir áhyggjur foreldra þinna eru meiri líkur á að það dragi úr spennunni. Að sjálfsögðu  verðurðu síðan að gera það sem þau eru búin að biðja þig um. — Efesusbréfið 6:1.

Bíddu. Bíddu með að útskýra þína hlið á málinu þangað til þú hefur gert eins og foreldrarnir báðu þig um. „Sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 10:19) Þegar foreldrarnir sjá að þú hlustar á þá er líklegra að þeir hlusti á þig.

Skrifaðu á línuna hvaða atriði af þessum fjórum þú þarft helst að vinna í. ․․․․․

Af hverju er það þess virði?

Værirðu fús til að leggja á þig líkamlegt erfiði til að finna gull og gersemar? Í Biblíunni segir að viska sé dýrmætari en nokkur fjársjóður. (Orðskviðirnir 3:13, 14) En hvernig verður maður vitur? Í Orðskviðunum 19:20 segir: „Hlýddu ráðum og taktu umvöndun svo að þú verðir vitur að lokum.“ Að vísu getur stundum verið óþægilegt að fá ráð og umvöndun. En ef maður tínir saman viskumolana í  hverri þeirri gagnrýni sem maður fær safnar maður fjársjóði sem er dýrmætari en gull.

Allir verða að horfast í augu við það að gagnrýni er hluti af lífinu. Þú þarft nú þegar að þola hana frá foreldrum þínum og kennurum. Í framtíðinni þarftu örugglega að taka gagnrýni frá vinnuveitendum og öðrum. Ef þú lærir að taka gagnrýni á heimilinu verður þú duglegri nemandi, traustari starfskraftur og sjálfsöruggari manneskja. Það hlýtur að vera þess virði að þola svolitla gagnrýni til að hljóta þann árangur.

Í NÆSTA KAFLA

Finnst þér reglur heimilisins hamla þér? Skoðum hvernig þú getur sætt þig við það frelsi sem þú hefur — og jafnvel hvernig þú getur fengið meira frelsi.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn.“ — Orðskviðirnir 1:5.

RÁÐ

Hér eru tvö ráð sem geta auðveldað þér að taka við leiðbeiningum frá foreldrum þínum:

Lærðu að meta hvert það hrós sem þú færð ásamt gagnrýninni.

Biddu um skýringu ef þú skilur ekki vandamálið eða veist ekki til hvers foreldrarnir ætlast af þér.

VISSIR ÞÚ . . .?

Sumir foreldrar eiga erfitt með að sýna börnunum sínum ástúð því að þeir fengu sjálfir ekki næga ást eða skilning frá foreldrum sínum.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Næst þegar foreldrar mínir gagnrýna mig ætla ég að ․․․․․

Ef mér finnst foreldrarnir gagnrýna mig of mikið ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Af hverju gæti þér fundist erfitt að taka gagnrýni?

Hver gæti verið ástæðan fyrir því að foreldrarnir eru gagnrýnir í þinn garð?

Hvernig geturðu nýtt þér sem best þær leiðbeiningar sem þú færð?

[Innskot á bls. 177]

„Alveg frá því að ég man eftir mér hefur mamma öskrað á mig og ég svarað henni fullum hálsi. En núna reyni ég að fara eftir því sem Biblían segir. Það virkar. Framkoma mömmu er farin að breytast. Þegar ég fylgdi meginreglum Biblíunnar fór ég að skilja hana betur. Samband okkar hefur batnað.“— Marleen

[Mynd á bls. 180]

Ef maður tínir saman viskumolana í hverri þeirri gagnrýni sem maður fær safnar maður fjársjóði sem er dýrmætari en gull.