Hoppa beint í efnið

Bréf frá hinu stjórnandi ráði – 2017

Bréf frá hinu stjórnandi ráði – 2017

Kæru bræður og systur:

Á sjöundu öld f.Kr. sá Esekíel spámáður magnaða sýn. Hann sá risastórt farartæki, himnavagn, sem var stjórnað af Drottni alheims. Það sem vakti mesta undrun við þetta farartæki var hvernig það hreyfðist. Það þaut áfram á ljóshraða og hægði hvorki á sér né snerist þegar breytt var um stefnu. – Esek. 1:4, 9, 12, 14, 16-27.

Sýnin minnir okkur á að himneskur hluti alheimssafnaðar Jehóva er alltaf á ferðinni. Hvað um jarðneska hlutann? Það var augljóst síðasta þjónustuár að Jehóva knýr skipulagðan söfnuð sinn á jörðinni til að halda uppi undraverðum hraða.

Hér í Bandaríkjunum hefur Betelfjölskyldan verið önnum kafin við flutninga frá Brooklyn til nýju aðalstöðvanna í Warwick í New York-ríki og í íbúðir utan þeirra eða á ný svæði utan Betel. Betelítar á deildarskrifstofum víða um heim eru líka uppteknir við að byggja, endurbyggja, sameina deildarskrifstofur og flytja. Hvað um þig? Þótt þú hafir ekki verið upptekinn við að flytja búferlum hefurðu eflaust haft í nógu að snúast.

Það hvetur okkur í stjórnandi ráði og snertir okkur djúpt að sjá að fólk Guðs um allan heim er samstíga söfnuði Guðs og uppteknara en nokkru sinni fyrr. Margir hafa flust til að þjóna þar sem þörfin er meiri. Aðrir hafa skipt um starfsvettvang, til dæmis með því að boða trúna á öðru tungumáli. Margir hafa reynt starfsaðferð sem þeir höfðu ekki reynt eða þekkt áður eða fært út kvíarnar í þjónustunni með öðrum hætti. Allir trúir kristnir menn, þar á meðal aldraðir og lasburða, sýna tryggð sína með því halda áfram í kapphlaupinu um lífið. Þeir hafa nóg að gera í þjónustu Jehóva og leggja með því sitt af mörkum til að afhjúpa Satan sem lygara. – 1. Kor. 9:24.

Þú mátt vera viss um að Jehóva tekur eftir hugarfarinu sem þú sýnir. (Hebr. 6:10) Fornfýsi þín fær okkur til að hugsa um Abraham og Söru. Þegar Abraham var á áttræðisaldri fluttist hann burt frá Úr í Kaldeu og fór með fjölskyldu sína alla leið til Kanaanslands. Þar bjó hann síðustu hundrað ár ævinnar í tjöldum. Hann og ástkær eiginkona hans sýndu mikla fórnfýsi. – 1. Mós. 11:31; Post. 7:2, 3.

Sýnir þú sams konar hugarfar? Þið sem hafið sýnt þolgæði á þessum erfiðu tímum farið öll eftir því sem Jesús bauð okkur. Hann sagði: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.“ – Matt. 28:19.

Með því að nota orðið „farið“ gaf Jesús í skyn að við ættum að vera upptekin eða virk. Það er mikið gleðiefni að sjá allt sem kappsamir fylgjendur Jesú hafa áorkað á síðastliðnu ári. Máttug hönd Jehóva hefur greinilega verið að verki og blessað það verkefni að boða öllum þjóðum fagnaðarboðskap um Guðsríki. – Mark. 13:10.

Margir bregðast vel við boðskapnum. Boðberar voru flestir 8.340.847 á síðasta ári og haldin voru að meðaltali 10.115.264 heimabiblíunámskeið í hverjum mánuði. Himnavagninn er augljóslega á ferðinni og þið eruð það líka. Haldið því áfram ykkar góða verki þann stutta tíma sem eftir er áður en Jehóva lokar dyrum hjálpræðisins.

Það er vel við hæfi að árstextinn 2017 skuli vera „Treystu Jehóva og gerðu gott“. (Sálm. 37:3) Þegar þú ferð eftir þessum orðum og veitir Jehóva heilaga þjónustu með því að gera gott sýnirðu að þú treystir honum. Mundu alltaf að þú ert ekki einn. Orð Jesú eru í fullu gildi: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ – Matt. 28:20.

Þú mátt treysta því að Jehóva heldur áfram að blessa trúfasta þjónustu þína. Hvort sem framlag þitt er stórt eða smátt kann Jehóva að meta það þegar þú gerir þitt besta og þjónar af réttum hvötum. Það snertir hjarta Jehóva og vekur velþóknun hans þegar við gefum slíkar gjafir. (2. Kor. 9:6, 7) Haltu þess vegna áfram að nálægja þig kærleiksríkum föður okkar með því að biðja reglulega til hans, lesa og hugleiða orð hans, sækja samkomur og taka virkan þátt í að boða trúna.

Djöfullinn „hefur nauman tíma“ og þangað til sá tími rennur út er hann staðráðinn í að gera allt sem hann getur til að veikja þann ásetning okkar að vera Jehóva ráðvönd. (Opinb. 12:12) Varðveittu náið samband við Jehóva, þá mistekst Satan hvað sem hann reynir. (Sálm. 16:8) Okkur þykir ákaflega vænt um ykkur öll og við metum mikils aðstoð ykkar við að gæta hagsmuna Drottins varðandi ríki hans á þessum síðustu dögum.

Bræður ykkar,

Stjórnandi ráð Votta Jehóva